17.10.1945
Neðri deild: 9. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (3637)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Í þáltill., sem ég flyt í sameinuðu þingi um friðun Faxaflóa, er rakin saga þess máls, hverjar tilraunir hafa verið gerðar af hálfu Íslendinga á síðustu áratugum til þess að fá landhelgina rýmkaða frá því, sem ákveðið er í samningi þeim, sem Danir gerðu um aldamótin við Stóra Bretland, jafnframt því, sem rakin er saga þeirra tilrauna og rannsókna, sem nú um hríð hafa staðið yfir í sambandi við kröfu okkar um friðun Faxaflóa.

Áður en stríðið hófst, var rannsóknum þessum allvel á veg komið. Að vísu var ekki lokið öllum rannsóknum, sem fyrirhugaðar voru, en þó var þá þegar sýnt, að friðun flóans fyrir dragnóta- og botnvörpuveiðum væri nauðsynleg til verndar fiskistofninum við strendur landsins. Höfðu þessar rannsóknir þá opnað augu fræðimanna á þessu sviði víða um heim fyrir nauðsyn þess, að friðun flóans kæmist í framkvæmd. Vera má, að rannsóknum þessum verði að halda áfram, áður en endanlega verður frá þessu gengið, enda mun það efalaust gert verða svo fljótt sem föng eru á.

Íslendingar hafa að þessu leyti innt af hendi það sem hægt hefur verið að gera af þeirra hálfu til að greiða fyrir framgangi málsins. Hins vegar hafa þeir ekki til fulls sýnt í verkinu, að hér fylgi hugur máli, þar sem ennþá hefur ekki verið látin niður falla af þeirra hálfu dragnótaveiði og botnvörpu í flóanum. Þvert á móti hafa þessar veiðar aukizt stórlega hin síðustu ár. Hefðu Íslendingar látið niður falla slíkar veiðar í flóanum á stríðsárunum, hefði flóinn verið friðaður fyrir botnvörpuveiðum þessi ár, þar sem slíkar veiðar af hálfu útlendinga hafa engar verið að heita má hér við land á þessum tíma.

Það kom berlega fram við lok síðasta stríðs, hver áhrif slík friðun sem hér um ræðir hefur. Þau stríðsár var engin dragnóta- eða botnvörpuveiði í flóanum, en árin næstu á eftir var uppgripaafli bæði á grunn- og djúpmiðum. Segja má, að ástandið bæði stríðstímabilin hafi verið svipað að því er viðkemur veiði erlendra togara, en sá er munurinn, að hin fyrri stríðsár var engin dragnótaveiði í flóanum, þar sem hún hefur verið mikil öll árin síðara stríðstímabilið, enda hafa nú engin fiskihlaup komið í flóann. Nú er hér aðeins um að ræða seiglingsveiði af og til, en langir tímar aflalausir. Þetta sýnir glögglega áhrif þessara veiða á fiskigöngurnar og fiskimagnið hér í flóanum.

Það er nú löngu viðurkennt af fræðimönnum, að Faxaflóinn sé hin bezta klakstöð nytjafiska hér við land. Hafa rannsóknirnar, eins og að framan greinir, varpað skíru ljósi á þetta. Í þessu sambandi er rétt að hugleiða, hvílík ógrynni ungviðis það er, sem veiðist og tortímist hér árlega, gætir þess þó minna í botnvörpu en dragnót, þar sem þar eru stærri möskvar. Það er algengt, þótt ekkert hafi fengizt af nytjafiski, að einatt hafa komið fullar vörpur af ungviði, sem er með öllu gagnslaust og mokað er dauðu út af þilfarinu. Hér er um alvörumál að ræða, sem Alþingi hlýtur að láta sig varða, og nú gefst okkur tilvalið tækifæri að sýna alvöru okkar í málinu með því að banna íslenzkum ríkisborgurum alla dragnóta- og botnvörpuveiði í flóanum, en það þýðir friðun flóans, meðan svo er ástatt sem nú er. Segja má, að við getum ekki upp á eindæmi ráðið um afdrif þessa máls að svo komnu, en samt er víst, að við gætum flýtt fyrir endanlegri niðurstöðu með slíkri ráðstöfun sem hér er lagt til, þannig að alþjóðasamþykki fáist fyrir friðun Faxaflóa fyrr en ella.

Ég átti tal við Árna Friðriksson fiskifræðing um þetta mál, áður en hann fór á alþjóðafiskiþingið. Sagði hann, að betur hefði verið búið í haginn fyrir sig, ef frv. það, sem ég flutti á þinginu 1943 um sama efni, hefði þá verið samþ. Hins vegar leit hann svo á, að bót í máli væri að samþykkja þetta nú, það væri af okkar hendi þýðingarmikil áherzla fyrir framgangi friðunarinnar. Ég vil þess vegna vænta þess, að þar sem hér er um að ræða svo stórfellt hagsmunamál fyrir Íslendinga, og það því fremur, sem nú virðist mikill áhugi fyrir að nota fjárhagsaðstöðuna til að efla fiskveiðarnar, að þá nái mál þetta fram að ganga. Það orkar ekki tvímælis, að með friðun Faxaflóa er stórt og þýðingarmikið spor stigið í verndun fiskistofnsins hér við land, þó að full nauðsyn beri til að þar verði áður en langt um líður frekar að gert. Ég verð að bera það traust til Alþingis, að það sýni þá fyrirhyggju að jafnframt og það samþ. þáltill. þá, sem ég flyt í Sþ. um friðun Faxaflóa, þá verði og þetta frv. samþ. Ég vil svo mælast til, að málinu verði vísað til hv. sjútvn., og vænti ég, að hún greiði götu þess, þannig að það geti gengið fljótt í gegnum deildina.