16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (3556)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Þeir 2 hv. þdm., sem borið hafa fram brtt., hafa þegar gert grein fyrir þeim, og skal ég því lítils háttar sem frsm. n. víkja að brtt. þessum.

Ég ætla fyrst að minnast á þskj. 845, en það eru till. hv. þm. Barð. Fyrsta brtt. er við 3. gr. frv., um að 2. mgr. falli niður, og í framhaldi við það flytur hv. þm. brtt. við 8. gr., um að 3. mgr. falli niður. Mælir svo fyrir, að stofnlánadeildin skuli veita fyrsta veðréttarlán til fiskiskipa og annarra veiðiskipa og síðan til mannvirkja og verksmiðja, sem byggð eru m. a. til vinnslu á fiskúrgangi. En annars greinir gr. frá forgangsrétti til handa félögum útvegsmanna og fiskimanna, sem stofnuð eru til að reka iðnað í þágu útvegsins og eru opin útvegsmönnum og fiskimönnum, og félögum, sem meginþorri útvegsmanna á hverjum stað er þátttakandi í, í þeim tilgangi, er að framan greinir, enda skipti félögin arði af rekstri í hlutfalli við viðskipti félagsmanna. Eins og sjá má af gr. þessari, þá er félögum útvegs- og fiskimanna, sem öllum eru opin á viðkomandi stað, tryggður forgangsréttur til lána. Enn fremur er samkv. 8. gr. þeim einnig tryggður réttur til að fá hærra lán til mannvirkja en einstaklingum. Þetta ákvæði byggist á því, að reynt er að opna fiskimönnum og útvegsmönnum möguleika til að mynda samtök í því skyni að vinna úr fiskaflanum, gera þeim fært að mynda samtök til að koma upp vinnustöðvum og þess háttar og reka þær á eigin reikning. Með slíku móti gætu þeir losnað við þann millilið og tekið til sín þann hagnað, sem ella mundi renna annað. Meiri hl. sjútvn. er eindregið þeirrar skoðunar, að það eigi á allan hátt að hjálpa útvegs- og fiskimönnum til að geta verið sjálfum sér nægir og skapa þeim möguleika til að losna við óþarfa milliliði, sem gera ekkert annað en taka sinn skatt og gróða af afla þeim, sem fiski- og útvegsmenn hafa skapað. Þetta sjónarmið vill hv. þm. Barð. ekki fallast á. Hann vill ekki ganga inn á þá stefnu að reyna að losa fiskimenn við þessa milliliði, heldur vill hann hafa þeirra leið opna áfram. Þarna er um grundvallarsjónarmið að ræða, og býst ég ekki við, að hv. þm. Barð. láti sannfærast af okkar rökum frekar en við af hans rökum. Hv. þm. minntist á í þessu sambandi, að það væru sérstaklega einstaklingar, aðrir en útvegs- og fiskimenn, sem sköpuðu tekjur ríkisins og greiddu til þess, svo að það gæti haldið áfram sínum framkvæmdum. Ég vil aðeins segja það, að ég veit ekki, hverjir það eru, sem standa undir þörfum þjóðfélagsins, ef það eru ekki fyrst og fremst útvegs- og fiskimenn. Það eru fyrst og fremst þessir menn, sem standa undir þörfum okkar allra, undir þjóðarbyggingunni. Og ríkisvaldinu ber fyrst og fremst skylda til að rétta þessum mönnum hjálparhönd. Eins og hv. þm. veit vel, þá hafa íslenzkar lánsstofnanir ekki verið fúsar til að veita þessum samtökum lán til að byggja upp sina starfsemi og hafa heldur veitt lán til einstaklinga. Ákvæði þessa frv. er beinlínis nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir, að svo verði í framtíðinni. Læt ég svo útrætt um það atriði.

Þriðja brtt. hv. þm. Barð. er við 9. gr., 2. málslið. Þar vill hv. þm. ekki heldur miða sérstaklega við sameignarfélög. Í þessari gr. er ákvæði um skattgreiðslur einstaklinga og sameignarfélaga, sem hafa notið hlunninda úr stofnlánasjóðnum. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að 2. mgr. 9. gr. felur aðeins í sér heimild til þess að láta þá, sem hafa fengið þessi lán, njóta þessara frádráttarhlunninda, en ákvæði nýbyggingarsjóðslaganna standa óbreytt eftir sem áður. Þannig raskar það ekkert því, sem verið hefur. Annars þykir mér rétt að vekja athygli á því, að gefnu tilefni, að það er nauðsynlegt, að frv. til l. um sérstakar fyrningarafskriftir, sem lagt var fram í dag, verði gert samkv. ákvæði þessa frv. og 2. málsgr. 9. gr. og það samræmt svo, að ekki verði þannig við málið skilið, að ástæða sé til að ætla, að tvöföld fyrningarafskrift komi til greina. 11. gr. frv. gengur út á það, að ef tilskilið ársgjald er ekki greitt að fullu á gjalddaga, má reikna 0.5% dráttarvexti fyrir hvern ½ mánuð. Hér er sem sagt ekki miðað við heilan mánuð. Hv. þm. Barð. taldi, að hér mundi vera um prentvillu að ræða, og leggur til, að miðað skuli við heilan mánuð. Ég hef spurzt fyrir um þetta hjá hæstv. fjmrh., og mér skilst, að þetta hafi verið í frv. frá upphafi og sé þar ekki um misskilning að ræða. Hins vegar má segja, að þegar vextir eru svona lágir sem raun ber vitni um, þá er ástæða til að hafa dráttarvextina nokkuð háa til þess að menn dragi ekki í of langan tíma að ganga frá umsömdum afborgunum af lánunum. Það má gera ráð fyrir því, að dráttarvaxtaákvæðið verði ekki notað, nema um verulegan drátt og vanefndir sé að ræða, þótt heimild sé til að nota það hvenær sem er.

