26.04.1946
Neðri deild: 124. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (3434)

248. mál, kosningar til Alþingis

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég er þakklátur þeirri till., að málið sé tekið af dagskrá og athugað nánar af n. eða ef hv. flm. vildu athuga það. — Varðandi aths. hv. 2. þm. N.-M. út af orðinu yfirlæknir, þá vil ég geta þess, að fyrir mér vakti, að sjúklingar á öllum sjúkrahúsum landsins fengju þennan rétt, og þar, sem aðeins var einn læknir, þá væri hann skoðaður yfirlæknir. En ef athuga á þetta nánar, er sjálfsagt að nota athugunina til þess að leiðrétta það. — Viðvíkjandi hinu atriðinu, þá er það rétt, að nokkur vandi er að gera upp á milli sjúklinga á spítölum og í heimahúsum. En eins og ég benti á, tel ég alla sammála um, að ekki beri að innleiða almennar heimakosningar, því að það mundi leiða til misnotkunar. Aftur á móti tel ég ekki sérstaka hættu á því, að þetta sé misnotað í sambandi við sjúkrahúsin. Ég sé því ekki, að það sé neitt vandamál að gera þarna upp á milli og veita þeim réttinn, sem talið er fært að veita hann, þótt ekki sé talið fært að veita hann öllum, sem þurfa að fá hann. Ég vil benda á í sambandi við það, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði varðandi það, að eftirsótt mundi verða að komast á sjúkrahús fyrir kosningar, því að það þýddi sama og kosningarrétt, að ef svo er ástatt, að maðurinn sækir fast að komast á sjúkrahús til þess að fá kosningarrétt, þá er hugsanlegt fyrir hann að láta flytja sig í skrifstofu sýslumanns eða hreppstjóra til að kjósa. Hann er þá í flestum tilfellum það hraustur, að slíkur flutningur er framkvæmanlegur eins og að flytja hann á sjúkrahús. Ég held, að yfirlæknar mundu ekki hafa neina tilhneigingu til þess að misnota þetta með því að meina einstökum mönnum að komast á sjúkrahús, ef þeir ættu að öðru leyti rétt og kost á því, til þess að meina þeim um kosningarrétt, en taka svo aðra inn til þess að gefa þeim kosningarrétt. Slíkt tel ég alltof mikið vantraust á yfirlæknum okkar.