27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (3446)

248. mál, kosningar til Alþingis

Sigfús Sigurhjartarson:

Það mun vera rétt hjá hv. 2. þm. N.-M., að eitthvað sé um þetta, sem hann talaði um, að lasburða fólk kjósi hér fyrir kjördag, þó að það dvelji hér í bænum á kjördegi. En ég sagði það ekki í gær. Ég sagði, að á ákveðnu vistheimili fyrir volaða menn hefðu vistmenn fengið að kjósa fyrir kjördag, en þeir dvelja flestir í öðru kjördæmi en þeir eiga kosningarrétt í. Ég held, að sú misnotkun á l., sem hv. 2. þm. N.-M. talaði um, sé ekki í stórum stíl, og hygg ég það rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði um þetta mál. Og það er víst, að hér er ekki verið að gera upp á milli manna á neinn óeðlilegan hátt, heldur farið eftir því, hverjum er kleift að gefa tækifæri til þess að neyta kosningarréttar, þannig að tryggilega sé um búið og ekki valdi misnotkun. En það eru allir sammála um það, að með l. frá 1923 hafi verið gengið inn á þá braut, sem auðvelt hafi verið að misnota, nefnilega með heimakosningum á heimilum manna almennt, en hér í brtt. minni er aðeins verið að leggja til, að kosningar verði leyfðar á ákveðnum stöðum utan kjörstaðar. Og það eru dregin þarna takmörkin fyrir þessu eins og til er tekið í brtt. vegna þess, að vitað er um, að misnotkun hefur átt sér stað viðkomandi kosningum í heimahúsum. Það er því hér í brtt. ekkert gert meira upp á milli manna, sem annars vegar eru veikir í heimahúsum, en andlega heilir, og þeirra hins vegar, sem eru á sjúkrahúsum, heldur en manna, sem dvelja erlendis, sem sumir geta komizt á tilteknar skrifstofur og neytt þar kosningarréttar síns, en aðrir hafa ekki aðstöðu til að geta komizt á þá staði og missa við það tækifæri til að neyta kosningarréttar síns. Ég mun því halda fast við mitt mál og óska, að brtt. mín komi undir atkv.