26.04.1946
Neðri deild: 124. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

248. mál, kosningar til Alþingis

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Þetta frv. miðar að því, að þeir geti neytt kosningarréttar síns, sem fjarstaddir eru á kjördegi. Um þetta er ekkert nema gott að segja, en mig langar að benda á stóran hóp manna, sem varnað er að neyta kosningarréttarins, en það eru sjúkir menn. Nú legg ég ekki til, að heimakosningar verði teknar upp aftur, en það er fjöldi manns og þeim fjölgar alltaf, sem liggja á sjúkrahúsum og fá ekki að kjósa. — Það er einkennilegt misræmi í því, sem við Reykvíkingar erum áhorfendur að við hverjar kosningar, að sjúklingar á geðveikrahælum, sem eru rétt rólfærir, fá að kjósa, en fjölda manna á spítölum er meinað um þessi réttindi, þótt þeir séu fullkomlega andlega heilbrigðir. Nú vil ég mælast til þess, þegar Alþ. gefur sér tíma til að gefa ferðamönnum erlendis kosningarrétt, að bætt verði úr þessu misrétti um leið: Vil ég því leyfa mér að flytja svofellda skriflega brtt.:

„1. Við 1. gr. Á eftir „hreppstjóri“ komi: læknar, sem veita íslenzkum sjúkrahúsum forstöðu.

2. Við 2. gr. Á eftir „heimili hreppstjóra“ komi : í íslenzku sjúkrahúsi.

Ég ætla að láta þessi orð nægja til að mæla fyrir þessari brtt. og afhendi forseta hana.