09.04.1946
Neðri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Þær brtt., sem ég flyt við þetta frv., eru á þskj. 722. Fyrsta brtt., sem þar er, hefur nú þegar fyrirfram fengið hálfkuldalegar viðtökur hjá hv. frsm. sjútvn., hv. þm. Vestm., þar sem hann hefur nú lagt sig mjög fram um það, áður en mér hafði gefizt tóm til að reifa brtt. mína, að mæla mjög gegn henni og færa fram rök þar að lútandi, að slíkra aðgerða þyrfti ekki við hvað snertir hafnargerðir og lendingarbætur. Af því að ég lít nú allt öðruvísi á þetta mál, þörfina á skjótum aðgerðum í hafnarmálum og lendingarbótum, heldur en hv. frsm. sjútvn. virðist gera, þá hef ég nú leyft mér að bera fram þessa brtt. Ég lít þannig á, að ein aðalundirstaða þess, að þau auknu fiskiskipakaup, sem stofnað er nú til hér hjá okkur, komi að fullu gagni, sé það, að fyrir hendi séu, þegar þessi nýju og að ýmsu leyti stærri skip en við höfum haft áður koma, sem svo eiga að dreifast á verstöðvar kringum landið, þau auknu hafnarskilyrði, sem geri mögulegt að notfæra þessi fiskiskip eins og til er ætlazt. En það er mjög fjarri því, að svo sé ástatt nú, víða hér við land, að það sé með öruggum hætti hægt að geyma þessa stóru og dýru báta, sem nú er verið að kaupa til landsins og láta smíða innanlands. Það er ekki hægt með öruggum hætti öðrum en þeim, að í mjög stórum stíl séu gerðar lendingarbætur og komið upp hafnarmannvirkjum til þess að vernda þennan skipaflota. Það er ægileg tilhugsun fyrir okkur, ef það ætti að koma fyrir, eftir að búið er að dreifa þessum skipaflota á hafnir og lægi í verstöðvum úti um landið, að á einum óveðursdegi eða einni óveðursnóttu gæti svo farið, að svo og svo mikið af þessum dýru skipum, sem við ætlum að byggja framtíð okkar á, ræki á land eða þau sykkju þar, sem þau eru. En án verulegra aðgerða í hafnarmálum víðs vegar með ströndum landsins vofir þetta óneitanlega yfir. Þess vegna er það vissulega einn meginþátturinn í þeim aðgerðum, sem nú er verið að hefja hér og ganga undir nafninu nýsköpun, að búa þessum fiskiskipaflota, sem verið er að kaupa til landsins og láta byggja hér, þau skilyrði, að það sé nokkurn veginn hægt að geyma hann örugglega þar, sem á að gera þessi skip út. Nú eru að vísu á okkar mælikvarða lagðar fram allríflegar fjárhæðir á fjárl. sem framlög ríkisins til hafnargerða víðs vegar. En með tilliti til þess, hve framkvæmd þessara verka er ákaflega dýr, þá sækist þetta mjög skammt að því er þessi fjárframlög snertir, þannig að framkvæmdir í þessum efnum verða að mjög verulegu leyti að byggjast á lántökum, sem þeir aðilar, sem láta vinna þessi verk, verða að sjálfsögðu að standa undir. Og þess vegna skiptir það eðlilega miklu máli, hvernig þau lánsskilyrði eru, sem þeir eiga kost á, sem standa að þessum framkvæmdum. Nú verða menn að sæta lánum til slíkra framkvæmda með vöxtum frá 4–6%, og þegar um stórar lánsupphæðir er að ræða, þá eru þessir vextir náttúrlega ákaflega mikið fé, sem þeir verða að greiða, sem verða að sæta svo dýrum lánum. Þess vegna varð ég hissa á því, þegar ég sá í byrjun þetta frv., og eins síðan á því, að þeir, sem um það hafa fjallað, skyldu algerlega hafa gengið fram hjá þessum atriðum, sem um er að ræða í minni brtt. Og þess vegna ásetti ég mér það strax og ég gæti að bera fram brtt. í þessa átt, sem ég hef nú gert.

