18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

16. mál, fjárlög 1946

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég stend að fjórum brtt. á þskj.362 og skal stuttlega gera grein fyrir þremur þeirra. — Það er í fyrsta lagi till. nr. 21 á þessu þskj. varðandi þjóðminjasafnið. Eins og hv. þm. vita allir, hefur fjvn. lækkað nokkuð þann lið, sem ætlaður er til launagreiðslu, frá því, sem upphaflega var ætlazt til í fjárlfrv. Hún hefur fært þetta niður úr 23670 kr. í 18300 kr. Ég hygg, að þessi till. fjvn. hafi byggzt á því, — en er ekki kunnugt um það, — að maður, sem við það safn hefur starfað, Jón Auðuns, muni láta af starfi um áramót. Það, sem hann hefur fengizt við, er skráning og röðun ljósmynda. Því starfi er ekki lokið, og er þörf á að hafa mann til að halda þessu verki áfram. Þetta er á misskilningi byggt. Eftir því, sem ég hef fengið upplýst hjá hæstv. menntmrh. (BrB) og þjóðminjaverði, er það fjarri því, að það starf, sem séra Jón Auðuns hefur unnið, sé óþarft, þegar hann hverfur frá því, heldur líta þeir svo á, að þarna þyrfti að vinna og móta meira starf en hann gat gert. Þeir líta svo á, að þörf sé á, að safnið fái mann til viðbótar, sem taki við starfinu af Jóni, og að hann vinni það ekki sem ígripastarf, heldur verði hér um fullkomið starf að ræða og byggist það á því, að safninu verði komið fyrir í nýjum húsakynnum. Er mikið verk óunnið á þessu sviði enn. — Skal ég láta þessi orð nægja fyrir þessari brtt., en vænti þess, að hv. þm. muni vera mér sammála um það, að ekki sé rétt að draga svo úr starfskröftum þjóðminjasafnsins sem að er stefnt með þeirri niðurfærslu launa, sem hér á að samþ.

Um 25. till. á sama þskj., sem ég einnig stend að, skal ég ekki ræða. Það mun hv. fyrri flm. (BBen) gera. En 31. till. á sama þskj., varðandi laun Ágústs H. Bjarnasonar, prófessors, mun ég ræða nokkuð. Eftir þeim upplýsingum, sem lágu fyrir fjvn., á Ágúst H. Bjarnason, sem nú hverfur frá starfi 70 ára að aldri, að fá 2405 kr. og er sú upphæð komin inn í till. fjvn. Úr lífeyrissjóði á hann að njóta að ég hygg kr. 1770,80 eða samtals kr. 4175,80. Nú virðist mér, að maður með starfsferil Ágústs H. Bjarnasonar að baki sér eigi skilið að hverfa frá störfum með fullum launum. Það er óþarfi að rekja sögu þessa mæta manns. Hún er alkunn. En þess má þó minnast, að hann hefur starfað í þjónustu íslenzka ríkisins frá 1905, fyrst við menntaskólann 1905–1911, en síðan við háskólann, frá því að hann var stofnaður 1911 til þessa árs. Sýnist mér næsta augljóst eftir því, sem gert hefur verið við ýmsa aðra menn, sem látið hafa af störfum við háskólann, að óverjandi sé, að gert sé verr við þennan aldraða heiðursmann, þegar hann er að láta af störfum vegna aldurs. Við flm. þessarar till, leggjum til, að honum verði veittar í staðinn fyrir þær 2500 kr., sem n. leggur til, kr. 6924,20 og er þá miðað við, að hann fái prófessorslaun, sem eru, eins og kunnugt er, 11100 kr. En færi svo, mót von minni, að hv. þm. geti ekki á það fallizt, þá höfum við til vara lagt til, að þessi upphæð yrði 5 þús. kr., og er það þó að vísu mikil framför frá því, sem fjvn. leggur til. Ég mun svo ekki fjölyrða meira um þetta.

Þá stend ég í þriðja lagi að till. 35 á þessu sama þskj. Stendur líkt á um þá till. og þessa, sem ég var að tala um áður. Sú till. fjallar um það, að Þorkeli Þorkelssyni verði veitt full embættislaun, er hann lætur af starfi veðurstofustjóra. Þorkell verður sjötugur á næsta ári og hefur starfað í þjónustu ríkisins síðan 1908, fyrst sem kennari við gagnfræðaskólann á Akureyri til 1918, síðan sem forstjóri löggildingarstofunnar til 1920 og síðan sem forstjóri Veðurstofunnar. Ég þarf ekki að lýsa fyrir hv. þm., með hve mikilli samvizkusemi hann hefur rækt þessi störf. Og ég þarf ekki að lýsa því, að maður, sem helgar sig allan embættisstörfum og hefur ekki haft með höndum önnur launuð störf um dagana, að það er ekki hægt að safna gildum sjóði. Ég vona, að hv. þm. leysi hann frá störfum með fullum launum og það því fremur, sem fjvn. hefur lagt til, að annar maður fái full laun, er hann hættir starfi sínu, og ekki hef ég á móti þessari till. n. Maðurinn, sem í hlut á, dr. Matthías Einarsson, er þess vissulega verður að hljóta nokkra viðurkenningu frá íslenzka ríkinu, og þótt ekki hafi hann unnið beint í þjónustu þess, þá hefur hann unnið þjóðnýtt starf, en vissulega á einnig að breyta svo við annan mann, sem líka hefur sýnt mikinn dugnað og mikla vísindahæfni í sínu starfi og hefur alla tíð starfað í þjónustu ríkisins.