05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3660)

67. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Ég verð að segja, að ég er undrandi yfir svari dómsmrh., þar sem honum hlýtur að vera ljóst, að þetta má ekki bíða. Ef þessi mál eiga að vera óbreytt þangað til búið er að byggja öll þau hús, sem þyrfti, þá verða menn að búa við sama óréttlætið í mörg ár enn þá. Ef það er rétt, að menn þurfi að borga allt upp í 30 þús. kr. til þess að komast inn í íbúð auk óheyrilegrar leigu, virðist ástandið það slæmt, að ekki veiti af að gera pósitívar ráðstafanir sem fyrst. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi lokað augunum fyrir aðalatriðunum. Lögin voru í upphafi sett til þess, að ekki væri hægt að bera fólk út, en þessi lög ná ekki yfir nýju húsin og skapa því misræmi. Þetta þarf hæstv. ráðh. að skilja. Það er ekki heldur neitt óeðlilegt, þó að þurfi að endurskoða þessi lög, sem eru frá 1940–1941, en það er alls ekki fullnægjandi hjá ráðh. að ætla að láta þessi mál bíða þar til búið er að byggja nægilegt húsnæði. Ég held, að fella mætti niður fimm fyrstu gr. laganna án þess að öngþveiti skapaðist. Ég hef ekki viljað flytja till. um það, því að ég taldi bezt, að málið yrði rannsakað nú þegar, en þegar ráðh. skýtur sér svona undan, verður að athuga, hvort ekki sé rétt að flytja slíka brtt. Þetta mál er ekki einungis húsnæðisspursmál, heldur og dýrtíðarspursmál og því aðkallandi einnig frá þeirri hlið.

Vegna brtt. frá form. nýbyggingarráðs, þá skildi ég þetta svo, að ætlazt væri til, að starfsmenn stjórnarinnar gerðu þetta án þess að skipuð yrði sérstök nefnd um það og án sérstakrar launagreiðslu. Ég vil vita, hvort ætlunin er að skipa nefnd til þessa, og ef svo er, þá er eins hægt að velja hana af þingmönnum og láta stjórnina skipa hana. En ég vil taka það fram, að ég tel ekki nauðsynlegt að skipa sérstaka nefnd, heldur finnst mér ríkisstj. geti aflað upplýsinga frá húsaleigunefndum og lagt þær upplýsingar til grundvallar.

Ég vil svo enda mál mitt með því að biðja hæstv. ráðh. að taka málið öðrum tökum en mér virtist hann gera í ræðu sinni áðan.