Eins og kunnugt er, hefur orðið nokkur breyt. á þessu máli við meðferð þess hér í hv. deild. Málið var upphaflega borið fram í öðru formi. Málinu hefur verið gerbreytt að formi til. Þetta mál lá þannig fyrir við 2. umr., að það var mjög óhagkvæmt að koma því við að bera fram brtt., sem gengju í þá átt, sem mínar brtt. nú gera. Þess vegna hefur það nú dregizt að flytja þær, þangað til þetta frv. var endurprentað eftir þær miklu breyt., sem gerðar voru á því. Þetta vil ég láta koma fram í sambandi við það, að hv. frsm. sjútvn. vildi gefa í skyn, að þessar brtt. kæmu nokkuð seint fram, þ. e. á síðasta stigi málsins hér í d., svo framarlega sem það þurfi ekki að koma til þessarar hv. d. aftur.

Mér virðist, að það sé alveg sjálfsagður liður í þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að gera, að afla ódýrra lána til þeirra framkvæmda, sem mín brtt. er um, þ. e. til þess að greiða fyrir því, sem segja má, að sé undirstaða þess víðs vegar á landinu, að þessi aukning á fiskiskipaflota landsmanna, sem fyrirhuguð er, komi að notum, að með skjótum hætti séu gerðar ráðstafanir til þess að gera stórfelldar umbætur í hafnargerðum víðs vegar úti um útgerðarsvæði landsins. Það er því síður en svo, að þær úrtölur, sem hv, frsm. bar hér fram um þetta, hafi neitt dregið úr mínu áliti á þeirri nauðsyn, sem á því er að greiða þarna fyrir með sama hætti og gert er gagnvart skipabyggingum og gagnvart því að koma upp verksmiðjum og öðrum tækjum í sambandi við vinnslu fisksins. Hafnarskilyrði eru í þessu efni undirstöðuatriði, eins og ég hef lýst, og því fullkomin þörf á að greiða fyrir því, að þau verði bætt, eins og hér er lagt til í mínum brtt., því að þar, sem ráðizt er í hafnarframkvæmdir, þá verður að gera það í miklu stærri stíl en markast af framlagi ríkisins, — sem er alls staðar þar, sem um stærst átök er að ræða í þessu efni, ekki nema 2/5 hlutar stofnkostnaðar við hafnargerðir, — að ekki er hægt að bíða með hafnargerðirnar eftir því, að þessu hlutfalli sé fylgt, heldur verður að stíga miklu stærri spor, og þá verða viðkomendur að taka til bráðabirgða lán. Þess vegna verða þessir aðilar að bera mikinn þunga af vaxtagreiðslum vegna stórra lána til þessara framkvæmda. Og það mundi muna þá miklu, ef þeir gætu fengið lán með 2,5% vöxtum í stað 4 eða 6%, eins og þó ýmsir eiga nú við að búa, sem tekið hafa lán til þessara framkvæmda.

Hv. frsm. sjútvn. vitnaði hér í hafnarbótasjóðinn. Þessi sjóður er ákaflega ungur og er þess vegna mjög lítils megnugur, enn sem komið er, til þess að vera þáttur í stórum og kostnaðarsömum átökum í þessum efnum. Það má segja, að lánveitingar úr þessum sjóði séu eins og dropi í hafinu, enn sem komið er, miðað við þá þörf, sem á því er að koma þessum framkvæmdum áleiðis. Þessi sjóður getur að vísu eflzt með tímanum, og með honum er lagður grundvöllur, sem verður mikilsverður þáttur í því að hrinda þessum málum áfram. En eins og nú er, er þessi sjóður ákaflega lítils megnugur, þegar á að fara að skipta lánum úr honum milli margra aðila, sem þurfa á miklu fé að halda í þessu augnamiði.

Næsta brtt. mín stendur svo í beinu sambandi við það, að ég hef lagt til, að tekin yrðu upp ákvæði, sem ganga í þá átt, sem ég hef lýst. Hún er um það, að í stað 100 millj., kr., sem ætlað er að leggja fram í þessa stofnlánadeild, sé ákveðið, að 120 millj. verði lagðar fram til þessa. Ég minnist þess, að við 1. umr. þessa máls gat hv. frsm. þess, að sennilega þyrfti að hækka þessa upphæð, 100 millj. kr., frá því, sem ákveðið var í frv., mig minnir, að hann tiltæki allt upp í 130 millj. kr. En í þeirri löngu meðferð þessa máls hefur nú ekkert verið gert í þá átt að bæta við þessa upphæð, og hefði ég heldur ekki látið það atriði málsins til mín taka í öðru sambandi en því, að ég legg til, að bætt verði við einum hópi lánsaðila í viðbót við það, sem þegar er gert ráð fyrir í frv. Náttúrlega er þetta ekki byggt á neinum útreikningi sérstaklega, viðkomandi fjárþörf stofnlánadeildarinnar, að þessi upphæð er til tekin í brtt. Það má segja, að þessi upphæð sé sett nokkuð af handahófi. Hitt leiðir að sjálfu sér, að þessi 20 millj. kr. viðbót getur mætt allmiklum þörfum fyrir lánsfé til þeirra framkvæmda, sem í minni brtt. getur.

