03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

Forseti (StgrA) :

Ég sé ekki ástæðu til að leyfa frekari umr. um þann úrskurð, sem áður er fallinn í þessu efni. En út af því, sem hv. þm. Str. sagði nú, að þegar 7. landsk. þm. (ÁS) hefði tekið sæti í Nd., þá væri það bundið við það, að hann hefði átt að sitja í sömu d. út kjörtímabilið, þá er það kunnugt, að hann tók þar sæti í forföllum annars þm. Það er tiltekið, að þegar varamaður kemur þannig inn, skuli hann sitja ekki skemur en hálfan mánuð. Því ákvæði var fullnægt. Eftir það tók aðalmaður við sæti sínu í Nd. Ásmundur Sigurðsson gat því setið áfram í þessari d. hvað sem kjörtímabilinu leið. Það er hægt að deila um þetta aftur og fram, en það er ekki vettvangur til þess að gera það hér eftir. Úrskurður hefur verið gefinn um það, að Ásmundi Sigurðssyni sé falið sæti hér í d. og að sjálfsögðu með sömu réttindum og aðrir dm.