05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3661)

67. mál, húsaleiga

Pétur Ottesen:

Ég held, að réttast sé að segja eins og er, að öll meðferð þessa máls hér ber þess augljósan vott, að Alþingi vill ekkert gera í þessu máli, en af hverju það stafar, veit ég ekki. Það hefur rignt yfir Alþingi alls konar kvörtunum og bænum um að lagfæra það öngþveiti, sem ríkir í þessum málum, en allt, sem gert hefur verið, er samþykkt á smábrtt. við l., sem ekki kom kjarna málsins nokkurn skapaðan hlut við. Hvað á, svo að gerast nú? Jú, niðurstaðan hér virðist eiga að verða sú, að Sþ. leggi til, að nefnd verði skipuð af stj. til að athuga málið og leggja svo þær niðurstöður fyrir næsta þing. Það á sem sagt að skella skollaeyrum við öllum kvörtunum, því að það eru til dæmi um það, að málum, sem hefur verið vísað til stj. á svipaðan hátt og þessu er ætlað, hefur aldrei skotið upp aftur, en ég segi ekki, að svo verði endilega um þetta. En hvaða vonir eru til þess, að Alþingi næsta haust standi þessu framar? Tómlæti Alþingis hefur slegið svo þétta skjaldborg um þetta mál, að það rofar ekki til. Það var nægur tími til að afgreiða þetta mál á þessu þingi. Till. hv. þm. Barð. var flutt í október eða nóvember, en þingi ekki frestað fyrr en 20. des., en þá var þetta látið óhreyft. Fyrst nú, þegar komið er fram í febrúar, er farið að athuga þetta svo mjög aðkallandi mál.