Þriðja brtt. mín er við 8. gr. frv. Í 8. gr. frv., eins og það liggur fyrir nú, er gerður munur á því hámarki, sem lána má út á bæði skip og verksmiðjur, eftir því, hvort að þessum framkvæmdum standa einstaklingar annars vegar, sem gert er ráð fyrir, að láti veð fyrir sínum lánum, eða sveitarfélög og bæjarfélög hins vegar, eða þau ganga í ábyrgð fyrir lánum þessum fyrir einstaklinga, til viðbótar því veði, sem lánin eru tryggð með. Þetta ákvæði virðist mér vera óeðlilegt. Í fyrsta lagi af því, að ég kann ekki við það, að það sé verið að gera mismun á því, hvort það er einstaklingur, sem ræðst í þessar framkvæmdir, eða þá félög upp á eigin spýtur, og því hins vegar, hvort þessum einstaklingi hefur tekizt að afla sér ábyrgðar sveitarfélags eða bæjarfélags eða þá að bæjarfélagið sjálft eða sveitarfélagið er beinn aðili í málinu. Hingað til hefur, hvað lánveitingar snertir og önnur fríðindi af hendi ríkisins, ekki verið gerður munur á þessu. Og hingað til hefur ekki verið talinn að vera sá öryggismismunur t. d. á því, hvað starfrækslu snertir, hvort það er einstaklingur, sem stendur fyrir slíkum framkvæmdum, eða félagsskapur fleiri manna, eða hins vegar hvort það er bæjar- eða sveitarfélag, sem fyrir framkvæmdunum stendur, þannig að það felist meiri trygging í því, að fyrirtæki, sem bæjarfélag rekur, sé betur rekið en það fyrirtæki, sem einstaklingur eða félagsskapur einstaklinga stendur fyrir að reka. Það er hins vegar vitað, að uppi eru hjá okkur mismunandi stefnur í þessu efni, þannig að sumir af stjórnarflokkunum hafa það á sinni stefnuskrá, að hagkvæmara sé og sjálfsagðara, að bæjarfélögin og ríkið sjálft reki þessi fyrirtæki, hvort sem er útgerð, verksmiðjurekstur eða annað. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa allt til þessa a. m. k. litið svo á, að hitt væri heppilegra, að byggja þetta að sem allra mestu leyti á framtaki einstaklinga, hvort sem það kemur fram hjá hverjum einstaklingi fyrir sig eða félagsbundnum samtökum einstaklinga. Nú virðist mér, að frv., sem hér ræðir um, gangi í þá átt að gera þeirri stefnu hærra undir höfði, sem beitir sér fyrir því, að þessi rekstur komist yfir á hendur þess opinbera, hvort sem heldur er um að ræða ríkisrekstur eða bæjarrekstur eða rekstur sveitarfélaga í þessu efni. Þessu er ég ekki samþykkur.

Þá er hin hliðin á þessu atriði málsins, hvað tryggingarnar snertir, hvaða öryggi felst í ábyrgð sveitarfélaga eða bæjarfélaga gagnvart einstaklingum, sem taka þessi lán. Mér er kunnugt um það, að lánsstofnanir landsins hafa allt til þessa yfirleitt lítið lagt upp úr ábyrgð bæjarfélaga og sveitarfélaga, þegar um hefur verið að ræða lántökur einstakra manna eða félaga. Og þetta byggist sjálfsagt á því, að lánsstofnanir hafa rekið sig á það, að þegar til átti að taka að gera þessi sveitarfélög og bæjarfélög ábyrg á greiðslufalli á lánum, sem þau hafa gengið í ábyrgð fyrir, þá ætla ég, að það lengst af hafi verið svo, að þessi ábyrgð hafi verið haldlítil. Enda þekkjum við það, sem mikið höfum fengizt við sveitarmálefni, hvort sem er úti um land eða í bæjarfélögum, að það er ekki vinsælt að fara að leggja þungar álögur á útsvarsgjaldendurna til þess að borga upp ábyrgð, sem viðkomandi sveitar- eða bæjarfélag hefur tekizt á hendur fyrir einstaklinga, og mundi það verða svo hér eftir sem hingað til, að mörg vandkvæði yrðu á þeirri leið. Þess vegna álít ég það ekki hyggilegt af löggjafarvaldinu að ýta undir það að setja bæjar- og sveitarfélögin í nokkurs konar spennitreyju þannig lagað, að einstaklingar hafi aðgang að hærri lánum, ef þeim tekst að útvega bæjar- eða sveitarábyrgð. Ég held, að það sé ekki hyggileg pólitík, sem hæstv. Alþ. er að reka með því að taka þannig löguð ákvæði í lóg. Horfir þetta þannig við frá mínu sjónarmiði, hvort sem litið er á öryggi fyrir rekstri þeirra fyrirtækja, sem hér á að veita lán til, eða öryggið fyrir því, að lán þessi verði greidd, þó að sveitarfélög eða bæjarfélög komi þarna fram sem viðbótaraðili, hvað snertir ábyrgð, — þó að þetta komi náttúrlega mikið undir útkomu rekstrarins. Ég legg til, að þessum aðilum, sem ég hef minnzt á, sé gert öllum jafnt undir höfði hvað lánsupphæðir snertir. Og það byggist á því, að þeir eigi einnig að njóta einna og sömu vaxtakjara, sem er í raun og veru gert ráð fyrir.

