18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

16. mál, fjárlög 1946

Sigurður Bjarnason:

Enda þótt nú sé fámennt, vil ég freista að gera grein fyrir einni till., sem ég er meðflm. að. Till. er á þskj. 362 og er 37. töluliður og þess efnis, að ríkissjóður greiði Jörundi Gestssyni, bónda á Hellu í Steingrímsfirði, allt að 5 þús. kr. styrk til þess að koma upp hjá sér verkstæði, sem annazt geti viðgerðir og smíði smærri báta. Jörundur hefur um langt skeið stundað smíðar og viðgerðir í byggðarlagi sínu. Hann er kunnur hagleiksmaður og jafnvígur bæði á tré og járn. Nú hefur Jörundur farið fram á, að nýbyggingarráð styddi sig við að koma upp verkstæði eins og hér um ræðir, en það hefur talið eðlilegt, að slíkur stuðningur kæmi beint frá hinu opinbera. Mín skoðun er sú, að það sé bæði eðlilegt og sjálfsagt að greiða fyrir þessum hagleiksmanni að koma upp slíku verkstæði. Það er ekki einungis í þágu hans, heldur er líka þörf fyrir slíkt verkstæði. Mönnum hefur áður verið veittur styrkur til slíkra framkvæmda, og vænti ég, að þm. taki þessari till. vel. Læt ég því útrætt um þetta mál.

Ég sé ekki ástæðu til að mæla með öðrum brtt., sem ég er meðflm. að, þar sem ég mælti svo rækilega með þeim við 2. umr., og tel ekki þörf að endurtaka það. Aðeins vil ég geta þess, að till. um björgunarskútu fyrir Vestfirði er flutt í samráði við dómsmrh., og ég vonast fastlega eftir, að hún verði samþ. Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar.