27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

248. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Herra forseti. Út af brtt. hv. 8. þm. Reykv. verð ég að segja það, að hugsun hennar er að mínu áliti rétt, þó að hann hafi sjálfur viðurkennt, í tilefni af ræðu hv. 2. þm. S.-M., að breyta þurfi orðalagi hennar. Og ef allshn. hefði haft hugmynd um, að það gæti komið til að samþ. hana sem slíka, mundi n. hafa borið fram brtt. til þess að leiðrétta hana að efni til, þó að hugsun brtt. hv. 8. þm. Reykv. sé rétt. En það, sem fyrir allshn. vakir, er, að ef á annað borð er farið að breyta kosningal. viðkomandi rétti til utankjörstaðaratkvgr., verði um leið að setja ákvæðin enn þá rýmri, því að eins og hver maður sér, er ekki ástæða til þess, að maður, sem ekki kemst á sjúkrahús, þó að hann kannske þurfi þess, heldur liggur heima hjá sér veikur, en andlega heilbrigður, hafi ekki sama rétt til þess að kjósa og sá, sem er svo heppinn að komast á sjúkrahús til legu þar. T. d. getur maður, sem er í Reykjavík, komizt að til legu á sjúkrahúsi, þar sem annar maður austur í Skaftafellssýslu fær ekki spítalapláss, og hvers vegna á þá þessi maður þar eystra að vera verr settur í þessu efni en hinn, sem á heima í Reykjavík? (SigfS: Hvers vegna á maður, sem er erlendis, en ekki er nálægt skrifstofu útsends fulltrúa, að vera verr settur en hinn, sem getur komizt á þessa skrifstofu?). Það verður alltaf eitthvert misrétti í þessum efnum, en maður, sem er frískur, getur yfirleitt sótt kjörstað hjá þessum mönnum. En það veit hv. 8. þm. Reykv. hins vegar vel, að fram að þessum tíma hefur verið ákaflega erfitt fyrir menn að fá rúm á sjúkrahúsi, og það væri ákaflega ranglátt, ef maður sem er veikur, en andlega heilbrigður og á heima og er fyrir austan heiði, mætti ekki kjósa utan kjörstaðar, en hinn fengi að kjósa, sem er á sjúkrahúsi. Við skulum segja, að hvort tveggja sé ranglátt, það gagnvart mönnum, sem dvelja erlendis, sem í frv. er ákveðið, og einnig það, sem í brtt. hv. 8. þm. Reykv. felst. En allshn. vill ekki ganga frá brtt. eða mæla með brtt. við frv., eins og það er borið fram, án þess þá að gera á því þær breyt., að fá megi fram fullkomna réttlætingu á þessu máli, sem væri þá við allra hæfi. Og við vitum það báðir, hv. flm. þessarar brtt. eins vel og ég, að l. frá 1923 voru misnotuð, sem heimiluðu utankjörstaðaratkvgr. Það komu vottorð frá læknum um, að þessi og þessi maður væri veikur, og fulltrúinn, sem átti að sjá um kosninguna, kom heim til þessa og þessa manns, og það var sannanlegt, að þessi heimild var í ýmsum tilfellum misnotuð. Og til þess að falla ekki í sama brunn að þessu leyti til, var n. sammála um, að það þyrfti langan tíma til þess að ganga frá sanngjörnum breyt. á kosningal., ef leyfa ætti atkvgr., vegna veikinda utan kjörstaðar. Og hæstv. dómsmrh., sem hefur með þessi mál að gera, var inni á þessari hugsun, að ef á annað borð ætti að breyta þessari löggjöf, þá yrði að setja í l. ákvæði í þessu sambandi, sem ekki yrðu misnotuð eins og l. 50 frá 1923. Og það er síður en svo, að allshn. vilji að neinu leyti ganga á móti þeirri hugsun, sem felst í brtt. hv. 8. þm. Reykv., heldur er það hitt, sem fyrir n. vakir, að ef hún yrði samþ., þá yrði svo mörgum öðrum gert rangt til, sem ekki koma undir ákvæði brtt. — Ég gæti mjög vel fallizt á, að málinu væri á einn eða annan hátt vísað til ríkisstj., til þess að fá heildarlöggjöf um þessi mál, og því væri beint til ríkisstj., að sett yrði heildarlöggjöf um þessi mál, í fyrsta lagi samkv. hugsun hv. flm. brtt. á þskj. 989, hv. 8. þm. Reykv., og hins vegar með þeirri grundvallarreglu, sem felst í 1. nr. 50 frá 1923. Og ef hv. 8. þm. Reykv. vill bera fram einhverja till. í því efni, skal ég fylgja honum í því.