17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

241. mál, fyrningarafskriftir

Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði um það, hvort þetta hefði verið athugað á milli umr., þá skal ég svara því, að n. hefur ekki unnizt tími til þess, en við ætluðum að koma saman í dag, en af því gat ekki orðið, en það er ekki loku skotið fyrir það, að við getum komið saman á laugardag eða sunnudag. Ég man eftir því, að við 1. umr. kom fram till. um, að skip, sem væru að verulegu leyti endurbyggð, nytu þeirra hlunninda, sem um ræðir í frv., en hvað snertir, hvort draga ætti ríkisframlag frá stofnkostnaði, þá hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, og hygg ég, að ekki þurfi að setja gleggri ákvæði í frv. um þetta. Annars munum við athuga þetta, ef okkur gefst kostur á því.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, er hann bar saman styrk til mjólkurbúa um 25% við hlunnindi um þrisvar sinnum 20%, sem eru þau hlunnindi, sem í frv. er gert ráð fyrir, þá held ég hann gleymi því, að fyrirtækin njóta afskriftar hlunninda eftir því, sem reglugerð þar um segir, en misjafnt eftir því, hvort um er að ræða vélar, steinhús eða timburhús. En um þetta er óþarft að deila.