05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3665)

67. mál, húsaleiga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það er ekki óeðlilegt, þó að nokkuð hafi tognað úr umr. um húsaleigul. Mig langar að leggja þar nokkur orð í belg, en skal hafa þau svo fá sem kostur er.

Till., sem hér liggur fyrir til umr., er ósk um það, að endurskoðuð verði húsaleigulögin, og í sambandi við það hafa komið fram raddir um það, hvort nokkurrar endurskoðunar væri þörf eða hvort örstutt endurskoðun, sem leiddi til afnáms l., væri einhlít. Þá hafa komið hér inn í umr. þau alvarlegu mál, sem er grunnurinn fyrir öllu húsnæði, en það eru húsnæðismálin yfirleitt, og það er sýnilegt, að húsnæðismálin og húsaleigulöggjöfin eru svo tengd saman, að það er ekki óeðlilegt, að um hvort tveggja sé talað á sama tíma.

Það hefur mikið borið á kvörtun út af húsaleigul. að nokkru leyti frá húseigendum, sérstaklega eigendum gömlu húsanna, sem telja sig vera misrétti beitta, vegna þess að húsaleigu í húsum þeirra sé haldið óeðlilega niðri, samanborið við leigu í hinum nýrri húsum, og að þeir eigi þess ekki heldur kost að losna við leigjendurna. Þá hefur líka komið fram kvörtun frá leigjendunum sjálfum, sem telja, að það sé búið mjög misjafnlega að þeim, þar sem sumir þurfi að borga okurleigu, en aðrir eigi við að búa sæmilega leigu í eldri húsum með gömlum leiguskilmálum. Þá kvarta launþegar í landinu og segja, að það sé ekki rétt að byggja útreikning vísitölunnar á húsaleigunni, það sé aðeins til þess að falsa hana. Það má segja, að allar þessar umkvartanir séu á rökum reistar. Það er eðlilegt, að meðal leigjendanna vakni óánægja, þar sem t. d. í sömu götu búa tveir menn með ólíkum leigukjörum, annar býr í húsi með gömlum leigukjörum, sem eru viðráðanleg, en hinn býr við svo ákaflega háa húsaleigu, að verulegur hluti af tekjum hans, ef við hugsum okkur, að þeir séu báðir lágtekjumenn, fer til þess að greiða húsaleiguna. Það er ekki nema von, að leigjendur kvarti og segi: Við erum misrétti beittir, og það verður að umreikna vísitöluna. — Það mun láta nærri, eins og hv. þm. Str. sagði, að ef húsaleigan væri ekki tekin með og lögð til grundvallar, þegar verðlagsvísitalan er reiknuð út, mundi vísitalan hækka um a. m. k. 30 stig. En allar þessar umkvartanir, sem að mörgu leyti eru réttmætar og á rökum reistar, eiga rót sína að rekja til ástandsins í húsnæðismálunum, þ. e. skortsins á nægilegu húsnæði. Að vísu geta menn varpað fram tafarlaust þeirri spurningu, og er rétt að gera það að undangenginni einhverri rannsókn, hvort sem þarf að eyða í það löngum tíma eða ekki: Er hægt að afnema húsaleigulögin tafarlaust? Ef svo er, þá verður það væntanlega gert. Ef ekki, þá er spurningin, hvort hægt er að lagfæra húsaleigul. að einhverju leyti. Það eru ekki nema eðlilegar umkvartanir þeirra borgara, sem verða fyrir barðinu á slíkri löggjöf sem þessari, en á hitt verða menn líka að líta, að slík löggjöf er einn liður í almennum ráðstöfunum til þess að koma á betra skipulagi meðal þjóðfélagsþegnanna, og hafa það hugfast, að einhverju þarf einstaklingurinn oft að fórna til þess að þjóðfélaginu í heild vegni betur. Ég er ekki í vafa um það, að húsaleigul. eru gölluð og misræmi er í þeim verulegt, en ég er á þeirri skoðun, að það séu sáralitlar líkur til, að það væri neitt annað en að fara úr öskunni í eldinn að fara nú að afnema 1., heldur mundi það aðeins skapa meira öngþveiti. En þá er sú spurning, ef hnigið er að þeirri niðurstöðu, hvað hægt er að gera til þess, að hægt sé að afnema þau sem fyrst, og hvort nú væri ekki hægt að endurbæta l. þannig, að af þeim yrðu sniðnir nokkrir vankantar, svo að þau yrðu viðunanlegri þann tíma, sem þau eiga eftir að standa.

