20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3623)

153. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Eins og þessi þáltill. á þskj. 368 ber með sér, er lagt til, að fundum þingsins verði frestað frá deginum á morgun og eitthvað fram yfir nýár, þó þannig, að þ. verði kvatt saman eigi síðar en 1. febr. næstkomandi.

Það vakir fyrir ríkisstj. að kalla þ. saman 1. febr., nema eitthvað það komi fyrir, að æskilegra yrði talið að kalla það saman fyrr. Að öðru leyti er ætlunin að halda sér við till. — Ég sé ekki ástæðu til að fylgja till. úr hlaði með neinum sérstökum rökum, af því að þau eru öðrum hv. þm. jafnkunn sem mér, og af því að ekki tókst að ljúka þinginu fyrir jól, sem ef til vill ekki stóðu miklar vonir til, þar sem svo mörg mál hafa verið hér á döfinni, þá geri ég ráð fyrir, að það séu heppilegri vinnubrögð að fresta því nú um þennan tíma, nema eitthvað sérstakt komi fyrir, sem mæli því í gegn, og geta þá þeir hv. þm., sem sækja langt að, eitthvað sinnt þeim störfum, sem bíða þeirra heima, úr því að þ. er á annað borð frestað. — Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.