03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (3567)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

Forseti (StgrA) :

Út af þessari fyrirspurn hv. þm. Barð. vil ég aðeins segja það, að þegar Ásmundur Sigurðsson tók hér sæti sem varamaður Kristins Andréssonar, 7. landsk. þm., þá var kunnugt, að hinn fyrrnefndi hafði áður á þessu þingi setið í Nd. sem varaþingmaður. Og þegar hann tók sæti hér í d., felldi ég úrskurð eftir beiðni um það, að hann hefði rétt til þess að koma hér og taka sæti sem varaþm. þess þm., sem lét af þingstörfum vegna anna. Það leiðir af sjálfu sér, að um leið og viðurkenndur er réttur hans til þess að taka sæti hér í d., þá er um leið viðurkenndur réttur hans til þess að taka þátt í afgreiðslu þeirra mála, sem d. hefur til meðferðar á þeim tíma, sem hann situr hér. Ég sé því ekki ástæðu til að fella um það frekari úrskurð en ég gerði, þegar þessi þm. tók hér sæti.