17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (3469)

241. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Þessar aths. hv. 2. þm. S.-M. eru eðlilegar. Hvað viðkemur fyrsta atriðinu, um skip, sem byggð eru upp, þá hefur það heldur litla praktíska þýðingu, því að viðgerðarkostnaður allur afskrifast samkv., núgildandi skattalöggjöf og kemur til gjaldaliðar á rekstrarreikningi. Ef hins vegar gömul skip væru tekin inn í frv., er erfitt að nema staðar, og vænti ég að hv. þdm. verði mér sammála um það.

Ég verð að játa, að ég er veikur fyrir því, sem hv. þm. kom inn á í ræðu sinni, að eins og sakir standa, er erfitt að reka flutningaskip hér þannig, að hagnaður sé af, og er spurning, hvort örva eigi menn til kaupa á slíkum skipum. Ég vil nú ekki trúa því, að Íslendingar geti ekki flutt á sínum eigin skipum í framtíðinni. Væri því meðmæli að taka flutningaskip inn í frv., en ég vil ekki eiga á hættu, að það yrði frv. að falli.

Það er ekki hægt annað en að koma upp stórum tönkum fyrir olíu, ef hinir 39 togarar verða með olíubrennslu. Það er staðreynd, er minnzt er á önnur fyrirtæki í sambandi við þetta mál.

Ég sé, að komið hafa fram óskir um það, að þessi tæki fái leyfi til svipaðra afskrifta og fiskiskipin sjálf, en um þetta hefur ekki orðið samkomulag, þó að ég sé því fylgjandi. Ég hafði ekki hugsað, að það gæti orkað tvímælis, hvað átt væri við með orðalaginu „fiskiskip og önnur veiðiskip.“ Það er að sjálfsögðu átt við vélbátana fyrst og fremst, en það geta einnig önnur veiðiskip komið þar undir.