19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (3631)

12. mál, fiskimálasjóður o.fl.

Frsm. minni hl. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur klofnað um þetta mál, eins og hv. frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir. Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir till. minni hl. n., en þær eru í stuttu máli þannig, að frv. verði samþ., með einni breyt. þó, sem till. er um á þskj. 235. Þessi breyt. er sú, að í staðinn fyrir, að hámark lánveitinga úr fiskimálasjóði samkv, frv. er ráðgerð 200 þús. kr., er í brtt. gert ráð fyrir, að lána megi allt að 300 þús. kr. sem hámarksupphæð lána úr fiskimálasjóði. Það þykir nauðsyn á að gera þessa breyt., miðað við það, hversu ástatt er um þessi mál, og eftir nánari athugun, sem fram hefur farið um frv. um þetta efni sérstaklega, síðan frv. var lagt fram.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um aðalatriði frv., sem eru fjögur, og minnast á þær ástæður, sem komu fram af hálfu meiri hl. sjútvn., sem leggur til, að málinu verði vísað frá.

Fyrsta aðalatriði frv. er það, að tekjur fiskimálasjóðs verði auknar stórlega af ríkisfé frá því, sem verið hefur, þ. e., að framlag til hans verði á hverju ári um 2½ millj. kr. í 10 ár, og enn fremur að heimila sjóðnum lántöku allt að 10 millj. kr. Það er mitt álit, að það sé nauðsynlegt að efla fiskimálasjóð mjög verulega frá því, sem verið hefur. Mér sýnist það augljóst, að framundan séu óleyst mörg mjög fjárfrek verkefni fyrir sjávarútveginn og að ríkið geti ekki komizt hjá því að leggja fram verulegt fé til margra þeirra. Í grg. frv. er minnzt á nokkur þessara verkefna, og var einnig gert við 1. umr. málsins. En ég get stiklað þar á stóru, að það er náttúrlega fyrst og fremst að styðja með lánum margs konar nýjar framkvæmdir, sem nánar eru upp taldar í grg., bæði varðandi iðnað í sambandi við sjávarútveginn og til skipakaupa, og skal ég koma að því síðar. En auk þessara verkefna, sem eru almenns eðlis, þá eru fyrir hendi sérstök verkefni, svo sem að leggja fram fé til þess að leita að nýjum fiskimiðum og leitast fyrir um nýjar veiðiaðferðir, og í því efni standa fyrir dyrum stórkostleg verkefni, sem hljóta að kosta mikið fé. Enn eru menn ekki komnir lengra en svo, að það má telja, að menn geti ekki veitt þorsk nema með því að halda sig við botn, og ekki síld nema með því að halda sig við yfirborð sjávarins. En ég nefni þessar tvær fisktegundir, af því að þær eru undirstaða sjávarútvegsins hjá okkur. En við þetta getur ekki staðið til lengdar. Það verður að reyna að finna nýjar leiðir við veiðarnar, til þess að veiða síld, þó að hún sé ekki á yfirborðinu, og þorsk, þó að hann haldi sig ekki við botninn. Ég skal ekki fara út í að ræða þetta atriði nánar, en bendi á þetta sem eitt af þeim stórkostlegu og fjárfreku verkefnum, sem framundan eru í sambandi við sjávarútvegsmál okkar. Og svona mætti lengi telja nauðsynjamál, sem framkvæma þarf fyrir sjávarútveginn og þá einnig að styðja. Mér sýnist eðlilegt og rétt, að það fjármagn, sem ríkið vill leggja til þessara og þvílíkra framkvæmda, sé lagt í einn sjóð, og þá finnst mér fiskimálasjóður vera til þess fallinn að taka við því fyrir hönd sjávarútvegsins, og síðan sé varið fé úr þeim sjóði í samráði við Fiskifélag Íslands. — Hv. meðnm. mínir í sjútvn. segjast vera að vísu fylgjandi því, að fiskimálasjóður sé efldur. En þó leggja þeir til, að þessu máli verði vísað frá og hafa ekki lagt fram annars staðar tillögur um, að fiskimálasjóður sé efldur og þá kannske minna en hér er lagt til í þessu frv. En ég vænti þá, að frá þeim komi þær till. fram síðar, ef þeir fá því ráðið í þessu máli, að frv. þessu verði vísað frá.

