12.10.1945
Neðri deild: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (3626)

12. mál, fiskimálasjóður o.fl.

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Ég hef, ásamt hv. þm. N.-Þ., leyft mér að flytja þetta frv. Því fylgir allýtarleg grg., og get ég því verið stuttorðari en ella um efni þess.

Ég skal taka það fram, að okkur flm. virðist sem í þessu frv. séu fólgnar 4 aðalbreyt. frá því ástandi, sem nú er í þeim efnum, sem frv. fjallar um. Í fyrsta lagi, að tekjur fiskimálasjóðs mundu verða auknar mjög, ef þetta frv. yrði að 1., því að við lítum svo á, að í sjóðnum hafi verið undanfarið 800–900 þús. kr. tekjur af útflutningsgjaldi sjávarafurða, en fjárframlag af hendi ríkisstj. beint hefur fallið niður um nokkur ár. Mætti nú vel vera, að það sýndi sig, að fjárþörfin yrði meiri en þar er gert ráð fyrir. En þá er þess að gæta, að í þessu frv. er aðeins ákveðið lágmarksframlag ríkisins til sjóðsins, en hins vegar á valdi Alþ. að veita meira fé í fjárlögum, ef því sýnist þörf á því, þannig að ef þetta frv. yrði að l., ætti að vera tryggt, að tekjurnar yrðu a. m. k. fjórfaldar.

Í annan stað er svo það nýmæli, að fiskimálasjóði er heimilt að taka lán til starfsemi sinnar, vegna þess að skeð gæti, að aðkallandi væri að veita á næstunni meira fé í nýjungar í sjávarútvegi en hægt væri að láta tekjur sjóðsins standa undir, og þá finnst okkur réttmætt að heimila nokkurt lán, sem svo yrði endurgreitt síðar. Samkv. þessu ættu að vera möguleikar til þess, að sjóðurinn hefði á næstu árum 12–13 millj. kr. til ráðstöfunar, ef mönnum sýnist ástæða til að veita svo mikið fé.

Það er nú öllum hv. þm. kunnugt, að hlutverk sjóðsins hefur verið það að veita fé til alls konar nýjunga í sjávarútvegi, ekki sem lánsstofnun í raun og veru fyrir sjávarútveginn, og er ekki heldur meining okkar flm. þessa frv., að sjóðnum verði breytt í það horf, að hann verði stofnlánasjóður fyrir sjávarútveginn, heldur er það meining okkar, að hann haldi áfram sömu stefnu, en starfsemin verði aukin, þannig að sjóðurinn veiti styrktarlán eða styrki til alls konar nýjunga í sjávarútvegi og geti veitt viðbótarstyrki umfram það, sem hægt er að fá í öðrum lánsstofnunum. Jafnframt er það ætlun okkar, að sjóðurinn veiti fé til margs konar tilrauna í sambandi við sjávarútgerð, tilrauna til að koma á nýjum veiðiaðferðum, verkun fiskjar eða annarra sjávarafurða með nýjum aðferðum og til leitar nýrra markaða, svo að ég nefni 4 atriði til dæmis. Þannig hugsum við okkur, að sjóðurinn starfi áfram í sömu stefnu og verið hefur, fái meira fjármagn og geti því sinnt þessum verkefnum með miklu meiri árangri en hægt hefur verið.

Þá kem ég að öðru nýmæli en auknu fjármagni, sem í frv. felst. Það er mörgum mönnum ljóst, að til vandræða horfir í mörgum sjávarplássum vegna þess, að bátarnir, sem menn hafa stundað veiðar á, eru of litlir, og er óhugsandi að fá á þá það aflamagn, að þeir, sem á þeim vinna, hafi neitt til móts við þá, sem vinna að öðrum störfum. Af þessu hefur leitt, að þessi útgerð er að leggjast niður með öllu í sumum plássum. Gæti orðið einhver breyt. á þessu, ef verðbólgan minnkaði í landinu, og kjör þessara manna batnað, en þó mundi það nú ekki verða fullnægjandi. Hér þarf líka að koma annað til. Í mörgum þessum plássum virðist hægt að koma upp nýjum bátastöðvum. Þetta eru nú allir sammála um. En þá reka menn sig á þann vanda, hvað það er dýrt að komast yfir þessa stóru báta. Þeir, sem sjó stunda á smærri bátum, hafa ekki getað safnað fé til að leggja í nýja útgerð, og þannig stendur þetta allt fast. Litlu bátunum er lagt á land, og menn hafa ekki fjármagn til að koma upp stærri bátum. Þar, sem þannig er ástatt, fullnægja ekki venjulegar stofnlánaveitingar, og er þá ekki nema um tvennt að ræða, annaðhvort að endurnýjun bátaflotans á þessum stöðum falli algerlega niður og þar með útgerðin eða sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að styðja að öflun nýrra tækja, þar sem þannig er ástatt, umfram það, sem almennt er í boði af lánsfé í þessu skyni. Fæ ég ekki séð, að það verði gert á heppilegri hátt en lagt er til í þessu frv. Við höfum gert ráð fyrir, að félagsmenn í Fiskifélagi Íslands verði látnir gefa álit um það, hvaða staðir, sem svona er ástatt á, séu valdir til útgerðar framvegis og veitt fé til viðreisnar, sérstaklega að ekki séu valdir aðrir staðir en þeir, sem taldir eru hafa góð útgerðarskilyrði.

