17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (3480)

241. mál, fyrningarafskriftir

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 909 við brtt. n. á þskj. 901, að aftan við brtt. bætist: „Svo fremi að styrkurinn sé jafnhár eða hærri en afskriftum þessum nemur. Sé styrkurinn hins vegar lægri, má afskrifa eignir þessar þannig, að styrkur að viðbættum afskriftum nemi 20% á ári í 3 ár. Það er bersýnilegt, að ef ríkisstyrkurinn til einhverra þessara stofnana, sem hér um ræðir og eiga að fá afskriftir, er mjög lítill, þá er það tjón fyrir viðkomandi fyrirtæki að taka á móti honum móts við það að hafa þau afskriftarfríðindi, sem hér er um að ræða. Það mun ekki vera ætlunin með þessari brtt. sjútvn., að þau fyrirtæki, sem ríkið áður hefur séð nauðsyn til að styrkja, verði í öðrum flokki en þau fyrirtæki, sem ekki hefur þótt ástæða til að veita sérstök fríðindi áður. Þess vegna tel ég réttlátt, að þau fyrirtæki, sem njóta styrks úr ríkissjóði, njóti sömu hlunninda og önnur fyrirtæki.

Ég vænti svo, að deildin taki þetta til vinsamlegrar meðferðar.