16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (3557)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Það er eiginlega þýðingarlítið að ræða þetta atriði, þar sem hér eru fáir aðrir en þeir, sem ræddu um þetta mál í sjútvn. En ég vil ekki, að annað sjáist í þingskjölum en að því sé mótmælt, sem hv. 9. landsk. bar hér fram í ræðu sinni. Ég vil ekki láta vera ómótmælt þeim fjarstæðum, sem hv. 9. landsk. bar hér á borð. Hann heldur því fram, að mín tilhneiging og innræti komi skýra fram í því, að ég vilji fella niður 2. málsgr. 3. gr. og að ég geti ekki unnt sjómönnum að losna við milliliði, sem taki af þeim allan gróðann. Ég hélt, að jafnglöggur maður og hv. þm. mundi ekki voga sér að halda slíku fram, vitandi það, að hann mælir gegn betri vitund. Ég hélt hann vissi það, að hann er hér ekki á pólitískum fundi til þess að kasta skít á pólitískan andstæðing, eins og hans vandi er að gera. Hv. þm. er hér til að ræða stórt mál málsins vegna, en ekki til að bera brigzl á aðra menn að ósekju.

Hv. þm. lýsti þeim einstaklingum, sem hér eiga hlut að máli, sem blóðsugum, sem hirtu allan milliliðagróðann. Ég legg til og tel, að engin ástæða sé til að gera þessum aðilum ójafnt undir höfði. Ég vil aðeins, að báðir standi jafnt að vígi, svo að þeir geti gert sér mat úr milliliðagróðanum. Það er engin ástæða til að annar aðilinn búi við allt önnur skattalög, en það er sú stefna, sem hv. þm. vill fara inn á. Hann vill fara inn á það að níða niður þessa einstaklinga og setja ýmiss konar hindranir á framkvæmdir þeirra með sköttum og öðrum álögum. En ég legg til, að þessu verði breytt. Ég álít rétt, að hver aðili hafi sama aðgang að þessari stofnun. Eins og hv. þm. viðurkenndi, hafa bankarnir ekki viljað lána slíkum stofnunum eins mikið fé og einstaklingum, vegna þess að þær hafa ekki verið byggðar upp jafn fjárhagslega sterkar. Þessir menn hafa ekki tekið á sig þá ábyrgð, sem einstaklingar hafa undir flestum kringumstæðum gert, og það er skýr ábending um það, að það er meiri hætta fyrir lánadeildina að lána til þessara stofnana en til annarra manna, sem störfuðu á öðrum grundvelli.

Ég mun svo láta útrætt um þetta. En hv. þm. hélt því fram í sambandi við 9. gr., að þetta væri aðeins heimild. Mér er ljóst, að það er aðeins heimild. En ég skil ekki, hvers vegna þessi heimild má ekki ná til hlutafélaga eins og sameignarfélaga. Þetta er heimild, sem gefin er til ákveðinna aðila, en aðrir aðilar eru útilokaðir frá að njóta þeirra kjara, sem í heimildinni felast. Ég get ekki fellt mig við þetta. Hv. þm. taldi nauðsynlegt að samræma ákvæði 9. gr. og fyrningarafskriftafrv. Ég veit ekki, hvenær það fær afgreiðslu hér. En sé eitthvað í þessu frv., sem þarf að laga til samræmingar, þá þarf að bera fram brtt. um það. En snerti þetta hitt frv., þá er það ekki til umr. hér og getur því beðið þangað til það kemur til umr. Um dráttarvextina vil ég segja það, að það væri samræmi í því, að landið og bankarnir fórnuðu stórkostlegu til þess að lána í nauðsynleg framleiðslutæki með 2½ vöxtum, en strax og ekki er hægt að standa við skuldbindingar og erfiðleikar koma, þá á ekki að bíða boðanna að ganga fast að þessum mönnum. Þetta er kannske gert til þess, að hæstaréttarmálaflutningsmenn geti haft sem beztar tekjur af því að rukka inn vexti af þeim lánum, sem ekki er staðið í skilum með. Þetta getur ekki verið af umhyggju fyrir sjómönnum. Það er af umhyggju fyrir einhverjum öðrum. Hv. þm. minntist á, að þetta væri aðeins heimild, það kann að vera, enda væri það í samræmi við allt annað, að einhver stjórnin dæmdi einstaklinga til að borga 12% vexti, en léti aðra aðila ekki borga neitt. Það er svo sem alveg í samræmi við lífsskoðun þessa hv. þm. í þessu máli. Það eru einkennileg rök, að ekki skuli mega samþ. brtt. mína við 13. gr., vegna þess að hún sé vantraust á hæstv. fjmrh. Ég get upplýst hv. 9. landsk. um það, að ég þekki svo vel samvizkusemi hæstv. ráðh., að hann mundi telja þetta ákvæði, sem er í frv., sem ábendingu, sem ætti að fara eftir. Þess vegna er það sett í l., að þannig skuli hlutirnir vera. Þess vegna vil ég láta fella þetta úr frv. Hv. þm. gat þess, að lagaákvæðið væri sett í trausti þess, að það yrði ekki framkvæmt svona. En ef það er rétt, að hann trúi ekki meira en svo á þetta og hann treysti hæstv. ráðh. því aðeins, ef hann framkvæmi þetta gagnstætt því, sem bent er á í l., hvers vegna vill hv. þm. þá ekki fella þetta burt úr frv. og samþ. mína till.? Sannleikurinn er sá, að hv. 9. landsk. vill hafa þetta svona. Ég get ekki fallizt á það, að skyldur manna falli niður, ef þeir ekki geta staðið í skilum. Það er því ekkert vit að samþ. gr. eins og hún er, því að þá geta málafærslumenn beygt þetta og togað á alla vegu og haft góðar tekjur af, og er ekki efi, að slíkt yrði notað. Þetta verður að fyrirbyggja.