Þetta er, sem sagt, annað nýmæli frv. sem ég vildi sérstaklega undirstrika.

Þriðja nýmælið er það. að fiskimálanefnd verði lögð niður, en Fiskifélag Íslands falin að miklu leyti forusta sjávarútvegsmálanna, sem fiskimálanefnd er ætluð. Fiskimálanefnd hefur unnið mikið og gott starf, og ætla ég ekki að fara að rekja það hér. En frá því að fiskimálanefnd var sett á fót hafa ýmsar breytingar orðið, t. d. þær, að Fiskifélag Íslands hefur eflzt verulega frá því, sem áður var, bæði vegna þess að félagið hefur verið endurskipulagt, og eins fyrir stórum meiri fjárstuðning frá ríkinu en þá var veittur. Nú er það skoðun flm., að þegar þessar breytingar eru á orðnar, væri skynsamlegt að leggja talsverða ábyrgð á Fiskifélag Íslands, og það er okkar trú, að því mundi vaxa ásmegin við það, að á það yrði lögð meiri ábyrgð, og einnig mundi koma fjörkippur í þessi mál. Um þetta geta menn haft mismunandi skoðanir, en þetta er, sem sagt, skoðun okkar flm., og leggjum við því til, að Fiskifélagi Íslands verði falin þessi forusta, sem fiskimálanefnd hafði áður. Það er ekki meining okkar að fela Fiskifélagi Íslands upp á eindæmi að úthluta þessum milljónum, sem veittar eru. Það er ekki viðeigandi, að slík stofnun hafi vald til að ganga endanlega frá þeim málum, enda var það vald ekki áður í höndum fiskimálanefndar, heldur í höndum ráðh. Gert er ráð fyrir, að stjórn fiskimálasjóðs, sem kosin er hlutfallskosningu í sameinuðu Alþ., veiti úr sjóðnum eftir að hafa fengið áður till. frá Fiskifélagi Íslands, eins og ráðh. fékk áður till. frá fiskimálanefnd.

Fjórða nýmælið, sem frv. gerir ráð fyrir, er, að lagt er til, að félögum útvegs- og fiskimanna, sem byggð eru á sama grundvelli og félög um fiskiðnað og aðra starfsemi í þágu sjávarútvegsins, verði úthlutað eftir viðskiptaveltu sinni og hafi forgangsrétt til stuðnings úr sjóðnum. Sé slíkt félag ekki til á þeim stað, sem sótt er um stuðning frá, þá er stjórn Fiskifélagsins falið að athuga, hvort jarðvegur sé fyrir hendi um stofnun slíks félags, og sé svo ekki, þá kemur að sjálfsögðu röðin að þeim einstaklingum, sem kynnu að vilja leggja í þennan atvinnurekstur. Ég geri mér vonir um, að samkomulag verði um þessa stefnu. Það er ekki meiningin að útiloka einstaklinga frá því að reka fiskiðnað, heldur skulu fiskimenn og útvegsmenn aðeins sitja fyrir, ef þeir vilja reka fiskiðnaðinn á sína ábyrgð. Það er stefna okkar flm. Vona ég, að menn geti orðið sammála um þá meginstefnu. Ég álít, að æskilegt sé, að fiskiðnaðurinn sé rekinn í þágu útgerðarinnar, alveg eins og landbúnaðariðnaðurinn er yfirleitt rekinn í þágu landbúnaðarins, mjólkuriðnaðurinn og kjötiðnaðurinn. Það er þetta, sem lagt er til grundvallar í frv.

Ég ætla svo ekki að breyta hv. þm. með málalengingum um þetta mál, en legg til, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr.