11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

16. mál, fjárlög 1946

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Í ræðu, sem ég flutti í gær, lýsti ég stjórnarandstöðunni nokkuð. Neyddist ég til að taka ómjúkum höndum á henni, en það er þó í sannleika sagt, að ræða, sem hv. þm. Str., Hermann Jónasson, flutti þá, lýsti miklu betur sálarástandi stjórnarandstæðinganna. Sú ræða mun lengi í minnum höfð, enda einstök í sinni röð. Aldrei fyrr hefur það hent, að íslenzkur stjórnmálamaður væri kallaður kvislingur. Aldrei hefur slík ósvinna heyrzt fyrr í sölum Alþ., og gegnir það furðu, að þessi hv. þm. skuli ekki skirrast við að viðhafa slíkt orðbragð um þm. hér í sölum Alþ.

Í stað þess að tala skynsamlega um framkvæmdir. ríkisstj. sagði hv. þm., að þær væru óhugsað kák, sem nú þegar væru farnar að valda glundroða í fjármálalífi þjóðarinnar og hvergi ættu sér friðhelgi frá hans bæjardyrum séð. Að hans áliti hefðu þær sjálfsagt átt að bíða hentugri tíma, en á meðan hefði tækifærið gengið úr greipum stj. Hv. þm. sagði, að húsbyggingafrv. eins og það, sem ríkisstj. hefur flutt, væri prentað upp og meira að segja með prentvillum eftir frv., sem hann hefði áður flutt. Þetta gæti ég vel trúað, að væri satt, ef það á annað borð er rétt, að það sé prentað upp eftir hans frv. — Þá staðhæfði hv. þm. enn fremur, að fjárframlög til verklegra framkvæmda í landinu séu stórum minni en á undanförnum árum. Hæstv. fjmrh., Pétur Magnússon, og einnig hæstv. samgmrh., Emil Jónsson, hafa sannað hið gagnstæða. Þeir hafa sannað, að fjárframlög til verklegra framkvæmda eru nú 7–8 sinnum hærri en árin 1939, 1940 og 1941, að mig minnir. Þetta vita allir hv. alþm., og háttvirtir hlustendur vita það líka, og hefði hv. þm. því ekki átt að voga sér að bera annað eins fram.

Þá sagði hv. þm., að búið væri að eyða 60 millj. af erlendum gjaldeyri (£). Ég veit ekki betur en búið sé að festa 76 millj. eða milli 150–200 millj. íslenzkra króna í nýsköpuninni. Af þessu er ljóst, að þessi hv. þm. skilur ekki enn, að nýsköpunin er raunveruleg.

Hv. þm. fjargviðraðist yfir vanþekkingu minni og hæstv. samgmrh. á lífskjörum bænda. Ef allt er vitlaust, sem við höfum staðhæft hér, hvernig stóð þá á því, að um þetta fyrirkomulag, við ákvörðun á verðlagi landbúnaðarafurða, samdi þáv. ráðh., illu heilli fyrir hann, 1939, ef það er svo argvítugt í garð bænda?

Ég staðhæfði, að ef stj. brysti eða kiknaði undir byrðinni, þá gæti enginn myndað stj. á Íslandi. En segjum nú, að þetta sé mesti misskilningur, þetta gæti áreiðanlega einhver annar. En hver skyldi það nú vera? Varla hann (HermJ) ? Hann hefur biðlað til Alþfl. tvisvar sinnum, en fengið daufar undirtektir, og mikið má vera, ef botninn verður ekki úr buxunum, þegar umbótamenn fela honum að mynda stj. á Íslandi.

Ræðumenn samstarfsflokka Sjálfstfl. í ríkisstj., sérstaklega Alþfl., virtust veitast með stórum meiri hörku að Sjálfstfl. í gær en stjórnarandstaðan. Hv. 3. landsk., Haraldi Guðmundssyni, rann blóðið til skyldunnar. Hann hvikaði ekki frá að ræða um stjórnarstefnuna. Meðgekk hann svo rækilega, að hann og flokkur hans væri bæði faðir og móðir stefnu stjórnarinnar og ættu hvert bein í henni. Hæstv. atvmrh., Áki Jakobsson, virtist hins vegar ekkert koma þessi árás við, eins og hann hefði ekkert saman við nýsköpunina að sælda, heldur barðist hann við drauginn í Landsbankanum. Hann barðist við drauginn allan sinn ræðutíma og gaf það í skyn, að því er virtist, að Sjálfstfl. væri að rífa niður fyrirætlanir stj. með því að láta Jón Árnason koma að bankanum, þegar Vilhjálmur Þór lét af starfi sem bankastjóri. Hæstv. ráðh. gat ekki rökstutt þessar getsakir sínar, en gaf í skyn, að verið gæti, að hæstv. fjmrh. sæti á svikráðum við höfuðstefnumál stj. Þetta er ekki sennilegt hjá hæstv. ráðh. Trúlegra er, að þetta tal gefi það til kynna, að kosningaskjálfti sé hlaupinn í hann. Þetta hefur engin áhrif á okkur. Við sjálfstæðismenn munum halda ferðinni áfram innan stjórnarliðsins eftirleiðis sem hingað til, og það og það eitt er trygging fyrir því, að það er vilji Sjálfstfl., stefna hans og starf.