Meiri hl. sjútvn. hefur látið þess getið og hv. frsm. meiri hl. n. lagði á það nokkra áherzlu, að minni ástæða væri til þess að efla fiskimálasjóð af því, að fiskveiðasjóður Íslands yrði nú væntanlega mjög efldur og honum yrði ætlað að lána meira til bátakaupa og fiskiðnfyrirtækja en áður hefur verið. Mér var nú nokkuð kunnugt um þessa fyrirhuguðu eflingu fiskveiðasjóðs áður en ég lagði þetta frv. fram, og hafði gert mér í hugarlund, að eitthvað í þá stefnu gengi fram á þinginu, að fiskveiðasjóður Íslands yrði efldur. Ég hef þess vegna ekki breytt afstöðu minni til þessa frv., þó að ég þykist sjá fram á, að fiskveiðasjóður verði efldur allverulega á þessu þingi, og er það af þeim ástæðum, hversu mörg og stórkostleg verkefni liggja fram undan, sem verja verður fé af hálfu þess opinbera til þess að styðja, og það eins, þótt fiskveiðasjóður verði látinn lána meira út á hvert skip og hvert iðnfyrirtæki en áður hefur verið. Því að þess ber vel að gæta og hafa í huga, að þó að fiskveiðasjóði verði heimilað að lána nokkru meira á hvert skip og bát og iðnfyrirtæki, þá hefur það á síðustu missirum kostað meira fé að koma slíkum iðnfyrirtækjum á föt og eignast hvern bát og skip. Og ég leyfi mér að efast um, jafnvel þó að fiskveiðasjóður verði efldur, eins og til stendur, að hann verði nægilegur til þess að leysa það mál á mörgum stöðum og í margvíslegum ástæðum. Það er svo stórkostlegt vandamál vegna verðbólgunnar, hvernig á að koma upp iðnfyrirtækjum og kaupa báta og skip, að ég leyfi mér að efast um, að fiskveiðasjóður geti leyst það, þó að svo djarflega verði siglt um útlán sjóðsins eins og fyrirhugað er. En ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að það væri rétt að skipta stuðningi við sjávarútveginn þannig að hafa hann tvenns konar, annars vegar hagkvæm stofnlán, sem Fiskveiðasjóður hafi með höndum, og væri þar ekki gengið lengra en frá almennu fjárhagssjónarmiði talizt gæti nokkurn veginn tryggt, en ef þannig væru ástæður einhvers staðar á landinu, að það þyrfti að ganga lengra en þetta í lánastarfsemi til fyrirtækja sjávarútvegsins, þá yrði það gert með sérstökum stuðningi úr einhverjum sjóði, sem starfaði sjálfstætt, og í því sambandi hef ég alltaf haft í huga fiskimálasjóð. Og þetta er ein af ástæðunum fyrir því, að ég hef lagt til, að fiskimálasjóður yrði efldur. Ég álít, að það sé skynsamlegt að grauta ekki saman almennum stofnlánaveitingum annars vegar og svo styrktarstarfsemi hins vegar, sem sjálfsagt verður ekki hægt að komast hjá í þessu sambandi í mörgum tilfellum.

Ég sem minni hl. sjútvn. legg því til, að þetta verði samþ. engu síður fyrir það, þó að fiskveiðasjóðsfrv. yrði samþ. í einhverri mynd, enda veit enginn í dag, hvernig frá því frv. verður gengið, og því ekki hægt að taka afstöðu til þess.

Þá er annað aðalatriði málsins að leggja til, að fiskimálanefnd verði lögð niður í því formi, sem hún nú er, og Fiskifélagi Íslands ætlað að mestu það hlutverk í sjávarútvegsmálum, sem þeirri nefnd hefur verið falið, og taka af ráðh. það vald, sem hann hefur til þess að veita fé úr fiskimálasjóði, en flytja það vald í hendur þriggja þingkjörinna manna. Þetta er önnur aðalbreyt., og skal ekki farið langt út í það. Er eðlilegt, eins og nú er komið málum, að Fiskifélaginu verði falið að hafa forustu um þessi þýðingarmiklu mál, sem framundan eru varðandi sjávarútveginn, og að því sé sýnt það traust að leggja því þessar skyldur á herðar. Ég hef þá trú, að við það að fá slíka forustu í hendur mundi félagið eflast og þetta verða til góðs, að þessu verði þannig skipað, heldur en ef málið verður áfram í höndum ríkiskjörinnar n. eins og fiskimálanefndar. Ég skal taka það fram, að fiskimálanefnd hefur á margvíslegan hátt unnið gott starf, einkum áður fyrr, en síðan hefur margt breytzt, og nú finnst mér eðlilegast, að sú verði þróunin, að Fiskifélagið láti þetta mál meira til sín taka en verið hefur. Ég tel heldur ekki gott skipulag, að neinn ráðh. geti ákveðið milljóna fjárveitingar úr fiskimálasjóði, eins og verið hefur, heldur sé heppilegra, að þar komi fleiri manna ráð til og sett séu í frv. ákvæði um stjórn sjóðsins, er kosin skuli af Alþ. Ég hirði ekki um að færa fyrir þessu frekari rök, en finnst óeðlilegt, að í hendur eins manns sé lagt svo mikið fjárveitingarvald eins og að ráðstafa fé fiskimálasjóðs, sérstaklega eins og það yrði eftir að fiskimálasjóður yrði efldur svo mjög. Það væri þó dálítið annað mál, ef einn ráðh. fengi að ráðstafa fé sjóðsins eins og það er nú.

