03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (3570)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

Hermann Jónasson:

Mér virðist það vera tvennt, sem hér um ræðir. Fyrst er það, hvort þm., sem hér tók sæti samkv. úrskurði forseta, hafi leyfi til að taka sæti hér á Alþ., vegna þess að sá maður, sem héðan veik, er hér í bænum á þessum sama tíma, sem betur fer með ágætum starfskröftum og heilsu, og ekki er vitað, að hann hafi annað annríki en það, að hann hefur gerzt ritstjóri Þjóðviljans, og vitað er, að margir hafa á þingi setið, þó að þeir hafi jafnframt verið ritstjórar blaðs, og það athafnamiklir þm. Svo að þetta út af fyrir sig eru nokkuð vafasöm forföll. Ég veit, að það er vísað til þess fordæmis, að 2. þm. Skagf. (JS) fór af þingi í fyrra og lét varamann taka sæti í sinn stað og rökstuddi það með annríki, sem ég hygg, að hafi verið á mjög miklum rökum reist, þó að því miður hafi verið látið undir höfuð leggjast að krefjast þeirrar skýringar um það atriði, sem ég hygg, að beri að gera undir svona kringumstæðum. Það atriði er þess vegna vafasamt út af fyrir sig, hvort þessi þm. hafði leyfi til þess að fara héðan af þingi fyrir það eitt, að hann tekur við ritstjórn blaðs hér í bænum, og þess vegna er mjög vafasöm seta varamanns hans hér á Alþ. Um þetta hefur fallið úrskurður forseta, og það er tæplega vafi á því, hvort ekki er hægt að rekja það mál lengra.

Annað atriði vildi ég benda á, og það er það, að samkv. þingsköpum taka þm. sæti í ákveðinni d. fyrir allt kjörtímabilið, og það vitum við, að þessi þm. hefur tekið sæti sem varamaður fyrir þm. í Nd., og þess vegna er seta hans ákveðin þar fyrir allt kjörtímabilið. Og þar af leiðandi hygg ég, einmitt með tilvísun til þess, sem hv. þm. Barð. sagði um útkomuna á meðferð mála í höndum Alþ., ef sami maðurinn á að greiða atkv. um sömu mál í báðum d., að það beri að fylgja þessari reglu þingskapanna, að þm. taki sæti í ákveðinni d. fyrir kjörtímabilið allt. Ef varamaður á að koma í þessa d., þá geti ekki komið sá varamaður, sem hefur tekið sæti í Nd. sem varamaður þm., sem þaðan hefur horfið, því að annars verður það útkoman, sem þingsköp vilja fyrirbyggja, að komi fyrir, þ. e. a. s. það, sem hv. þm. Barð. var að benda á. Þar af leiðandi álít ég, að það sé útilokað fyrir þessa sök, að þessi þm. geti tekið þátt í afgreiðslu um þetta mál.