Hv. 2. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, hneykslaðist mikið á því, að þessi stóri og góði bróðir í stj. skuli hafa verið með getsakir í garð stj. Á meðan ég var í samstarfi við hann í ríkisstj., var sífellt verið að svívirða mig. Samt sem áður var það ég og flokkur minn, sem varð til að hlaupa undir bagga með honum, þegar allt riðaði á barmi gjaldþrots í höndum hans. — Þessi hv. 2. þm. S.-M. byrjaði hér í dag að glíma við fortíðina, en hæstv. atvmrh. glímdi í gær við Landsbankadrauginn. Hæstv. samgmrh. hefur ágætlega lýst rökfærslu þessa hv. þm. og hrakti ofan í hann með skriflegum gögnum atriði, sem hann staðhæfði, og hélt hann því fram, að þessi hv. þm. segði ekki nema hálfan sannleikann þegar hann þorir ekki að segja allt ósatt. Þessi hv. þm. mundi ekki fara í stj. með hagsmuni almennings fyrir augum. Að hleypa honum í stj. yrði beinlínis til þess að vinna að því að viðhalda höftum og bönnum. Þessi hv. þm. er kunnastur fyrir það úr sínu stjórnmálastarfi að hafa setið eins og búrkona yfir innflutningnum og hefur með höftum og bönnum skaðað ríkið og þjóðina um tugi milljóna króna. Það er þetta, sem hann er þekktastur fyrir. Sjálfur lifir hann svo á að hjálpa bitlingahjörðinni um fríðindi. — Þessi hv. þm. las upp úr gamalli ræðu ummæli eftir mig um dýrtíðarmálin og sleit vitanlega allt úr samhengi. Það er sú aðferðin, sem hæstv. samgmrh. var að lýsa. Þetta skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli. Mér nægir að svara dýrtíðarrausi þm. því einu, að á meðan hann ætlaði að vera í stj., ef honum tækist að verða fyrri til stjórnarmyndunar, þá var það hann, sem taldi það beztan rökstuðning, að kaupgjald úti um allt land yrði hækkað til samræmis við verðlag landbúnaðarvara. Hann benti á, að úti um land byggju verkamenn við lægra kaup en bændur. Nú lætur hann eins og dýrtíðin og allt það, sem miður fer, stafi af kauphækkunum, sem hann sjálfur hefur mælt með, og kennir mér svo um allt saman, sem aflaga fer. Þetta er ekkert óskemmtilegt heilsufar. Ég hef kallað þetta ráðherrapest. Hv. þm. hefur skilizt, að harðvítug barátta gegn hagsmunamálum útvegsins geti orðið hættuleg manni, sem leitar fylgis í sjávarþorpum. Hann segist því ekki vera mótfallinn því, að samið sé um skipabyggingar, ef aðeins tvö skilyrði eru uppfyllt. Það á sem sagt að vera búið að ákveða nákvæmlega, hvernig hvert einasta skip ætti að vera útbúið, og að gert hefði verið út um það, hverjir ættu að eignast þessi skip, áður en gengið væri frá samningum um skipasmíðina. Þetta er bagalegt fyrir hann, því að hv. þm. veit, og það vita allir, að ef þessari kröfu hans hefði verið framfylgt, hefði hún nægt til að tryggja það, sem hann vill, að Íslendingar eignist engin skip með nokkrum þeim hætti, sem núv. stj. og einstaklingsframtakið í landinu hafa samið um. Ef um nokkra stefnu getur verið að ræða í þessum málum hjá Framsfl., þá er hún sú, að meðan Íslendingar geta fest kaup á skipum, eiga þeir ekki að gera það, en síðar, þegar engin skip eða tæki eru fáanleg, þá á að kaupa mikið. Sem sagt, á meðan Íslendingar eiga gnægð fjár, eiga þeir ekki að kaupa skip, en síðar, þegar stefna Framsfl. hefur leitt til illvígra kaupdeilna í landinu, þá á Íslendingum að vera bráð nauðsyn á því að kaupa mikið af tækjum og skipum. Ég get ekki ímyndað mér, að menn trúi því, að hugsandi maður eins og hv. 2. þm. S.-M. skuli vera svona kjarklaus, en þó er það satt. Kjarkurinn er allur í munninum. Þessum manni var á barnsaldri sýnt hættulega mikið oftraust. Fjármálastjórnin var tekin úr hans höndum, eftir að honum hafði tekizt að éta upp lánstraust þjóðarinnar erlendis og algert hrun virtist fram undan, en sjálfur hafði hann þá erlenda bankauppskrift í vasabók yfir eignir þrotabúsins. Ég hygg, að kjarkur þessa manns hafi brostið, þegar hann neyddist til að beiðast hjálpar af Sjálfstfl. til að rétta við fjárhag ríkisins.

