27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

248. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði nú um brot á kosningal. hér í Reykjavík, þá hygg ég, að það sé nú meira orðrómur en sannindi, að kosningal. séu brotin, því að það gilda sömu l. fyrir Reykjavík sem önnur kjördæmi. En það er vitanlegt, að fólk, sem ætlar sér að fara úr bænum, neytir atkvæðisréttar síns áður. En þar, sem fjölmenni er mikið, getur það borið við, að fáeinir af þeim mönnum, sem þannig kjósa, hætti e. t. v. við ferð sína, þó að þeir hafi neytt kosningarréttar síns, og þá eiga þeir að taka atkv. sitt aftur og kjósa á kjörstað og neyta kosningarréttar síns þann veg. En það mun vera margur alþýðumaður, sem veit ekki um, að hann á að gera þetta. En ég hef ekki trú á, að þetta sé leikið beinlínis af ásettu ráði, að menn taki ekki aftur atkvæðaseðil sinn, sem þeir hafa kosið á fyrir kjördag, ef þeir eru heima á staðnum á kjördegi.