17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (3472)

241. mál, fyrningarafskriftir

Sigurður Kristjánsson:

Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi minnast á. Annað er það, sem hæstv. fjmrh., var nú að enda við að tala um, það er á hvern hátt þessar afskriftir geta orðið einfaldastar og brotaminnstar. — Hv. 2. þm. N. M. vísaði á þá breyt., sem gerð var á fyrningum í tíð Björns Ólafssonar. Ég flutti það mál hér í þinginu og er það nokkuð minnisstætt. Og þegar ég bar það fram, var það einmitt í nákvæmlega sama formi eins og till. þessa frv. og flutt í þeim tilgangi að hvetja menn til nýbygginga með því að gefa þeim kost á að afskrifa fyrirtæki, og þær till. miðuðust við það, að afskriftin yrði sú sama á hverju fyrirtæki, bæði vélum og öðru, en aðeins til skamms tíma og að vissu marki og gilti aðeins fyrir nýbyggingar. Nú fór þáv. fjmrh. fram á, að þetta yrði aðeins heimilað í þetta sinn. Málið mætti mikilli mótstöðu í þinginu. Það var í tillöguformi og flutt í sameinuðu þingi og n., sem fjallaði um það, sýndi því mjög mikla andúð og breytti orðalagi till. Hæstv. fjmrh. fékk mig til að ganga inn á, að málið væri í heimildarformi, og afleiðingin af því varð, að framkvæmd í málinu, sem var reglugerðarbreyt., varð sú, að það var alls ekki miðað við nýbyggingar, heldur almenna hækkun á fyrningum og mjög mismunandi mælikvarða eftir tegund hlutanna. Ég er enn á þeirri skoðun, að aukin afskrift bæði þá og nú hefði átt að vera fyrst og fremst í þeim tilgangi að örva menn á þessum verðlagsháu tímum til þess að byggja og koma upp atvinnurekstrarfyrirtækjum, til þess að mönnum auðnist að skrifa niður, enda verður að byggja á því, sem síðar kann að verða ríkjandi verðlag, sem maður vonar, að verði eitthvað lægra en nú er. Ég held þess vegna, að það sé einfaldast að hafa þetta eins og það er í frv. Ég hef að sönnu ekki hugsað það sérstaklega nú en ég gerði það, þegar ég var með brtt. um auknar afskriftir hér fyrir þrem árum. Það er rétt, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, að þetta er ekki mjög mikil breyt. Ég man ekki glöggt, hvernig reglugerðin er nú, en þó minnir mig, að fyrning sé allt niður í 6%, t. d. á byggingum úr steinsteypu, en t. d. á verksmiðjum mjög mikil hækkun, en á öðru engin hækkun, t. d. á vélum. En þetta verður þó í heild töluverð hækkun, þegar byggingin sjálf er tekin með, t. d. skipsskrokkur.

En það var annað, sem ég vildi minnast á, og það var till. eða umr. hv. 2. þm. S.-M. um afskriftir af skipum, sem eru að verulegu leyti byggð upp aftur. Það var og er litið svo á, þegar menn taka gamla skipsskrokka, t. d. í strandi, og gera á þeim svo miklar umbætur, að það nálgast nýbyggingu, að þá hafi ekki veitt af að örva menn á einhvern hátt til slíkra aðgerða, því að meðan mjög var örðugt að fá nokkrar nýbyggingar sökum efnisleysis og sambandsleysis við önnur lönd, þá komu þessar stórviðgerðir í staðinn fyrir nýbyggingar. Nú komst það í kring fyrir nokkrum árum, að veittur var nokkur styrkur til nýbygginga, og síðar urðu þetta nokkurs konar aðstoðarlaun. Þegar farið var að úthluta þessum styrkjum, komu ýmsir, sem höfðu tekið gömul skip og gert þau sem ný, og fóru fram á, að þessar umbyggingar teldist sem nýbyggingar og nytu þessara styrkja: Þær stj. eða n., sem fóru með þessi mál, lentu þarna í allmiklum vanda. Þeim datt í hug að neita þessu, en þó var það í reglunum, að ef þessar umbyggingar eða endurbætur hefðu náð vissum hundraðshluta af verðmæti skipsins, þá teldist þetta vera nýbygging. Mælikvarðinn var sá, að ¾ af verðmæti skipsins skyldi vera nýbygging til þess að það nyti þessa styrks. Mér finnst, að svipaðan mælikvarða sé hægt að hafa enn þá að því er snertir þessar fyrningar. Ég hafði ekki hugsað þetta mál mjög mikið, en þar sem hv. 2. þm. S-M. minntist á þetta mál nú á þessum fundi, finnst mér í fljótu bragði, að það sé umhugsunarmál, hvort ekki mundi vera hægt að hafa svipaðan hátt á þessu og var með styrkinn til svokallaðra meiri háttár aðgerða, að ef það, sem nýtt er gert, nemur t. d. ¾ af verðmæti skipsins, þá teljist það til nýbyggingar og yrði hæft til þessara auknu afskrifta.