04.04.1946
Neðri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (3517)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson; Hv. 2. þm. S.-M. var að segja, að ríkisstj. væri m. a. að gera mönnum erfitt fyrir að komast yfir atvinnutæki. Mér finnst stjórnarandstaðan ganga nokkuð langt í fullyrðingum, þegar hún fæst til að staðhæfa slíkt sem þetta. Ég gæti trúað, að þegar ég kæmi niður úr draumaheimunum, sem hv. þm. hélt mig vera í í gær, og legði á borðið fyrir hann, hvað ríkisstj. hefur gert til að auðvelda mönnum að eignast atvinnutæki, þá verði honum bilt við og segi eins og einn flokksbróðir hans:

Hvar ætlið þið að fá menn á öll þessi atvinnutæki? Það hefur aldrei nein ríkisstj. á Íslandi gert neitt svipað því til að gera mönnum mögulegt að komast yfir atvinnutæki eins og núverandi ríkisstjórn. Hún hefur ekki aðeins greitt götu þeirra, sem viljað hafa afla tækja til landsins, heldur hefur hún nú lagt fyrir þingið stórkostlegt lánafrv. sjávarútveginum til aðstoðar. En hvaða leið vill hv. þm. fara? Hann vill láta bjóða út skuldabréf og eiga undir því, hvort þau seljast. Hv. þm. veit, að þau seljast ekki, og hann er á móti tekjuöflunarleið þeirri, er frv. gerir ráð fyrir. En leið hv. þm. getur ekki gefið neinar tekjur. Ef hún er farin, er ekki hægt að láta nein lán. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hv. þm. ræðst á stjórnina frá þessari hlið.

Vegna þess, sem fram hefur komið varðandi afstöðu Landsbankastjórnarinnar til þessa frv., ætla ég að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, eitt atriði úr lögum Landsbanka Íslands. Það hljóðar þannig: „Svo ber stjórn Landsbankans að afstýra eftir því sem unnt er, með kaupum og sölum á erlendum gjaldeyri og verðbréfum, sem skráð eru á erlendum kauphöllum, með viðskiptum við aðrar peningastofnanir í landinu, og með tilhögun útlánastarfseminnar, truflun þeirri á peningamálum og atvinnulífinu, sem annars má vænta, að almennar hagsveiflur hafi í för með sér.“

Það er því bankans að reyna að stjórna atvinnulífi landsins og hindra kreppur. Þegar einstaklingar draga saman aðgerðir sínar, þá á bankinn að lána meira út en áður til að jafna metin og tryggja það, að ekki skapist kreppa vegna þessara hagsveiflna. Þetta hefur Landsbankastjórnin aldrei skilið. Hún hefur alltaf borizt fyrir öldunum í stað þess að stjórna þeim. Ef þetta frv. verður að l., þá er gerð tilraun til að hafa stjórn á atvinnulífinu, ekki um 1–2 ár, heldur um lengri tíma. Þess vegna er það rangt hjá hæstv. fjmrh., að það beri að leggja áherzlu á., að þessi lán séu borguð inn á örskömmum tíma. Það er miklu heppilegra fyrir þjóðfélagið, ef hægt er að lána þetta út um alllangan tíma með lágum vöxtum og pína það ekki allt of fljótt inn.

Varðandi það, sem hæstv. samgmrh. sagði um dráttarbrautir, þá vil ég geta þess, að það hefur alltaf verið hugmynd hjá okkur í nýbyggingarráði, að þetta lánafrv. ætti fyrst og fremst að vera fyrir sjávarútveginn, sbr. frv. um ræktunarsjóð, sem er sniðið fyrir lánveitingar til landbúnaðarins. Í líkingu við þessi frv. höfum við hugsað um frv. fyrir iðnaðinn. Þess vegna álít ég ekki rétt að taka inn á þessi lán nema það, sem er alveg óhjákvæmilegt eða aðeins þegar útvegsmenn sjálfir standa að iðnaðinum. Við verðum að muna það, að þessar 100 millj. kr. eru ekki stór peningur og fara á nokkrum mánuðum, ef þessi 1, verða framkvæmd. Og ef veita á til dráttarbrauta 6 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, þá þýðir það, að komið verður í veg fyrir, að svo og svo margir mótorbátar verði keyptir fyrir peningana. Ég álít þetta óþarfa á þeim tíma, þegar Reykjavík hefur stuðning frá Alþ. til að koma upp dráttarbraut og getur tekið upp samvinnu um það við hlutafélög, sem hlut eiga að máli. Slík samvinna væri að ýmsu leyti heppilegri, og það eru til nægar heimildir til að hrinda þessu af stað. Reykjavík hefur brugðizt skyldu sinni með að standa fyrir því samstarfi, sem þarf að koma á til þess að tryggja, að togarar í bænum hafi dráttarbraut. Hitt, er aftur á móti rétt, að leggja verður áherzlu á, að þessu verði komið nú upp. Það er rétt að undirstrika það, að þörfin fyrir dráttarbraut margfaldast þegar nýi flotinn kemur.

En það er tilfinnanlegra, ef ekki eru til hafnir til þess að reka nýja flotann frá, og það er eitt, sem Alþ. ber að gera, en það er að heimila ríkisstj. að leggja fram stórar fúlgur til þess að skapa að minnsta kosti tvær landshafnir í viðbót. Að öðrum kosti verða stórkostleg vandræði á tveim næstu vertíðum fyrir bátaflotann.

Það liggja nú fyrir yfirlýsingar um það frá hv. frsm. sjútvn. og hv. 4. þm. Reykv., að það hefði kostað mikil átök, ef meiri hl. sjútvn. hefði ekki beygt sig fyrir vilja stjórnar Landsbankans.

Það hefði orðið málinu til mikils trafala, segir hv. 4. þm. Reykv., og dregið málið fram úr öllu hófi, ef ekki hefði verið breytt þannig til, að stofnlánadeildin væri við Landsbankann. Með slíkum hótunum um drátt hafa menn verið knúðir til að breyta frá því, sem þeir álíta heppilegast fyrir málið. Og slíkt ofríki kemur frá Landsbankastjórninni, sem hefur áður fyrr lýst yfir því, að hún álíti frv. þjóðhættulegt. Pressan er svo mikil, sem þarna er sett á ríkisstj. og Alþ.,hv. þm. víkja út frá því, sem þeir álíta æskilegast og bezt, og til þess, sem þeir eru ekki ánægðir með, svo að málið tefjist ekki allt of lengi.

Ég ætla svo ekki að misnota þolinmæði hæstv. forseta, enda er ein umr. eftir, svo að enn er hægt að fá fram vilja þingsins og koma í veg fyrir það, að Landsbankastjórnin, sem frá upphafi hefur verið málinu fjandsamleg, fyrirskipi þinginu, hvað það eigi að gera.