Í ræðu minni í gær sýndi ég fram á, að stj. hefur efnt öll sín heit og nýsköpunin er komin lengra áleiðis en þeir allra bjartsýnustu þorðu að búast við. Ég sagði einnig, að ráðherrapestin hefði hertekið stjórnarandstöðuna og leikið hana svo grátt, að aumari stjórnarandstaða hefði aldrei verið á Íslandi. Hennar sérstaka einkenni er að afflytja og vera á móti öllu, sem stj. gerir, án þess að leggja nokkuð jákvætt til málanna sjálf. Það er hvergi laust við erfiðleika hjá forustuliði Framsfl. að blekkja bændur, vegna þess að það væri mikil og örlagarík fjarstæða fyrir þá að einangra sig nú, þegar þjóðin í fyrsta skipti ræður yfir miklum fjármunum til að búa vel að atvinnulífinu í landinu. Til þessa býður ríkisstj. bændunum samstarf, hvar í flokki sem þeir standa. Það er þetta, sem hv. 2. þm. S.-M. og Framsfl. kallar okkur kúgara fyrir, að bjóða fram hendur bændum til aðstoðar, hvar í flokki sem þeir standa, einvörðungu, ef bændur fást til frjálsrar samvinnu við ríkisstj. En án forustu sjálfra bændanna í vinsamlegu samstarfi við valdhafana verður þessum málum ekki til farsældar stýrt. Ég vissi vel, að hér var komið við kaunin í Framsfl., en stóryrði og fúkyrði 2. þm. S.-M. skipta ekki máli, breyta ekki staðreyndum. Með því að vera utan við stjórnarmyndunina hafa framsóknarmenn unnið sér til óhelgi. Þeim er það ljóst og þeir vita það af því, að þeir hafa beðið hnekki og misst traust bænda sem annarra. Nú reyna þeir að rétta sinn hlut með því að æsa bændur gegn stj. Eiga þeir þó öðrum stéttum fremur meira í húfi, að vinsamlegt samstarf takist við valdhafana. Þeir hafa nú um langt skeið verið verr settir en verkamenn og atvinnurekendur við sjávarsíðuna, vegna þess að málefnum þeirra hefur að undanförnu verið illa stýrt.

Framsfl. er og verður um langt skeið gagnslaus, en af því leiðir, að það hallar á bændur. Framsfl. setur því allt traust sitt á bændurna, að þeir taki vel hinu síðasta ákalli, sem gert er til að forða flokknum frá hruni um stundarsakir. Þetta vita forustumenn Framsfl., og því hafa þeir flutt hér mál sitt af slíkum ofsa sem raun ber vitni.

Þessum umr. er nú að verða lokið. Ég hef gert þjóðinni grein fyrir störfum og stórkostlegum fyrirætlunum stj: Við sjálfstæðismenn treystum á dómgreind almennings, en höfum meiri mætur á að leysa hlutina en að miklast af afrekunum. Að þessu sinni lýsi ég óvenjulega skýrum stórhug og framsækni í framkvæmdum ríkisstj., en hins vegar eru til menn, sem ekkert vilja í þessum efnum. Ef þeir fengju að ráða, er líklegt, að þingræðið hefði lifað sitt fegursta. Fámenn þjóð í sumpart erfiðu landi á í illvígum vinnudeilum, framundan blasir við atvinnuleysi. Það er auðnulaus þjóð, sem ekki skildi sinn vitjunartíma. En þingið og þjóðin skildi sinn vitjunartíma, svo að í staðinn fyrir illvígar vinnudeilur var skapaður vinnufriður í landinu, þingræðinu borgið og hafin alhliða og öflug viðreisnarbarátta. Það er enginn vandi að velja á milli þessara tveggja stefna. Þjóðin hefur valið. Hún er orðin langþreytt á illdeilum og þráir frið og athafnir. Þess vegna hafa bændur keypt landbúnaðarvélar, sjómenn og útgerðarmenn samið um kaup á stórum og fullkomnum nýtízku skipum, sem nemur samtals um 200 millj. kr. Það talar sínu máli, einnig til stjórnarandstöðunnar.

Ég þakka þjóðinni eindreginn stuðning, sem veitti ómetanlegan styrk í störfum stj., og vænti ég þess að mega fá að njóta hans áfram, og umfram allt óska ég þess, að farsæld fylgi þessu framtaki, svo að komandi kynslóðir á Íslandi megi af því blessunar njóta um langan aldur.