Þá er brtt. hv. þm. Barð. við 13. gr. Í þeirri gr. segir svo, að þær eignir, sem stofnlánadeildin tekur að veði, eigi að metast á kostnað lánþega og sé um það sett sérstök reglugerð. Bent er einnig á, að í reglugerðinni megi ákveða, að framkvæmdastjórn Landsbankans megi tilnefna virðingarmennina. Eins og gr. ber með sér, er fyrst og fremst ákveðið, að virðing skuli fram fara, í öðru lagi, að um það skuli sett reglugerð, með hverjum hætti sú virðing eigi að vera, og í þriðja lagi er ábending til ráðh. um, að reglugerðin geti heimilað framkvæmdastjórn Landsbankans að tilnefna virðingarmenn. Annað felst ekki í gr. um þetta. Hv. þm. Barð. finnst þetta of langt gengið og vill ekki eftirláta hæstv. ráðh. að setja reglugerð, heldur vill hann hafa virðingarmennina dómkvadda. Ég verð að segja það, að mér finnst það hefði fremur átt að koma frá öðrum nm. í sjútvn. en hv. þm. Barð. að mælast til þess, að hæstv. núverandi fjmrh. fái ekki að setja þessa reglugerð. Ég fyrir mitt leyti ber fyllsta traust til hæstv. fjmrh. til að ganga frá slíkri reglugerð svo, að allir megi vel við una. Það má líka segja, að á hæstv. ríkisstj. hvíli þunginn af því, að takast megi að koma á þeirri nýsköpun, sem hér er verið að vinna að.

Og ef hæstv. ráðh. skyldi hafa tilhneigingu til að setja reglugerð, sem gerði ákvæði þessa frv. að meira eða minna pappírsgagni, þá hefur hann aðhald um það að búa svo um málið, að sú nýsköpun, sem hann sjálfur og ríkisstj. hafa til stofnað og ákveðið að koma í framkvæmd, komi að notum. Og ég trúi því ekki fyrr en á reynir, að nein ástæða sé til að óttast það, að hæstv. fjmrh. hafi hina minnstu tilhneigingu til að bregða fæti fyrir sína eigin nýsköpun með því að setja reglugerð, sem gerði ákvæði l. meira eða minna pappírsgagn. Ég held því, að ótti hv. þm. Barð. sé ástæðulaus. Alþ. hefur líka í sinni hendi að breyta þessu síðar, ef þetta ákvæði kynni að reynast illa.

Þá er loks seinasta brtt. frá hv. þm. Barð. Hún er um það að bæta aftan við d-lið 15. gr. ákvæði um það, að menn þurfi ekki að missa réttindi til að halda láni sínu úr stofnlánadeild, þótt þeir geri ekki út skip sín í 6 mánuði, ef stöðvunin stafar af óviðráðanlegum ástæðum. Ég held þetta ákvæði sé óþarft. Þótt ekkert standi um þetta í greininni, leiðir það af hlutarins eðli, að ómöguleiki hefur í sambandi við þetta atriði nákvæmlega sömu verkanir og ella; skyldur, sem hvíla á mönnum, falla niður, þegar ómögulegt er að uppfylla þær, og um leið þau viðurlög, sem af þeim vanefndum stafa. Ég held þessi brtt. sé óþörf hjá hv. þm. Barð., og læt ég þar með útrætt um hans brtt.

Hv. 1. þm. S.-M. hefur borið fram brtt. á þskj. 846. Lýtur sú brtt. að því, að taka ákvæði um það, að lána megi út á skipasmíðastöðvar, dráttarbrautir og vélsmiðjur, út úr 3. gr., eins og það er, og færa það aftur fyrir og setja það inn á öðrum stað. Kemur þetta frá hv. þm. sem ábending eða heimildarákvæði. Ég fyrir mitt leyti segi um þessa breyt., að ég álít, að ástæða sé til að binda lánveitingar út á þessi mannvirki með nákvæmlega sama hætti og þau fyrirtæki, sem eiga að vinna úr sjávaraflanum. Það er áreiðanlega ekki síður nauðsynlegt fyrir okkur að koma upp í landinu í sem flestum stærri verstöðvum skipasmíðastöðvum, þannig að ekki sé nauðsynlegt fyrir fiskimenn að leita til annarra um viðgerðir og smíði skipa sinna. Brtt. hv. 1. þm. S.-M. finnst mér vera talsverður undansláttur í þessu efni.

Ég held það sé ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að minnast á í sambandi við þær brtt., sem hér liggja fyrir. En almennt vil ég segja það, að þótt ég og minn flokkur fylgi málinu, eru þó ýmis stórvægileg atriði í því öðruvísi en við hefðum kosið. Við teljum málið samt til mikilla bóta, eins og það liggur fyrir, og munum við fylgja því í gegnum þingið.