Fyrir stríð voru hér sumir menn, sem bundu fjármuni sína í húseignum og ætluðu að hafa sér það til lífsviðurværis, en þeir hafa verið bundnir þannig á klafa með því skipulagi, sem ríkt hefur í þessum málum, að þeir hafa ekki getað dansað með í þessum verðbólgudansi. Enn eru aðrir menn, sem hafa eignazt mikið fé á stríðsárunum, en eins og kunnugt er, fá menn litla vexti af því að leggja skildinga sína inn í sparisjóði, og fá þeir, sem eru smátækastir, 2% þar, en hinir fjáðari ekkert nema þeir skipti fé sínu á margar bankabækur og inn í margar lánsstofnanir. Finnst þeim það ef til vill ekki ómaksins vert til þess að fá þessi 2%. Sumir þessara manna hafa því reynt að spekúlera með fé sitt hér í Reykjavík, því að hér snýst hjólið hraðast. Þeir hafa því útvegað sér byggingarefni, byggt hús og hafið uppboð á húsnæði meðal þess fólks, sem streymir til bæjarins. Þetta fólk hefur staðið hér á götunni og hefur ekki haft þak yfir höfuðið. Það hefur því verið ákaflega hægur leikur fyrir braskarana að eiga viðskipti við það fólk, sem þannig hefur verið ástatt fyrir og nokkurt fjármagn hefur haft milli handa. Þannig hafa þessir braskarar skapað sér aðstöðu til þess að margfalda höfuðstól sinn með því að hafa ærið fé út úr hinu húsnæðislausa fólki. Þessum mönnum þykir gott að lifa í skjóli húsnæðislaganna, og boðorð biblíunnar: „Elska skaltu náungann sem sjálfan þig“, virðist ekki hafa haldið aftur af þeim að níðast á húsnæðislausu fólki í skjóli húsnæðisl. Í þessu sambandi dettur mér í hug saga af bónda nokkrum á Vestfjörðum, sem átti til að úthýsa mönnum. Taldi sóknarpresturinn það eitt af skylduverkum sinum að fara til bóndans og benda honum á, hversu ósæmilegt framferði þetta væri og að hann skyldi íhuga með sjálfum sér, að þegar hann kæmi yfir landamærin, væri ekki alveg víst, að Pétur postuli mundi ljúka upp fyrir honum. Bóndi hugsaði sig um nokkra stund, en sagði síðan: „Ég loka nú samt.“ Það skyldi þó ekki vera, að aðgerðarleysið í húsaleigumálunum orsakaðist af svipuðu sjónarmiði og um ræðir í framannefndri sögu? Mér virðist sú till., sem hér liggur fyrir, vera staðfesting á því að Alþ. vilji ekkert gera í þessum málum, og er það fullkomið vorkunnarmál, þótt hæstv. ráðh. vilji ekki gefa loforð um, að þessari athugun á húsaleigul. verði lokið áður en þingi lýkur. Hitt hefði horft öðruvísi við, ef málið hefði verið afgr. hér áður en þingi var frestað. Ég er hins vegar ekki sammála hæstv. dómsmrh. um það, að ekki séu fyrir hendi starfskraftar í stjórnarráðinu til þess að gera þessa athugun. Þótt þeir séu ef til vill ekki í hans ráðuneyti, þá ætla ég, að það sé svo mikið samstarf milli ráðuneytanna eða ráðherranna, sem þeim ráða, að þeir gætu lagt fram krafta sinna manna til slíks þjóðfélagsmáls sem húsnæðismálin eru. Og það hefur verið tekið þannig undir það af einum ráðherranna, að það væri vel takandi í mál, að hægt væri að draga mjög úr kostnaði við rekstur hins opinbera, með því m. a. að fækka starfsfólki hjá því opinbera. (EystJ: Tók nokkur slík ummæli alvarlega?) Ég verð nú að segja það, að það situr illa á hv. 2. þm. S.-M. að taka ekki alvarlega ummæli, sem ráðh. hefur látið falla, og ætla ég, að hann hefði sagt eitthvað, ef slíkri aths. hefði verið, var það fram í hans ráðherratíð sem hann nú gerði. Ég er að vísu ekki stuðningsmaður núv. hæstv. ríkisstj., en ég er samt ekki úr því andrúmslofti, að ég fari að fella dóm um mál, fyrr en reynsla liggur fyrir um þau. Ég hefði gert ráð fyrir því, að ráðh. mundi geta fundið menn í stjórnarráðinu til þess að leysa af hendi þessa athugun, sem hefðu bæði áhuga, hæfileika og tíma til þess, og hv. allshn. — virðist á sama máli, þar sem hún breytir till. í þetta form í nál. sínu. Skal ég ekkert um það segja, hvort hún hefur nú breytt um afstöðu og verði við kröfum hæstv. dómsmrh. um það að fara ekki að ofbjóða starfskröftum í ráðuneytunum og að störf þar, sem hér um ræðir, skuli greidd úr ríkissjóði. En það hefur oft komið fyrir, þegar ríkisstj. hefur fengið þáltill. til meðferðar, að hún hefur þá einmitt valið menn úr stjórnarráðinu til þess og þá fyrir fulla borgun ofan á laun sín. Og það skyldi nú ekki verða niðurstaðan með þetta mál, að hægt yrði að fá menn úr stjórnarráðinu til þess að framkvæma þessa athugun, ef þau störf verða greidd úr ríkissjóði, — og að þá hafi þeir nægan tíma til þess? Þetta er sá lykill, sem hefur gengið að skránni og vel hefur gengið að opna með. En af því að brtt. er komin frá hv. allshn. um það að fela ríkisstj. þessi störf, og með tilliti til þess, að hv. frsm. og form. n. virðist hafa tilhneigingu til þess að ota því ráði, sem hann er form. fyrir, sem sé nýbyggingarráði, fram til þess að taka að sér ýmis mál, og hér liggja fyrir frv. og er von á öðrum, sem það er stór aðili að, — þá fyndist mér, að hann gæti létt af vandanum hvað þetta mál snertir og látið nýbyggingarráð taka það að sér. Ég veit ekki betur en að það ráð hafi á að skipa hagfræðingum, sem hafa komið heim síðan leiðir opnuðust eftir að stríðinu lauk. Eru þetta ungir menn í fullu fjöri, með mikinn lærdóm að baki sér í félagsmálum, eins og þátttaka þeirra í ýmsum málum hefur sýnt, síðan þeir komu heim.

Að lokum vil ég enn taka það fram, að allt bendir til þess, að Alþ. vilji ekkert gera í þessum málum. Ætla ég ekki að fara að þvo mínar hendur af því, því að ég hef látið reka með straumnum og ekki tekið mig fram um neinar aðgerðir þau varðandi. En með þessu máli held ég, að verði settur aðgerðarleysis- og viljaleysisstimpill á Alþingi, sem sé, að það vilji ekkert gera í því.

Það er að vísu hér önnur till. á dagskrá um ráðstafanir til þess að ráða bót á húsnæðisskortinum og um afnám húsaleigul., en ég held, að þegar búið verður að afgr. þetta mál, þá þyki erindi þeirrar till. ekki mikið, að málinu verði þá lokið að sinni og að Alþ. hafi sett á það sæmilegt svefnþorn, þannig að það geti sofið í ró og næði.