11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

16. mál, fjárlög 1946

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Ég vil leiðrétta eina tölu, sem ég sagði skakkt frá, en það var framlag til nýbyggingar þjóðvega. Það er ekki 3.8 millj., heldur 7,2 millj., svo að hækkunin á þessum lið frá því fyrir stríð er ekki tæplega sex til sjöföld, heldur hér um bil tólfföld á við það, sem áður var. Framlag til hafnargerða er einnig ákaflega margfalt á við það, sem var fyrir stríð.

Þá hefur hæstv. dómsmrh., sem er lasinn og getur ekki tekið þátt í þessum umr., beðið mig að skila því út af ummælum hv. þm. Str. í gær um heildsalamálin svo kölluðu, að þau væru látin ganga sinn eðlilega gang, þau væru að vísu ekki rekin sem nein ofsókn á stéttina, en allir, sem sekir reyndust, mundu fá sinn dóm. Tvær réttarsættir hefðu að vísu verið gerðar, önnur samkv. till. sýslumanns Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sem jafnframt á sæti í miðstjórn Framsfl., svo að varla mun hv. þm. Str. geta ímyndað sér, að hann hafi verið að reka erindi stj. þar. Í hinu tilfellinu dó ákærði og málið látið niður falla þess vegna, enda erfitt að reka mál út yfir gröf og dauða.

Út af umr. hér á Alþ. og sérstaklega ræðu hv. 2. þm. S.-M. vil ég benda á það, að framsóknarmenn beita því mikið í öllum sínum áróðri, sem kalla má að segja hálfan sannleikann. Þessi aðferð er mikið notuð í Tímanum. Hún er framkvæmd á þá leið, að aðeins er gefinn nokkur hluti af þeim upplýsingum, sem þarf til að skýra mál til fulls, og á þann hátt, að með þessum upplýsingum verður meiningin allt önnur en verða mundi, ef málið væri upplýst til fulls. Hv. 2. þm. S.- M. beitti þessari aðferð tvisvar í kvöld. Hann lét liggja orð að því og beinlínis fullyrti, að það hefði verið með fullu samkomulagi Sjálfstfl. og Alþfl. við Framsfl., að samræmið milli verðlags og kaupgjalds hefði verið rofið 1940. Hann notaði það m. ö. o. sem rök, að það hefði ekki verið ágreiningur um afgreiðslu málsins. Sama hélt hv. þm. V.-Húnv. fram í Tímanum fyrir alllöngu síðan, og hefur víst ekki verið hirt um að leiðrétta þetta, og því hefur hv. 2. þm. S.-M. talið sér fært að endurtaka sama hálfa sannleikann. Hið sanna í málinu er það, að um þetta fóru fram langvarandi samningar, og var því aðeins gengið að kröfu Framsfl., því að frá þeim kom krafan, að mjög hart var eftir gengið, að þeir lofuðu, að ef lögbindingin væri tekin burt, skyldi hlutfallinu ekki breytt launamönnum í óhag. Fyrir því mætti færa frekari rök, sem ég tek ekki fram hér. Þessu verður ekki mótmælt. Framsfl. ber ábyrgð á því, að þessu hlutfalli var raskað.

Þá vil ég minnast á það, sem hv. 2. þm. S.- M. sagði um kaup á strandferðaskipum. Hann sagði, að stj. hefði fellt till. framsóknarmanna um kaup á nýjum strandferðaskipum á síðasta þ., því að auðvitað ættu þeir hugmyndina, bara vegna þess að till. var flutt af Framsfl. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að þegar ríkisstj. tók við völdum, sat að störfum stjórnskipuð n. til þess að athuga um framtíðarskipulag strandferðarmálanna. Þessi n. hafði ekki lokið störfum fyrr en seint í sumar, er leið. En á útmánuðunum kvisaðist það til Framsfl., að líklega mundi þessi n. leggja til, að keypt yrði eitt strandferðaskip og tvö vöruflutningaskip til áð annast þessar ferðir. Framsfl. bíður þá ekki boðanna, heldur setur út till. um þetta efni, áður en álit mþn. er komið. Málið er notað eins og Framsfl. notar öll mál, fyrst og fremst til áróðurs. Það eðlilega og rétta í málinu hefði verið það, að Framsfl. hefði beðið eftir áliti n. og tekið síðan ákvarðanir, eftir að það álit lá fyrir. En hann gat ekki beðið, heldur flutti hann um þetta þáltill. og segir svo, að stjórnarliðið hafi ráðið niðurlögum hennar, af því að hún var borin fram af Framsfl. En það er rétt, að till. hans var felld af þeirri einföldu ástæðu, að það var beðið eftir till. n. Þegar till. n. kom, var brugðið við fljótt, og frv. fékk svo hraða meðferð og afgreiðslu. Það fer því svo fjarri, að þó að Framsfl. hafi getað á einhvern hátt komizt eftir þessari till. mþn. áður en hún lauk störfum, þá fer því svo fjarri, að hann eigi hugmyndina, heldur var hafður á þessu sá háttur, að beðið var eftir till. mþn. í málinu.

Ég skal svo ekki fara um þetta mörgum fleiri orðum. Hv. þm. Str. minntist á það hér í gær, sem hann kallaði heilbrigða jafnaðarmannaflokka, og skírskotaði til þeirra manna í Alþfl. Íslands, sem væru svipaðs sinnis og vildu snúa frá villu síns vegar og taka upp samstarf við Framsfl. á ný. Ég held, án þess að ég hafi nokkurt umboð, að mér sé óhætt að segja fyrir hönd okkar, að svo urðu viðskipti milli Alþfl. og Framsfl. síðast, að fáa Alþýðuflokksmenn mun fýsa að hefja þá samvinnu á ný, eins og stendur a. m. k. Annars hefur Alþfl. fylgt þeirri stefnu, að láta málefni ráða. Ef honum tekst að koma í framkvæmd áhugamálum sínum, mun hann ganga til samstarfs, meðan samverkamenn vinna að lausn þeirra mála með honum. Hann mun hins vegar slíta því jafnskjótt og frá því verður brugðið. Þess vegna skildi hann á sínum tíma við Framsfl. Að því er snertir samstarfið í núv. ríkisstj., hefur Alþfl. ekki undan því að kvarta enn sem komið er, og fullkomlega hefur verið staðið við það, sem um var samið við samstarfsflokkana. Mér dettur þó vitanlega ekki til hugar, að ekkert megi finna að núv. ríkisstj., og ég hygg, að sú stj. sé vandfundin, sem sé gallalaus. En ef dæma á með sanngirni, þá verður að meta hlutlaust það, sem gert hefur verið, og það gerir þjóðin, þegar plöggin hafa verið lögð á borðið, því að hlutlaust getur Framsfl. ekki dæmt. — Góða nótt.