03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar hv. 7. landsk. þm. vék af þingi vegna anna, tók varamaður hans sæti hér, og gekk úrskurður um rétt hans til þess að sitja hér í þessari d. En það kom á daginn, að núverandi 7. landsk. þm. hafði nokkurn hluta af þessu þingi setið í Nd. og tekið þátt í afgr. mála og greitt atkv. í sömu málum sem nú eru að koma til afgreiðslu í þessari d. Sjáanlegt er því, að í fyrsta skipti í sögu þingsins situr einn og sami maður í báðum d. á sama þingi og greiðir atkv. um sömu mál. Nú vildi ég mega gera þá fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort hann telji þetta samkv. þingsköpum og hvort hann telji ekki ástæðu til þess að leyfa ekki 7. landsk. þm. að taka þátt í afgreiðslu a. m. k. þeirra mála, sem hann þegar hefur tekið þátt í í Nd. Það er sjáanlegt, að ef farið er inn á þessa braut hér, að leyfa einum ákveðnum manni að flytjast milli d. til þess að hafa áhrif á sömu mál í báðum d. á sama þingi, þá er farið inn á nýja stefnu, sem kann að hafa víðtæk áhrif síðar meir. Ég vildi því óska þess, að hæstv. forseti felldi um það ákveðinn úrskurð, hvort hann vildi ekki banna þátttöku þessa þm. um öll þau mál, sem hann hefur tekið þátt í að afgr. í Nd.