25.10.1945
Neðri deild: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Má ég fyrst þakka hæstv. forseta, að hann hefur aftur tekið upp þann góða og sjálfsagða sið að skýra frá því í fundarbyrjun, hverjir hafi fjarvistarleyfi. Með þessu lætur hann ekki okkur hina, sem á þingi mætum, sakfella þá, sem fjarvistarleyfi hafa, um sams konar ábyrgðar- og áhugaleysi fyrir þingmannsstarfi sínu og hina, sem venjulega láta sig vanta hér í sali Alþingis. En benda vildi ég hæstv. forseta á það, sem ég raunar veit, að hann skilur allra manna bezt sem sagnfræðingur og skjalavörður, að til þess að síðari tími dæmi þá þingmenn ekki of hart, sem fjarvistum eru með leyfi í einstökum tilfellum, þá þarf ekki bara að tilkynna úr forsetastóli, hverjir það eru, því að það geymist ekki eftirkomendum okkar, heldur líka rita það í fundargerð hvers fundar, og vænti ég þess, að hæstv. forseti hlutist til um, að svo verði gert hér eftir.

Þá vildi ég skýra hæstv. forseta frá því, að það var nú í gærkvöld, sem ég hringdi í þriðja sinn á þessu þingi árangurslaust í símavörzluna. Ég hringdi nokkurn veginn látlaust frá kl. 8,15–8,35, þá gafst ég upp. Ég get skilið, að þegar starfsfólkið sér marga þingmenn vanrækja starf sitt, þá hætti því við að gera slíkt hið sama, en þó að þar kunni að mega finna afsökun fyrir starfsfólkið, óska ég þess, að hæstv. forseti gangi eftir því, að bæði símavarzlan og önnur afgreiðsla og þjónusta, sem hér á að veita þm., sé leyst af hendi sómasamlega.

Loks langar mig að fá upplýsingar um eitt mál. Á síðasta fundi hér í hv. d. tilkynnti hæstv. forseti úr forsetastóli: „Lagt fram í lestrarsal: Bæjarstjórinn á Seyðisfirði sendir ályktun bæjarstjórnar, þar sem skorað er á Alþingi að samþ. frv. nýbyggingarráðs um fiskveiðasjóð Íslands og um breyt. á l. um nýbyggingarráð.“ — Mér kom málið ókunnuglega fyrir, mundi ekki eftir því. Og strax og hv. 8. þm. Reykv. var byrjaður að flytja framsöguræðu sína í skólamálunum, fór ég að leita í þeim 42 málum, sem mér eins og öðrum hv. þm. hafði verið útbýtt hér í sæti mitt. Ég fann 9 bráðabirgðal. Þau voru lögð fram af hæstv. ríkisstj., og hugsazt gat, að nýbyggingarráð hefði samið þau. Það var meira að segja líklegt, að ríkisstjórn, sem vill spara, hefði látið einhverja af þeim 30 til 40 n. og þá kannske alveg eins nýbyggingarráð og einhverja aðra semja þau. En þau voru hvorki um fiskveiðasjóð né nýbyggingarráð, svo að bæjarstjórnin gat ekki átt við neitt þeirra. Og hin frv. öll eru flutt af einstökum þm. eða n. eftir ósk hæstv. ríkisstj., svo að ekki gat verið neitt þeirra, sem hér er átt við. Nú vil ég spyrja um tvennt. Það mun vera í fyrsta sinn í þingsögunni, sem skorað er á Alþ. samþ. frv., sem það ekki hefur séð, en virðist þó vera búið að útbýta utanþings. Og er rétt að leggja slíkar áskoranir fram, þó að þær berist? — Hinni spurningunni vildi ég svo beina til form. nýbyggingarráðs, hvernig það megi vera, að frv., sem virðast vera samin til að leggja fyrir Alþingi, skuli fyrst vera lögð fram hér og þar úti um land í bæjarstj. og félögum, áður en okkur, sem á Alþingi sitjum, er gefinn kostur á að sjá þau.

Mér sýnist hér vera að ræða um nýja siði eða nýja tegund af nýsköpun, og mér finnst hún ekki til bóta. Það hefur verið siður að leggja frv., sem samþ. á á Alþingi, fyrir það og ræða þau þar og þá síðar þaðan senda þau til umsagnar sérfræðinga, ef mönnum svo sýnist.