03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

Varamaður tekur þingsæti o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Ég skal ekki blanda mér í þessar deilur að öðru leyti en því, að það er ljóst eftir 9. gr. þingskapa, að það getur vel komið fyrir og er gert ráð fyrir því, að maður færist á milli d. og verður þá að taka þátt í meðferð máls í síðari d., sem hann hefur haft afskipti af í fyrri d. Í 9. gr. þingskapa segir: „Nú losnar sæti efrideildarþingmanns og annar maður er kosinn í hans stað, og tilnefnir þá þingflokkur sá, er skipa á sætið eftir reglu 6. gr., einn mann úr sínum flokki til efri deildar.“

Það er hægt að taka einhvern af neðrideildarmönnum, það þarf ekki einu sinni að vera nýr maður, heldur einhver af neðrideildarmönnum. Þá er ljóst, ef þetta ákvæði þingskapanna fær staðizt, að það getur verið, að sá maður hafi tekið þátt í meðferð máls í Nd. áður. Það mundi rugla hlutföllum flokkanna, ef ætti að meina honum atkvæðisrétt í síðari d. um öll mál, sem hann hefur haft afskipti af í fyrri d. Ég held, hvað sem öðru líður, þá fái það ekki staðizt að svipta þm. atkvæðisrétti í þessari d. eftir því, hvort hann hefur greitt atkvæði í Nd: — Ég skal ekki blanda mér í annað varðandi þetta mál, en vildi aðeins benda á þetta atriði eitt út af fyrir sig.