27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (3449)

248. mál, kosningar til Alþingis

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég er dálítið hissa á því, að þetta atriði brtt. minnar, sem ágreiningur er um, skuli sífellt vera rætt í sambandi við 1. frá 1923. Þau voru um kosningar á heimilum, en brtt. er um kosningu á sjúkrahúsum. Og ég er undrandi yfir því, þegar hæstv. dómsmrh. segir, að læknar hafi sérstöðu til að hafa áhrif á sjúklinga í þessum efnum. Má vel vera, að læknar hafi aðstöðu til að hafa áhrif á vilja sjúklinga. En vel má vera, að sýslumenn hafi sömu aðstöðu, svo og hreppstjórar. (PO: En skipstjórar?) — og skipstjórar. En öllum þessum mönnum er sýndur svo mikill trúnaður, að því er treyst, að þeir noti ekki þessa aðstöðu. En ég sé ekki, að ástæða sé til að væna læknastéttina frekar um það en aðrar stéttir að hafa tilhneigingu til þess að misnota þess konar aðstöðu, og yfirleitt er fáum stéttum í þjóðfélaginu sýndur meiri trúnaður en læknastéttinni. Ég er því hissa á því að heyra frá hæstv. dómsmrh, þau ummæli, að vegna þess að læknar hafi aðstöðu til þess að hafa áhrif á vilja sjúklinga sinna, sé ekki hægt að láta læknana annast þessi kjörstjórnarstörf.

Annars var ég hissa á að heyra hæstv. dómsmrh. segja, að þetta væri samkomulagsmál á milli flokka. Ég hef aldrei séð þetta frv. fyrr en hér nú á borðinu hjá mér. Það hefur því eitthvað verið einkennilegt samkomulag um þetta mál á milli flokka. (BÁ: Það hefur kannske bara verið talað við þá helztu). Ég tek ekki nærri mér, þó að ég sé ekki talinn þar með, en mér þykir leiðinlegt, ef hæstv. forseti sameinaðs þings er ekki meðal þeirra helztu.