15.02.1946
Neðri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (3640)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 13 fer fram á það að banna íslenzkum ríkisborgurum botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa innan línu, sem hugsast dregin milli yztu táar Öndverðaness og yztu táar Reykjaness. Sjútvn. fékk á sínum tíma málið til meðferðar.

Eins og segir á þskj. 364, kvaddi nefndin sér til ráðuneytis ýmsar stofnanir, sem taldar voru líklegar til að geta ráðlagt eitthvað nytsamlegt. Þessar stofnanir eru:

1. Atvinnudeild háskólans, fiskideild. 2. Stjórn Fiskifélags Íslands. 3. Landssamband ísl. útvegsmanna. 4. Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda. 5. Fjórðungsþing fiskideilda Sunnlendingafjórðungs.

Umsagnir um frv. reyndust á ýmsa vegu, að vísu fleiri í þá átt að taka undir þá kröfu frv. að banna Íslendingum veiði á fyrrgreindan hátt í Faxaflóa. En hin skoðunin, er fram hefur komið, er öllu betur rökstudd að áliti nefndarinnar.

Varhugavert er að banna veiðarnar, úr því að slíkt bann nær ekki til annarra en Íslendinga. Nefndin er ekki eins sannfærð og hv. flm. um, að ráðstöfun sú, sem hann vill láta gera, hefði afgerandi áhrif á erlendar þjóðir. Það er ekki réttlætandi að stíga svo stórt spor. N. er vitanlega áhugamál, að Faxaflói verði friðaður, en líka fyrir veiðum útlendinga. N. hefur því fallizt á að leggja til við hv. deild, að málið verði afgr. með svo hljóðandi rökst. dagskrá, sbr. þskj. 364, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin telur ekki fært að lögbanna landsmönnum veiði með dragnót og botnvörpu í Faxaflóa, fyrr en slíkt bann nær einnig til útlendinga, og í trausti þess, að ríkisstjórnin vinni að því að koma á slíkri allsherjarfriðun flóans, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það gefur auga leið, að útlendingum mundi verða gefinn kostur á að hagnýta sér miðin á Faxaflóa á kostnað íslenzkra hagsmuna, ef Íslendingum einum yrði bannað að veiða þar með dragnót og botnvörpu.

Hagsmunaskerðingin kæmi reyndar fram á tvennan hátt: 1) Þeirri eyðileggingu, sem menn vildu reyna að forðast með friðun Faxaflóa, yrði ekki afstýrt, og 2) Hagsmunaskerðingin birtist einnig í annarri mynd. Hún kæmi niður á þeim, sem nú stunda veiðar um þessi mið.

Í ýtarlegu skjali Árna Friðrikssonar fiskifræðings minnist hann þess, að í septembermán.1939 hefði hann gert tillögu um það til ríkisstj., að Faxaflói yrði friðaður. M. ö. o. gert svipaða kröfu og nú er gerð af hv. flm. Um leið og hann getur þess, að ráðinu hafi ekki verið fylgt, og harmar það, þá bendir hann á, að viðhorfið sé gerbreytt, og telur ekki vera við árangri að búast án samþykkis útlendra þjóða, jafnvel þótt Íslendingar sjálfir neiti sér um veiðar með dragnót og botnvörpu. Árni bendir á, að í ófriðarbyrjun hefðu aðrar þjóðir ekki haft aðstöðu til að hagnýta sér veiðarnar af styrjaldarástæðum. En nú sé viðhorfið hins vegar breytt. Nú búi Evrópuþjóðir sig undir það að stunda veiðar í Norðurhöfum. Þá nefnir fiskifræðingurinn að á árunum 1927–'37 áttu Íslendingar aðeins fjórða hvern togara, sem var að veiðum í Faxaflóa, en árið 1938 var níundi hver togari íslenzkur. Hlutfallið hafði þannig breytzt frá því að vera 3 af hverjum 4 skipum, en 1938 komið upp í að vera 8 af 9, þ. e. 8 útlend og 1 íslenzkt. Ásókn útlendinga hefur þannig farið stórum vaxandi. Árni bendir á, að í svipað horf muni sækja.

Svo bendir fiskifræðingurinn og á, að hagnaðurinn af því að banna íslenzkum skipum að veiða með dragnót og botnvörpu í Faxaflóa mundi verða langt frá því að vega upp tjónið, sem íslenzk útgerð yrði fyrir með því að missa af veiðunum á þessu svæði. Að þessu athuguðu verður eina færa leiðin að vinna að því sem hingað til að fá íslenzku ríkisstj. til þess að stefna að því að afla samvinnu annarra þjóða við Íslendinga, m. ö. o. stefna að því nú eins og áður að koma á allsherjarfriðun flóans.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Ég hef lýst till. sjútvn. í málinu, tillögum, sem allir nefndarmenn eru sammála um. Nefndin telur, að ekki beri að samþ. bann gegn Íslendingum einum, heldur vill hún skora á ríkisstj. að koma á allsherjarfriðun og láta einskis ófreistað í því efni. Má vænta þess, að málið verði nú rakið, gaumgæfilega athugað af öllum aðilum og teknar verði upp viðræður. Hitt er líklegt, að gera verði Íslendingum kleift að hafa forgöngu í málinu. — Þessi rökstudda dagskrá er fram borin með það fyrir augum.