16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (3554)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eins og hv. frsm. sjútvn. gat um, varð ekki samkomulag um málið í n., en hv. meiri hl. er heldur ekki sammála, því að brtt. hefur komið fram frá einum þeirra á þskj. 846. Þetta er eitt af stærstu málum þingsins og hefur verið afgr. úr n. á mjög skömmum tíma. Ef lengri tími hefði verið, hefði vafalaust mátt ná samkomulagi um sumar brtt. mínar á þskj. 845. Sjálfur hefði ég talið, að ekki væri rétt að hafa í 3. gr. lán til dráttarbrauta o. fl., þar eð um þetta eru ákvæði í hafnarl: Og enda þótt ég hafi ekki borið fram brtt. um þetta, þá tel ég algerlega rangt að hafa þetta með, enda mun það sýna sig í framtíðinni, að það íþyngir mjög aðalhlutverki sjóðsins. Ég hef borið fram brtt. við 2. mgr. Ég tel ekki rétt, að félagsskapur, sem stofnaður er af því opinbera og einstaklingum, hafi ekki jafnan rétt. Frá einstökum mönnum og hlutafélögum hafa komið mestar tekjur í ríkissjóð. En þakkirnar eru að gera þá að 2. flokks mönnum, og í staðinn „faverað“ þeim, er ekki hafa sýnt eins mikinn dugnað. Ég viðurkenni það, að samvinnufélagsskapur eigi rétt á sér, en það á ekki að veita honum meiri rétt en öðrum félagsskap.

Næsta brtt. mín er við 8. gr. og er afleiðing af hinni. B-liður er einnig í sambandi við þetta og er það allt afleiðing af 1. brtt. Ég hef lagt til, að 9. gr. breytist svo, að þar standi „einstaklingar og félög“ í stað „einstaklingar og samvinnufélög,“ en samkv. þessu er ekki til þess ætlazt, að hlutafélög verði aðnjótandi þeirra fríðinda, sem þarna um ræðir. Frsm. telur, að þetta geti staðizt, en mér finnst þá rétt að hafa það alveg skýlaust í frv., svo að ekki þurfi að standa í málaferlum út af því. Ef þetta á að vera eins og ég vil hafa það, þá tel ég, að breyta eigi orðalaginu.

4. brtt. mín er við 11. gr. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að koma hér á fót stofnlánadeild með þannig fyrirkomulagi, að vextirnir hækki allt í einu um ½%, þó að það dragist kannske í hálfan mánuð að greiða. Ég vil ekki, að hér verði greiddir mestu gyðingavextir í veröldinni.

5. brtt. mín er við 13. gr. Í frv. er gert ráð fyrir því, að Landsbankinn megi velja virðingarmenn. Ég vil benda á, hve hættulegt þetta getur verið. Ég vil spyrja, hvernig þetta verði í framkvæmdinni. Og á lánveitandinn að miða við lægra verðið? Það getur því farið svo, að menn fái aðeins 30% af verðmætinu. Mennirnir meta eignirnar kannske ekki nema 1/3 hluta þess, sem þær eru raunverulega verðar. Og ef á að hafa sama hátt á þessum málum, þá fá útvegsmenn að finna það einhvern tíma, hvað það er að hafa þetta óbreytt í l. eins og það er í frv. Ég tel, að ef þetta ákvæði stendur óbreytt í 13. gr., þá sé algerlega kippt fótunum undan gagnsemi þessarar stofnlánadeildar, nema því aðeins, að það megi treysta ráðh. til að framfylgja ekki ákvæðum greinarinnar og setja ákvæði um þetta atriði ekki í reglugerð, heldur að þetta séu dómkvaddir menn, sem í n. eru skipaðir. Og ef ég heyri þá yfirlýsingu hæstv. ráðh., að dómkvaddir menn eigi að verða skipaðir í þessa n., reglugerðarákvæðið að vera þannig, þá get ég fellt mig við það. Hitt tel ég þó sjálfsagðara, að setja ákvæði um þetta beint í l., og ég undrast, að ekki skuli hafa fengizt samkomulag um það atriði að gera svo sjálfsagða breyt. á frv.

Við b-lið 13. gr. hef ég borið fram þá brtt., sem kemur sem leiðrétting, þegar búið er að fella úr þessari gr., ef mín brtt. um það verður samþ.

Svo hef ég borið fram brtt. við 15. gr. frv., um, að aftan við d-lið gr. bætist: „Ákvæði þetta gildir þó ekki, ef stöðvunin stafar af óviðráðanlegum ástæðum.“ Ég hef rætt þetta atriði við hæstv. fjmrh., sem sagði, að sjálfsagt væri að beita ekki 1. öðruvísi en þannig, að Þessu ákvæði yrði ekki beitt nema því sðeins, að stöðvunin stafaði af einhverju öðru en óviðráðanlegum ástæðum, svo sem því, að maður vildi ekki gera út eða því um líkt, en því yrði ekki beitt, ef skipin stæðu undir viðgerð lengri tíma en hér er til tekið. Og það getur komið fyrir, að skip séu meira en sex mánuði í viðgerð og tefjist frá störfum þess vegna, og í því tilfelli væri hart, ef mætti segja upp láni eingöngu af því, að gera þarf við skip vegna slysa eða sjótjóns eða annarra áfalla.

Ég vænti þess því, að þessar brtt. nái samþykki. Og ef svo verður, mun ég fylgja frv. Verði þær hins vegar felldar, tel ég mig hafa alveg óbundnar hendur um fylgi við frv.