17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (3470)

241. mál, fyrningarafskriftir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil benda þeim á það, sem í kvöld fluttu ræður um þetta mál, að ég tel það ekki eins einfalt og hæstv. ráðh. vill vera láta að hafa afskriftir af hverju og einu, sem upp er talið í 1. gr., í einu lagi og skal ég útskýra í hverju það liggur. Það er algengt, að menn selja hluta úr skipum, hraðfrystihúsum o. s. frv., og þá þarf að liggja fyrir reikningur fyrirtækisins, hvað mikið búið er að afskrifa þann hluta o. s. frv. Ef hann er seldur dýrari en fyrir það verð, sem hann stendur í þá, eru það tekjur fyrir viðkomandi fyrirtæki. Ef reikningshaldið væri látið vera í einu lagi fyrir allt, þá sést ekki, hvað þessi partur, sem svona er seldur, stendur í miklu, úr því að hvergi á að reikna skatt af því hjá viðkomandi fyrirtæki. Þess vegna hefði ég haldið, að það væri betra en að hafa 20% yfir allt að hækka eitthvað ákveðið fyrningarprósentuna; sem nú er. T. d. ef maður tekur skip, þá er nú 20% fyrning á mótorvélum, en engin hækkun á þeim eftir frv. Svo kemur „spil“ með annarri fyrningarprósentu, skipið sjálft með enn annarri o. s. frv. Þess vegna þykir mér rétt að hækka fyrninguna alla um ákveðinn hundraðshluta.

Þá langar mig til þess viðvíkjandi 3. gr. að fá útskýringu, sem verði til leiðbeiningar, þegar síðar meir verður farið að athuga, hvernig Alþ. hefur litið á þetta mál. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta : „Ef lán hefur verið tekið úr Stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands til kaupa á eign, sem afskrifuð er samkvæmt lögum þessum, er afskriftin því skilyrði bundin, að öll afskriftarupphæðin gangi til afborgunar á láninu, enda hafi hlutaðeigandi tekjuafgang sem afskriftinni nemur.“ En ef hann hefði ekki tekjuafgang, má hann þá ekki afskrifa? Það mundi verða mjög um það deilt eftir þessu orðalagi. Eða ef hann hefði einhvern tekjuafgang, en ekki nógan fyrir afskriftum, má hann þá afskrifa sem tekjuafganginum nemur og ekki meira? Nú má færa skuldir milli ára. Má þá ekki fyrningarafskriftin færast hjá honum sem skuld? Hitt er svo það, að þarna eru sumir með fleiri járn í eldinum. Það eru fáir dagar síðan ég var að gera út um skattaskýrslu frá manni, sem hafði stórverzlun, hraðfrystihús, útgerð, báta og skip o. fl. Þessi fyrirtæki sýndu ákaflega misjafna afkomu. Sum höfðu góða afkomu, önnur enga o. s. frv. Nú skulum við hugsa okkur, að hann hefði átt skip, sem hann hefði keypt og átt að fá afskriftir af, og sjávarútvegurinn hefði verið rekinn með halla, en hann hefði haft eftir 200–300 þús. kr. í tekjur af hinum fyrirtækjum sínum. Mátti hann þá fyrna skipið, sem var með halla, og borga í Landsbankann af tekjum hinna fyrirtækjanna, sem hann hafði undir hendi, eða mátti hann það ekki? Og mátti hann taka lán til að borga inn í Stofnlánadeildina? Mér finnst þetta ekki nógu ljóst orðalag, dæmin eru svo margbreytileg. Og þegar afskrift er heimiluð af skipi, sem kostar 1 millj., þá vilja menn ná í hana, og þá þarf þetta að vera þannig orðað, að það liggi skýrt fyrir, hvort menn eiga hana eða ekki. Mér finnst mikið vafamál, hvort eðlilegt er að setja það sem skilyrði fyrir því, að maður fái þessa fyrningu, að skipa svo fyrir, að hann eigi að borga sem því nemur í lán í Stofnlánadeildina. En ég get ekki skilið 3. gr. öðruvísi en svo, að skilyrði fyrir því, að maður fái fyrningu, sé, að hann borgi af láni inn á Stofnlánadeildina. — Hækkunin á fyrningu, sem hér um ræðir, er sýnilega ekki eins mikil og menn kannske halda. Menn gá ekki að því, að í ráðherratíð Björns Ólafssonar tvöfaldaði hann fyrningu á mörgum af þessum fyrirtækjum. Þess vegna vil ég mælast til þess, að hv. sjútvn., fyrst hún tekur málið aftur fyrir, athugi, hvort hún vill ekki hafa fyrninguna þannig, að hver hlutur hafi sína fyrningu, það verði fyrning út af fyrir sig á fyrirtækjum, svo sem skipum, fasteignum o. s. frv., sem hafa misjafna endingu og hafa verið fyrnd misjafnt, en hækka heldur hundraðshluta fyrningarinnar, sem fyrir er.