19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (3630)

12. mál, fiskimálasjóður o.fl.

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Eins og nál. meiri hl. sjútvn. á þskj. 410 ber með sér, hefur sjútvn. ekki getað orðið ásátt um afgreiðslu þessa máls. Það frv., sem hér er um að ræða, hefur, legið fyrir sjútvn. alllengi, og dráttur á afgreiðslu málsins af hálfu n. hefur sumpart stafað af því, að fyrir n. hafa einnig legið önnur mjög stór og víðtæk frv., sem farið hafa mikið í sömu átt og þetta, og leiddi það af sér það, að þetta mál hlaut að fylgja afgreiðslu þeirra nokkuð, auk þess sem þinginu var frestað um alllangan tíma eftir að frv. kom til nefndarinnar.

Meiri hl. sjútvn., 4 þm., leggur til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, með þeim röksemdum, sem fram koma á þskj. 410. En í stuttu máli liggur þetta mál þannig fyrir, að þetta frv. fer í fyrsta lagi fram á, að breytt verði gildandi l. um fiskimálasjóð og fiskimálanefnd, þannig að fiskimálanefnd verði raunverulega lögð niður og störf hennar verði flutt yfir til stjórnar Fiskifélags Íslands. Í öðru lagi fer þetta frv. fram á það, að það vald, sem ráðh. hefur nú yfir fiskimálasjóði ásamt fiskimálanefnd til ráðstöfunar á þessum sjóði, sé tekið úr höndum ráðh. og fært yfir í hendur sérstakrar 3 manna þingkjörinnar nefndar. Og í þriðja lagi leggur þetta frv. til, að fiskimálasjóður sé efldur, þannig að lagt sé í hann af ríkisins hálfu ekki minna en 2½ millj. kr. á ári á næstu 10 árum.

Meginástæðan til þess, að meiri hl. sjútvn. getur ekki fallizt á að mæla með því, að frv. þetta verði samþ., er sú, að fyrir þessari hv. d. liggja frv. um mjög stórfelldar breyt. á fiskveiðasjóði Íslands, þar sem gert er ráð fyrir því,. að lánveitingar úr fiskveiðasjóði Íslands til sjávarútvegsins yfirleitt verði bættar mjög verulega frá því, sem þær hafa verið. Bæði er þar gert ráð fyrir, að lánin verði hækkuð og einnig að vextir og lánakjör verði hagstæðari en áður hefur verið. Það hefur verið svo að undanförnu, að fiskimálasjóði hefur verið ráðstafað að langmestu leyti til viðbótarlána í þágu sjávarútvegsins, og þá sérstaklega til þess að koma upp hraðfrystihúsum. Lán þau, sem almennar lánsstofnanir í landinu hafa veitt til þess að koma upp hraðfrystihúsum, hafa verið það lág, að það hefur þurft á því að halda, að til væri sjóður eins og fiskimálasjóður, sem veitti viðbótarlán með hagstæðum kjörum, til þess að koma þessum framkvæmdum fram. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því með þeim stórfelldu breyt., sem á að gera á fiskveiðasjóði Íslands, að hann komi til með að lána með hagstæðari kjörum en verið hefur til frystihúsabygginga, eins og almennar lánsstofnanir hafa haft með höndum fram að þessu, og einnig lán í stað viðbótarlána þeirra, sem fiskimálasjóður hefur veitt. Það er því álit margra, að starfsemi fiskimálasjóðs muni við eflingu fiskveiðasjóðs Íslands breytast mikið frá því, sem verið hefur, og að hægt verði að einbeita fiskimálasjóði til að standa fyrir ýmsum tilraunum í þágu sjávarútvegsins, bæði um veiðitækni og eins í sambandi við vinnslu úr sjávarafla. Það er því ábyggilega minni ástæða til þess að fara að leggja fram stórar fjárfúlgur til þess að efla fiskimálasjóð, þegar þannig standa málin með eflingu fiskveiðasjóðs Íslands eins og nú er, heldur en ef viðhorfið um starfsemi fiskimálasjóðs væri eins og á undanförnum árum.

Nú er það samt sem áður ekki svo að skilja, að við þessir 4 í meiri hl. sjútvn. í þessu máli mælum gegn því eða séum á móti því, að fiskimálasjóður sé efldur, ef ríkið treystir sér til að leggja fram verulegt fé í því skyni. En sérstaklega eru það breyt., sem gert er ráð fyrir í frv. á yfirstjórn sjóðsins og starfstilhögun hans, sem við í meiri hl. n. getum ekki fallizt á, að gerðar séu í samræmi við þetta frv. Við teljum ekki ástæðu til þess, að meðan miðað er að eflingu fiskveiðasjóðs, þá verði því hraðað á þessu þingi að samþ. lög um breyt. á uppbyggingu fiskimálasjóðs, og álítum, að það geti beðið eftir næsta þingi. — Nú hefur komið fram, að hæstv. atvmrh. hefur lýst yfir, að hann hugsi sér að láta fram fara, fyrir beiðni Fiskifélagsins og útvegsmanna, sérstaka athugun á því, hvernig bezt verði fyrir komið starfi og stjórn fiskimálanefndar og fiskimálasjóðs á næstunni, með sérstöku tilliti til þess, að fiskveiðasjóður Íslands er efldur svo mjög sem ætlazt er til að verði, og þegar lánastarfsemi færist yfir til fiskveiðasjóðs, en fiskimálasjóði verður ráðstafað meira í tilraunaskyni. Og okkur í meiri hl. sjútvn. þykir ekki, meðan svo stendur, ástæða til að gera svo víðtækar breyt. á l. um fiskimálasjóð og fiskimálanefnd og farið er fram á í þessu frv., meðan sú athugun liggur ekki fyrir. — Meiri hl. sjútvn. leggur því til, að þetta mál verði afgr. á þessu þingi með rökst. dagskrá, þar sem sérstaklega er vísað til þess, að þar sem þessi athugun eigi fram að fara um það hvernig starfsemi fiskimálasjóðs og fiskimálanefndar verði bezt fyrir komið og þar sem fyrirhugað er, að fiskveiðasjóður Íslands muni nú yfirtaka lánastarfsemi, sem fiskimálasjóður hefur haft með höndum, þá sé ekki rétt á þessu þingi að breyta 1. um fiskimálasjóð og fiskimálanefnd.

Ég vildi að endingu undirstrika það, að það er ábyggilega mjög vafasamt, að það standi til bóta með slíkan sjóð eins og fiskirnálasjóð að taka það vald af ráðh., sem hann hefur haft yfir sjóðnum, og fela það einni nefndinni enn til þess að ráða yfir því endanlega, hvernig þeim sjóði verði varið. Ég fyrir mitt leyti álít það miklu eðlilegra fyrirkomulag um nefnd eins og fiskimálanefnd, að hún hafi, eins og á undanförnum árum hefur verið, tillögurétt og ráðgefandi vald um það, hvernig varið verði fé sjóðsins á hverjum tíma, en ráðh. beri endanlega ábyrgð á því, hvernig þessum sjóði verði varið á hverjum tíma.

Það kom í ljós við meðferð málsins í n., að einn háttv, nefndarmanna, aðalflm. frv., 2. þm, S.-M., leggur til, að frv. verði samþykkt.