16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (3464)

241. mál, fyrningarafskriftir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég átti von á framsögu í þessu máli. Undarlegt er, að hv. n. skuli álíta rétt að bera fram frv., sem gerbreyta gildandi ákvæðum, án þess að sjá ástæðu til að gera grein fyrir því á Alþ., hverju á að breyta og hvaða rök eru fyrir því. Ekkert nál. fylgir hér með, og er einkennilegt að senda málið svona inn í hv. deild. Frv. er illa undirbúið. Fyrirlitningin fyrir hinu háa Alþ. er svo mikil, að eigi er borið við að hafa framsögu.

Hér er ákveðið að breyta fyrningum á sérstökum eignum með l., en málið er óljóst. Svo segir í 1. gr. frv.: „Þær eftirtaldar eignir, sem teknar eru í fyrstu notkun á árunum 1944–1948 incl., má í stað venjulegra fyrningarafskrifta afskrifa um 20% á ári í 3 ár frá því er þær eru teknar í notkun; þó ekki fyrr en frá 1. janúar 1946 að telja: fiskiskip og önnur veiðiskip, fiskvinnslustöðvar, síldarverksmiðjur og dráttarbrautir.“

Ef þetta er borið saman við það, sem hingað til hefur gilt, sést, að hér er sundurliðunin miklu minni. Sumar þessar eignir eru þegar fyrntar með 20%, en aðrar með 4%. Hér er t. d. ákveðið, að veiðiskip fyrnist með 20% án tillits til, úr hverju þau eru byggð. Þó vita allir, að það hefur þýðingu gagnvart endingu skipsins, enda eru nú skip fyrnd misjafnt eftir því, úr hverju þau eru byggð. Nú er vél fyrnt sér og skip sér og ekki; til sama tíma, en nú á allt að fyrnast saman og með 20%. — Hér er um þriggja ára afskriftir að ræða. — Síldarverksmiðja er nú fyrnt í mörgu lagi. Húsið er fyrnt út af fyrir sig, vélar sér, þrær sér o. s. frv. og hvað með sínum tíma, miðað við endinguna. Ekkert tillit er tekið til nokkurs af þessu. Í frv. á nú allt að fyrnast með 20% án tillits til endingar. Þetta á og bara að gilda um ný tæki, en því ekki um eldri, sem keypt eru háu verði? Nú er fyrning miðuð við kostnaðarverð, og vitað er, að t. d. gömul skip hafa hækkað í verði hlutfallslega við ný, og því réttmætt að leyfa líka 20% afskrift af þeim.

Ég minnist þess, að tveir menn fluttu mig sjóveg í fyrra fyrir vestan og austan. Ég gaf mig á tal við þá, hvorir tveggja eru með pantanir í nýja báta. Ég spurði þá um kostnaðinn. Báðir bjuggust þeir við að skulda yfir 300 þús. kr., er þeir væru búnir að greiða skipin. Ég spurði þá, hvort þeir héldu, að Íslendingar gætu risið undir þvílíkum kostnaði. Þeir kváðu vel mundu ganga, ef fiskverðið héldist óbreytt. En báðir ætluðu, að verðið mundi falla, áður en langt um liði, og ég spurði þá, hvernig þá færi. Annar sagði: „Það verða þá fleiri en ég, sem lenda í strandi. Það verða bæði þeir, sem keypt hafa nýju skipin, og þeir sem keypt hafa eldri skip, því að þau eru sízt ódýrari. En þegar svo er komið, verður búinn til kreppusjóður og ríkið greiðir allt niður hjá öllum hlutfallslega.“ Hinn hélt, að ríkið mundi þá yfirtaka skipin og gera þau út. Ég skil, að þetta frv. á að hjálpa mönnum til að afskrifa með skattfrjálsum ágóða í 3 ár, og gangi vel, getur það blessazt. En því á ekki að taka eitthvert tillit til endingarinnar, eins og fyrrv. fjmrh. gerði, er hann breytti reglugerð um afskriftir? Og hví mega þeir, sem keypt hafa eldri skip háu verði, ekki afskrifa þau líka, fái hinir það? Mér þykir mega athuga það, að ranglátt er að afskrifa með sömu fyrningarprósentu t. d. fiskvinnslustöðvar og allt upp í síldarverksmiðjur. Í þessu er ekkert vit. — Þegar núverandi reglugerðir um fyrningar voru samþykktar, tók samning þeirra hátt upp í árstíma með aðstoð fjölmargra sérfræðinga. Þetta kemur af hinum misjafna endingartíma. Nú vill hæstv. ríkisstj. slá saman í eitt og ekkert tillit taka til endingar hlutanna.

Ég vildi benda á þetta, og vona ég, að þótt frv. sé greinargerðarlaust og það eigi að fara orðalaust í gegnum þ., að hv. n. taki þetta til gagngerðrar athugunar. Verði frv. óbreytt að, lögum, tel ég það koma miklu ranglæti af stað, og það svo, að lítt sé viðunandi. Sagt er, að afskrifa eigi fiskiskip og önnur veiðiskip, ný. En hvað er fiskiskip og hvað veiðiskip? Því ekki að afskrifa flutningaskip? Hvers eiga þau að gjalda?

Ég vona fastlega, að hv. n. lagfæri þetta, svo að eitthvert samræmi fáist, jafnvel þó um einhverja hækkun verði að ræða.