05.03.1946
Efri deild: 77. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

forseti (StgrA) :

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Hér með tilkynnist yður, herra forseti, að ég get ekki sakir annríkis gegnt þingstörfum fyrst um sinn, og óska ég eftir, að varaþingmaður Sósíalistaflokksins, hr. Ásmundur Sigurðsson, taki sæti í minn stað á meðan.

Reykjavík, 5. marz 1946.

Kristinn E. Andrésson.“

Þessi ósk Kristins Andréssonar er byggð á 144. gr. kosningalaganna, sem heimilar þingmönnum, ef þeir forfallast, að láta varaþingmann mæta í sinn stað, og verður tekin til greina. Kjörbréf Ásmundar Sigurðssonar hefur áður verið til athugunar hér á hæstv. Alþ. og viðurkennt, og hann hefur unnið sinn þingmannseið. Og sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að hann taki sæti hér í hv. þd., og býð ég hann velkominn hér í d. (BBen: Eru þetta gild forföll?) Í þessari gr. stendur: „Ef þingmaður forfallast vegna veikinda eða annars . . .“, sem bendir á, að næst veikindum komi til greina annir. (BBen: Ef maðurinn dvelur í bænum?). Það eru fordæmi fyrir því, að þm. hafi hætt þingstörfum um tíma sökum annríkis og varaþm. tekið sæti hans á meðan. (BBen: Hvenær var það?). Ég held, að það hafi verið á síðasta þingi, þegar Jón á Reynistað, hv. 2. þm. Skagf., kom ekki til þings vegna annríkis. — Ég tel þetta byggt á hinni tilvitnuðu lagagr. og sé ekki ástæðu til annars en að taka það til greina. (BBen: Ég óska formlegs úrskurðar af hendi hæstv. forseta um það, hvort þetta séu gild forföll eða ekki). Með þeim rökum, sem ég hef fært fram, og með tilvísun til 144. gr. kosningalaganna tel ég, að þessi ósk Kristins Andréssonar sé byggð á lögum og beri að taka hana til greina.