11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

216. mál, iðnlánasjóður

Frsm., (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Þeir, sem mættir voru á fundi iðnn., sem þetta mál fékk til meðferðar, voru allir sammála um að mæla með frv. óbreyttu. Og þar að auki er mér kunnugt um, að a. m. k. annar þeirra nm., sem ekki tóku þátt í afgreiðslu málsins í n., er þessu máli samþykkur.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það var gerð ýtarleg grein fyrir því af hv. þm. Borgf. við 1. umr. málsins. En höfuðefni frv. er hækkun á framlagi úr ríkissjóði úr 65 þús. kr. í 300 þús. kr. og einnig að auka möguleika sjóðsins til þess að gefa út handhafaskuldabréf.

Hér er um þarft mál að ræða, og með tilliti til þeirrar nýsköpunar, sem á sér stað nú á sviði landbúnaðar og útvegsmála, þá má ekki gleyma þriðja þætti íslenzkra atvinnugreina, sem er iðnaðurinn. Og einmitt þetta frv. er flutt til þess að gera nokkra úrbót í þessu efni og gefa þeim, sem að iðnaðarframkvæmdum standa, meiri möguleika til þess að auka þær framkvæmdir.

Hér er farið fram á heldur litlar breytingar á gildandi 1., en þó í þá átt, sem mætti að nokkru gagni koma. Ég mæli því með því fyrir hönd iðnn., að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.