16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (3465)

241. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Rétt er það hjá hv. 2. þm. N.-M., að eftir reglunum um afskriftir verða mörg atvinnutækin misjafnlega afskrifuð og þannig hlýtur það ævinlega að vera. Byggingar eru t. d. afskrifaðar á annan hátt en vélar, en þessi hv. þm. hefur ekki veitt því verðuga athygli, að afskriftirnar eiga aðeins að gilda í 3 ár. Þær standa og í sambandi við frv. til 1. um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands. Við umr. um það frv. gerði ég grein fyrir, að leið sú, sem farið væri inn á með hinum óvenjulegu lánveitingum, gæti ekki staðizt, nema til þess yrði gripið að borga lánin niður öðruvísi en venja hefði verið til, þ. e. svo yrði um atvinnutækin búið, að trygging fengist.

Þetta fyrningarfrv. er fram komið til þess, að unnt megi verða að greiða stofnlánin niður. Hér þótti ekki ástæða til að greina á milli skipa, véla og verksmiðja, af því að fyrningarnar munu verða fyrir ofan það meðallag, sem núgildandi reglugerð heimilar. Hins vegar er það rétt hjá hv. 2. þm. N.-M., að afskriftirnar gætu komizt hærra. Þó verða þær að meðaltali miklu hærri en nú tíðkast. Niðurstaðan er sú, að þetta verður langtum einfaldara í framkvæmd en ef áframhaldandi hefði átt að greina þarna á milli, einstakra hluta sömu eignar, og heildarniðurstaðan hefði orðið eitthvað svipuð.

Þá gerði hv. þm. aths. við það, að þessar sérstöku afskriftir næðu aðeins til þeirra tækja, sem tekin væru fyrst í notkun 1944 til 1948, en eldri tækin, sem gengju kaupum og sölum og e. t. v. væru í eins háu verði og ný tæki, yrðu afskrifuð á venjulegan hátt. Þetta er ofur einfalt, og ef hv. þm. hugsar um það, mun hann sjá, að það liggja eðlilegar orsakir til þessa. Þessar fyrningarafskriftir, sem hér er um að ræða, eru ekki gerðar í raun og veru fyrir einstaka atvinnurekendur, heldur í því skyni að örva menn til þess að afla nýrra tækja og í því skyni að tryggja, eftir því sem mögulegt er, að lánsstofnanir, sem stofnaðar hafa verið til þess að fleyta þessum framkvæmdum áfram, fái staðizt. Það hefur enga þjóðhagslega þýðingu, að gömlu tækin, sem til eru í landinu, skipti um eigendur. Ég fyrir mitt leyti áliti óskynsamlegt af löggjafanum að hvetja til þess að láta þau skipta um eigendur með því að veita í þeim tilfellum fríðindi í sambandi við afskriftir af þeim. Ég álít frekar ástæðu til að vinna gegn því, að þau atvinnutæki skipti um eigendur. Bæði er það, að þessir menn, sem rekið hafa þessa atvinnu undanfarin ár, eru yfirleitt vel stæðir og þeir eru líka búnir að skrifa tækin niður, og þó að eitthvað bjátaði á, þá yrði það þeim ekki að falli. Aftur á móti er það vissulega ekki æskilegt að stuðla á neinn hátt að því, að eigendaskipti verði á þessum tækjum, þannig að þau verði seld með háu verði.

