18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

16. mál, fjárlög 1946

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 363 flyt ég brtt., sem ég vil skýra með örfáum orðum. Ég skal taka fram, að nokkrum öðrum brtt., sem ég er við riðinn, hefur ekki verið útbýtt enn, og mun ég fresta þar til síðar að skýra þær.

Eins og rætt var við 2. umr., þá er svo ástatt um fjárveitingar í 13. gr. til vega í Snæfellsnessýslu, að þar er sérstakur liður, 210 þús. kr., sem er til endurgreiðslu á því, sem unnið var fram yfir fjárveitinguna á þessu ári. Þetta hefur verið reiknað með heildarframlaginu til sýslunnar með þeirri niðurstöðu, að framkvæmdir yrðu örlitlar í vegamálum sýslunnar á næsta ári, ef þessu er ekki einhvern veginn breytt. Nú flyt ég nokkrar till. um tilfærslu á þessum lið. Ég fer ekki fram á hækkun á framlagi til vega, heldur aðeins tilfærslu. Það er í því falið, að endurgreiðslan á þessari umframgreiðslu fari fram á tveimur árum, þ. e. a. s. 1946 og 1947, m. ö. o. lækka þessar greiðslur um 105 þús. kr., en verja þeim sömu upphæðum til vegaframkvæmda á næsta ári. Brtt. á þessu þskj. undir rómv. I og VI heyra saman, og vil ég undirstrika það, að þar er ekki um hækkun að ræða, heldur tilfærslu, að því er snertir einstaka vegi. Fyrst undir lið nr. I er Hnappadalsvegur og lagt til, að til hans verði veittar 20 þús. kr. Það er vegur, sem tekinn var fyrir nokkrum árum á fjárl., en féll niður nú. 2. liður, Útnesvegur, er um að veita til þess vegar 90 þús. kr., og miðar sú till. um vegagerð að því að koma Arnarstapa og Hellnum í vegasamband á næstu árum. Þá er undir þessum lið till. um, að til Hellissandsvegar, sem hefur verið afskiptur á undanförnum árum, en þar á þó í hlut fjölmennt kauptún, verði samþ. 35 þús. kr. fjárveiting. Loks er undir þessum lið till. um Fróðárhrepps- og Eyrarsveitarveg, um að fjárveiting til hans hækki um 20 þús. kr. Þetta er samtals 105 þús. kr., sem lagt er til sem hækkun undir I. lið og svo samsvarandi, sem ég legg til að lækka fjárveitingar undir VI. lið.

Þá flyt ég brtt. um fjárveitingu til brúargerðar á Langadalsá á Skógarströnd, 45 þús. kr., sem er fyrri greiðsla, og er sú till. 3. tölul. undir VI. á þessu þskj., nr. 363. Þetta er brú, sem fyrir alllöngu er komin inn á brúalög. Eftir því sem vegurinn færist þarna lengra inn á Skógarströndina, verður meir knýjandi nauðsyn fyrir að brúa þetta vatnsfall.

Undir XI eru brtt. frá mér á þessu þskj. um hafnargerðir og lendingarbætur. Sú fyrsta er um 50 þús. kr. hækkun á framlagi til Grafarness. Þar standa fyrir dyrum miklar framkvæmdir og samkv. áætlun vitamálastjóra er ætlazt til, að þar sé unnið á næsta ári fyrir 465 þús. kr., til þess að ljúka þeim mannvirkjum, sem þar hafa staðið yfir í nokkur ár, og að framlag ríkissjóðs sé 186 þús. kr. Og bersýnilega nær ekki nokkurri átt að veita einar 75 þús. kr. í þessu skyni. Ég legg til, að framlagið verði 125 þús. kr. í þessu skyni.

Í Stykkishólmi er bryggjan gersamlega ónýt. Þar er þó töluverð útgerð og tvö hraðfrystihús, sem notuð eru fyrir Breiðafjörð. Verður ekki komizt hjá því á næsta sumri að byggja þarna bryggju. Er áætlað, að hún kosti 300 þús. kr. 50 þús. kr. framlag í þessu skyni er varla hægt að taka alvarlega. Ég flyt brtt. um, að 100 þús. kr. verði veittar í þessu skyni. En það verður óhjákvæmilegt að byggja þetta mannvirki í einu lagi. Og býst ég við, að hreppurinn mundi reyna að kljúfa það að taka lán, til þess að hlutfallslegt framlag ríkisins komi á móti framlagi hreppsins til þessa mannvirkis.

Þriðji liður þessara brtt. er um framlag til lendingarbóta á Hellnum, 10 þús. kr. Þarna er útgerð nokkur, að vísu ekki í stórum stíl, en þó nokkrir bátar, og þarf smávegis aðgerðir þar, sem gerðar hafa verið áætlanir um af vitamálastjóra, til þess að bæta þarna lendingarskilyrði.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þessar brtt., en mun væntanlega síðar í kvöld taka til máls til þess að skýra þær brtt., sem ég flyt, en ekki er búið að útbýta.