16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað frv. þetta, en hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. 4 nm. mæla með því, að frv. verði samþ., og þó hafa 2 þeirra áskilið sér rétt, til þess að koma fram með brtt. Hv. þm. Barð. hefur ekki átt samleið með okkur og ber fram sérstakar brtt.

Eins og sjá má af frv., er hér stofnuð ný deild við Landsbanka Íslands, er nefnist stofnlánadeild sjávarútvegsins, og er hlutverk hennar að styðja sjávarútveginn með hagkvæmum stofnlánum. Í frv. eru ýtarlegar reglur um fyrirkomulag og lánatilhögun deildarinnar, en allt er frv. gert í sambandi við aðgerðir stjórnarinnar í nýskipan atvinnuveganna. Það er gert til þess að gera einstaklingum og félögum fært að taka þátt í nýskipuninni, og um það eru menn sammála. Ég vil taka það fram, að bæði ég og minni hl. n. erum óánægðir með margt í frv., en samkomulag hefur orðið um það að skipa málunum eins og nú er. Í Nd. kom fram ýtarleg grg. af hálfu Alþfl., og vísa ég til hennar. Svo er og um aðra flokka, og ætti því að vera óþarfi að opna miklar umr. um málið hér í deildinni. Tveir nm., hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. S.-M., hafa borið fram brtt. við ýmis atriði frv., og áður en ég segi meira, tel ég heppilegra að gefa þeim tækifæri til þess að gera grein fyrir sínum brtt.