Þá er það þriðja atriðið, að í þessu frv. er það nýmæli, að félögum útvegsmanna og fiskimanna er ætlaður forgangsréttur að þeim stuðningi, sem fiskimálasjóður veitir til iðnrekstrar og nýjunga í sjávarútvegi. Þetta tel ég afar þýðingarmikið atriði og tel reynsluna hafa sýnt, að það sé mikil nauðsyn að koma þessu í lögin. Öllum er ljóst, að heppilegast væri, að iðnaður í þágu sjávarútvegsins sé rekinn af félögum útvegsmanna og fiskimanna, því að með því móti verður það bezt tryggt, að fiskiðnaðurinn sé beinlínis rekinn í þágu sjávarútvegsins, en slíku hefur ekki verið til að dreifa nema að mjög litlu leyti, og löggjafarvaldið og hið opinbera hefur í raun og veru ekki skipt sér neitt af þessu eða gert neitt verulegt til þess að breyta þessari stefnu. En ég tel, að þetta sé mjög hættuleg þróun, og svo gæti farið, að þeir, sem hafa með höndum fiskiðnaðinn, hefðu möguleika til þess að skammta sjávarútveginum úr hnefa fiskverðið, og þar mundu skapast hagsmunamótsetningar, sem yrði hættulegt fyrir sjávarútveginn. Af þessari ástæðu viljum við stuðla að því, að fiskimenn eigi þessi fyrirtæki og reki þau í sína þjónustu. Hins vegar legg ég ekki til, að einstaklingar séu útilokaðir frá þessum stuðningi, en bara að hinir sitji fyrir, ef þeir vilja hafa þessa starfsemi með höndum sjálfir.

Þá er það fjórða nýmælið í þessu frv., að fiskimálasjóði er ætlað að styðja sérstaklega bátakaup eða bátasmíði á þeim útgerðarstöðum í landinu, þar sem tilfinnanleg vöntun er báta, en lítið fjármagn fyrir hendi til framkvæmda. Ég tel, að þetta ákvæði sé mjög þýðingarmikið. Þeir, sem orðið hafa að stunda sjó á smáfleytum og ekki hafa getað safnað neinu fjármagni að ráði, hafa margir hverjir mikinn áhuga á því að eiga ekki lengur afkomu sína undir þessum smábátum og afla sér stærri báta, en þá koma fjárhagsörðugleikar til sögunnar. Nú er raunar ráðgert, eins og hv. 6. landsk. gat um, að lána meira en gert hefur verið úr fiskveiðasjóði út á hverja fleytu. Þó eru þær ráðagerðir ekki verulega frábrugðnar því, sem verið hefur um báta. En við skulum segja, að það verði nokkuð meira, sem lánað verður úr fiskveiðasjóði. Þá stöndum við frammi fyrir þeim sannleika, að þó að lánað verði þetta mikið fé, þá stendur samt sem áður allt fast, vegna þess að í þessum plássum, þar sem svona hefur verið ástatt að undanförnu, er ekki hægt að drífa upp það fjármagn, sem leggja þarf á móti framlagi annars staðar að. Hvað á þá að gera? Annaðhvort er að láta alla útgerð á þessum stöðum falla niður eða gera sérstakar ráðstafanir til þess að styðja að öflun nýrra tækja og hjálpa þannig þessum stöðum, sem verst eru staddir, yfir erfiðasta hjallann. Þetta er vandamál og máske hættuleg braut, sem lagt er til að fara hér inn á. En ég held nú, eins og málum er komið, að ekki sé um annað að gera en bregða nú við og létta á þennan hátt undir með þessum stöðum og hjálpa þeim þannig yfir örðugasta hjallann.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr., en taldi rétt að færa fram þessar ástæður fyrir málinu og þá sérstaklega vegna þess, að háttv. meiri hl. hefur fært fram sínar ástæður fyrir því að vísa málinu frá, sem mér sýnist þannig vaxnar, að ekki sé hægt að taka þær til greina, og legg ég því til, að þessi rökstudda dagskrá verði felld, en frv. samþykkt.