Nú sé ég á einni þeirra brtt., sem hv. sjútvn. hefur borið hér fram, að n. vill einnig ganga í þessa átt, sem ég hef haldið fram, þar sem félagssamtök einstaklinga samkv. henni, þótt ekki hafi þau ábyrgð sveitar- eða bæjarfélags, eiga að njóta sama hámarks um lán úr stofnlánadeildinni og bæjarfélögum er ætlað samkv. 2. málsl. 8. gr. Og þá er raunverulega ekki orðið mikið, sem ber á milli í þessu efni, það eru þá eingöngu þeir einstaklingar eftir, sem þarna eiga hlut að máli, sem á að setja skör lægra en hina aðilana. Kann ég ekki við það og tel það ekki eðlilegt né sanngjarnt, að slíkur munur sé á þessu gerður.

Svo eru hér í brtt. mínum aðeins lítils háttar brtt. viðkomandi 12. og 14. gr., sem eru afleiðingar af því, , að lagt er til, að heimilað sé að veita lán úr stofnlánadeildinni til hafnarmannvirkja og lendingarbóta. Þau ákvæði, sem felast í þessum gr., taka ekki til sveitar- og bæjarfélaga, og er þess vegna á báðum þessum stöðum lagt til, að þessi ákvæði taki ekki til lána eða lánþega vegna hafnarmannvirkja eða lendingarbóta. Ákvæði frv. í þessum gr. eru um vátryggingu o. fl., sem ekki kemur til greina í sambandi við þessar framkvæmdir, og eins þar sem talað er um .veðin.

Þá er það aðeins eitt, sem ég á eftir að gera grein fyrir í sambandi við lánin til hafnarmannvirkja, það, að ég hef skotið hér inn í á eftir ákvæði brtt. um hámark lánsfjárhæðar til skipa og annarra framkvæmda orðunum: „Til hafnarmannvirkja og lendingarbóta skal lánsfjárhæð þó aldrei hærri vera en ríkisábyrgð er fyrir samkvæmt lögum um hafnargerðir og lendingarbætur.“ — Ríkisábyrgðin er einskorðuð í l. um hafnargerðir og lendingarbætur. En þar sem ekki er víst, að þessi einskorðaða ríkisábyrgð fari saman við hámark lánsins, þá er sjálfsagt að binda þetta við það, að lánið sé ekki hærra en í l. er ákveðið, að ríkisábyrgð nái til. Þetta gæti í einstökum tilfellum dregið eitthvað úr lánum, en er sjálfsagt ákvæði í sambandi við það, að það er sett að skilyrði fyrir lánum úr stofnlánadeildinni, að ríkisábyrgð sé fyrir þeim lánum.

Ég vænti þess, að hv. þd. sé mér sammála um það að skjótar og miklar framkvæmdir í hafnar- og lendingarbótum sé það meginatriði í þeirri nýsköpun., sem stefnt er að nú í okkar landi, að það er sjálfsagður hlutur, að þau góðu og hagkvæmu lánakjör, sem hér er stofnað til með þessu frv., séu einnig látin ná til þessara framkvæmda, sem eru höfuðnauðsyn og undirstaða þess, að þessi nýsköpun geti borið þann árangur hjá okkur, sem stefnt er að og allir óska eftir, að geti náðst, þegar tímar líða.