26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

241. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Aðeins örfá orð. — Hv. frsm. n. sagði, að ákvæði frv. kynnu að þykja varhugaverð vegna skattafvilnana. Hefur það vissulega við góð rök að styðjast, a. m. k. hvað fiskiskipin varðar. Ef allt fer með felldu, þá má vera ljóst, að ríkissjóður tapar tekjum, ef afskriftir verða hækkaðar, eins og frv. gerir ráð fyrir. Á hitt er svo um leið að líta, að frá því að byrjað var að tala um, að ríkið beitti sér fyrir því, að togarar fengjust til landsins, hefur verið út frá því gengið, að leyfa yrði hærri afskriftir af þeim en venja hefur verið. Og ég held, að það hefði verið erfitt að koma togurum út til einstakra manna og félaga, ef ekki hefðu verið leyfðar hækkaðar afskriftir af þeim. — En um önnur skip en fiskiskip er það að segja, að ég ætla, að ekki sé um verulegan tekjumissi að ræða fyrir ríkissjóð í þessu efni. Ég hef látið gera athuganir á þessu, að því er fiskiskipin snertir, og það hefur sýnt sig, að beinar tekjur ríkissjóðs af, fiskiskipunum hafa verið litlar á undanförnum árum. Það má segja, að fríðindin verði ekki mikil fyrir þessi skip, en þó ætla ég, að það muni frekar verða til þess að örva menn til að koma sér þessum tækjum upp. Og um flest hin tækin, sem ráðgert er, að komið verði upp á næstu árum, er það að segja, að það yrði naumast í þau ráðizt nema því aðeins að hækka afskriftirnar af þeim. Það má segja, að það sé ekkert frá ríkissjóði tekið, því að ef tækjunum verður ekki komið upp, verður ekki heldur um tekjur að ræða af þeim.

Viðvíkjandi brtt. vil ég segja það, að frá því fyrsta að byrjað var að tala um málið, hef ég verið því meðmæltur, að fleiri tæki væru tekin upp í frv. en þar er ráð fyrir gert, m. a. flutningaskip. Og ég hygg, að það sé alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að menn muni verða mjög tregir til þess að leggja fram fé til þess að kaupa flutningaskip nú, ef þeir fá ekki fyrirheit um eitthvað hærri afskriftir en verið hefur. Menn verða að gera það upp við sig, hvort æskilegt sé að örva menn til að leggja fram fé til þess að afla þessara tækja eða ekki, Ég er þeirrar skoðunar, að við Íslendingar eigum að keppa að því að verða siglingaþjóð, og við hljótum að keppa að því hvað vöruflutninga frá og til landsins snertir. En til þess þurfum við að bæta við flutningaflotann. Það eina, sem mælt gæti á móti þessu nú, er, að rekstur skipa hjá okkur er dýrari en hjá nágrannaþjóðunum, og þess vegna er hæpið, að þær ívilnanir, sem ráðgerðar eru, geti komið að gagni, þ. e. a. s., að þær afli svo mikilla tekna, að þær gætu staðið undir þeim afskriftum, sem hér eru ráðgerðar. En ég vil aðeins benda á í því sambandi, að það er engum efa undirorpið, að ef þetta frv. verður afgr. eins og það nú er, þá muni koma kröfur um, að afskriftareglugerðinni verði breytt og leyfðar verði hærri afskriftir af tækjunum. Og það mun verða notað sem röksemd við fjmrn., að menn muni því aðeins ráðast í að afla vissra tækja, að hærri afskriftir verði leyfðar af þeim. Og það mun sannast, að það mun verða erfitt að standa móti þeim kröfum.

Ég vil benda á þetta til þess, að því sé nú þegar slegið föstu, að þingið verður að vera undir það búið, þó að það vilji ekki fallast á það að fjölga þeim tækjum, sem leyfðar eru afskriftir af, að ríkisstj. verður á eftir knúð til þess að taka meira og minna upp tæki undir hærri afskriftir en gert hefur verið áður.

Ég mun fylgja því, að þessi brtt. nái fram að ganga. Það hefur að vísu ekki náðst samkomulag innan ríkisstj. um það að taka fleiri tæki en gert er ráð fyrir í frv., en ég tel mig samt hafa óbundnar hendur um atkvgr.