Fleira í ræðu hv. þm. ætla ég ekki, að gefi tilefni til sérstakra andsvara. En ég vildi aðeins minnast á eitt atriði í þessu máli, sem ég tel veigamest og gerði mig mest hikandi í því að beita mér fyrir, að þetta frv. næði fram. að ganga. Það er viðhorfið til ríkissjóðs. Fljótt á litið gæti maður haldið, að þetta frv., eins og frá því er gengið, gæti orðið til þess að rýra tekjur ríkissjóðs allmikið, og vissulega má gera ráð fyrir, að svo verði, sérstaklega að því er eina tegund tækjanna snertir, togarana. Togarafélögin hafa undanfarin ár verið góðir skattgreiðendur. Þeirra atvinnurekstur hefur yfirleitt gengið ágætlega, og togarafélögin hafa yfirleitt greitt háa skatta. Það liggur í augum uppi, að þó að rekstur þeirra haldist nokkurn veginn í horfi, verða. Þessar afskriftir til þess, að tekjur ríkissjóðs af þeim fyrirtækjum hljóta að fara minnkandi, af Því að afskriftirnar verða svo mörgum sinnum meiri en þær hafa verið á undanförnum árum. Hins vegar er það svo með þessa tegund tækja, skipin að ég held, að ekki verði skiptar skoðanir um það, að svo framarlega að það eigi að örva menn til þess að kaupa togara og í raun og veru mótorbáta líka, verður að veita mönnum einhver fríðindi í þessu efni, gefa mönnum kost á að afskrifa skipin, svo að þau, áður en langir tímar líða, séu komin niður í það verð, sem einhver von gæti verið til að þau stæðu undir, þó að verðlagið breyttist eitthvað aftur í áttina til þess, sem það áður var. Þegar skipin væru komin niður í 40% af kaupverði, mætti gera sér vonir um það, að þessi fullkomnu nýtízku tæki ættu að geta staðið undir því verði með nokkurn veginn normal rekstri og afkomu. — Hér var því ekki um neitt annað að velja en að fallast á auknar afskriftir af þessum tækjum. Náttúrlega gat það orkað tvímælis, hve hátt átti að fara í þessu efni. En þegar litið er til þess, hve skipin eru dýru verði keypt nú, þá hygg ég nú, að þessu hafi svona nokkurn veginn verið eðlilega í hóf stillt.

Um hin önnur atvinnutæki, sem frv. fjallar um, hygg ég hins vegar, að þannig sé ástatt, að það skipti ekki ákaflega miklu máli fyrir ríkissjóð, hvort afskriftir eru leyfðar af þeim eða ekki fram yfir venjulegar afskriftir, eftir ákvæðum þessa frv. Að vísu játa ég, að rökrétt afleiðing af þessu væri líka sú, að það væri ekki gagnsmikið fyrir þessi fyrirtæki, að þessar afskriftir væru leyfðar, af því að þau mundu ekki hafa nægan tekjuafgang til þess að standa undir svona háum afskriftum. Þó er það svo, að þetta háar afskriftir mundu örva menn til þess að leggja fram fé til fyrirtækjanna, því að ýmislegt bendir þó til þess, að a. m. k. sumt af þessum tækjum, sem um ræðir í frv. og ég sérstaklega nú tala um, gæti skilað sæmilegum tekjuafgangi á næstu árum. Aðallega eru það frystihúsin, sem koma þarna til greina og mesta þýðingu munu, hafa í þessu sambandi. Ég hef því aflað mér upplýsinga um það, hvað frystihúsin hér við Faxaflóa og Breiðafjörð hafa borgað í skatt á tveimur undanförnum árum. Árið 1944 hefur tekjuskattur, sem frystihúsin hafa borgað, verið um 47 þús. kr. á ári, árið 1945 43650 kr. Mega menn af þessu sjá, að frá því, sem verið hefur a. m. k., er hér um verulega tekjurýrnun að ræða.: Ég geri ráð fyrir, að frystihúsin utan þessa svæðis hafi ekki borgað neinar verulegar skattfúlgur. Þegar þessa er gætt, finnst mér, að eftir því, sem horfir nú, þá megi ekki í það horfa, jafnvel þó að svo færi, að þessar sérstöku fyrningarafskriftir hefðu einhverja tekjurýrnun í för með sér fyrir ríkissjóð. Mér er það náttúrlega fullljóst, að ríkissjóður má illa við því nú, eftir því sem að honum er búið, að svipta hann tekjum. En mér er líka fullljóst, að skilyrðin fyrir því, að afl færist í atvinnuvegina, er að menn leggi eitthvað af fé því í þá, sem þeir hafa aflað á undanförnum árum, þannig að þeim sé gefið fyrirheit um það, að ef vel gengi, fengju þeir tækifæri til þess að afskrifa tækin á ekki mjög löngum tíma. Hitt er svo augljóst mál, að það er framtíðin ein, sem úr því getur skorið, að hve miklu leyti þetta kemur að gagni fyrir eigendur atvinnutækjanna. Það veltur á því, hvaða hagnaði tækin skila á næstu árum.