Það er vissulega ekki húsaleigul. að kenna, þó að nú sé húsnæðisskortur, og það er vissulega ekki þeim að kenna, þó að húsnæði sé nú selt á svörtum markaði, eins og það er kallað, sumpart á þann hátt, að menn greiða álitlega upphæð til að fá að komast inn í húsnæði, og sumpart með því, að einstakir menn fá aðstöðu til að byggja hús í stórum stíl og leggja svo gífurlega á þessar byggingar, að þeir taka af því stórgróða, en þeir, sem vegna húsnæðisskorts eru neyddir til að kaupa, reisa sér þar hurðarás um öxl um langan tíma. Þetta er ekki húsnæðisl. að kenna, heldur ástandinu í húsnæðismálunum yfirleitt, því að þar er að finna ræturnar að því vandræðaástandi, sem nú ríkir. Ég held því, að rétt sé að gera samtímis það tvennt, sem talað er um í þessari till., að athuga, hvort ekki er hægt að sníða eitthvað af verstu vanköntunum af l., en þeir eru einhverjir til, því að það verður alltaf svo um löggjöf, sem gildir yfir árabil, sem verulegar breyt. verða á, eins og hér hefur orðið, og svo er hitt, sem er aðalatriðið, að gera ráðstafanir til þess, að húsnæði aukist:

Það var frekar sem ummæli frá stjórnarandstöðu en að því fylgdi nokkur sanngirni, sem hv. þm. Str. mælti hér, að hæstv. ríkisstj. gerði ekkert af sinni hálfu til að skera fyrir rætur þessarar meinsemdar og gera ráðstafanir til að auka húsnæði. Ég veit ekki betur en að frv. sé fram komið hér á þingi, flutt að tilhlutun hæstv. félmrh., sem mundi hafa stórmikla þýðingu, ef það væri framkvæmt skelegglega. Þar er ekki eingöngu gert ráð fyrir stórlega aukinni starfsemi verkamanna- og samvinnubústaða, heldur einnig að ríki og bæir leggi saman til að byggja sem allra fyrst yfir það fólk, sem nú býr í óviðunandi húsnæði. Ég veit, að þeir hv. alþm., sem til máls hafa tekið, — og vænti, að það sé eins með þá, sem enn hafa ekkert látið til sín heyra, — gera sér fyllilega ljóst, að ein allra mestu vandræðin í þéttbýlismálunum, sérstaklega í einstökum kaupstöðum og þá ekki sízt í höfuðstaðnum, eru húsnæðismálin, því að við vitum, að um 1500 manns búa hér í bröggum og nokkuð álitlegur hópur í öðru húsnæði, sem er ónothæft til íbúðar. Í þessum íbúðum býr gamalt og veikt fólk og mikið af ungum börnum. Hér er um að ræða þjóðfélagsfyrirbæri, sem ég veit, að hv. þm. gera sér ljóst, að þarf mjög skjótrar úrlausnar. Ég vil því vænta þess, að hv. þm. geti komið sér saman um þetta tvennt, sem gera þarf gegn þessum mjög miklu vandræðum þjóðfélagsins. Annað er það, sem till. gengur út á, að sniðnir verði ýmsir vankantar af l. Ég vil t. d. skjóta því fram í sambandi við það, hvort þörf sé á að binda skrifstofuhúsnæði svo föstum böndum sem húsaleigul. gera nú, og svo er með ýmislegt fleira. Hitt er það, sem mest er vert, en það er að afgr. frá þessu þingi löggjöf, sem gæti orðið til þess, svo fljótt sem aðrar ástæður leyfa, að bætt yrði úr húsnæðismálunum. Ég hygg, að sá grundvöllur, sem lagður er með frv. hæstv. félmrh., sé ágætur til að byggja á, ef um það fjalla sanngjarnir og réttsýnir aðilar, sem ég vil ekki efast um.

Ég vildi aðeins láta þessi orð falla í sambandi við þetta mál. Ég er till. fylgjandi, en hún gerir aðeins ráð fyrir að bæta úr málunum á þann hátt, sem ég hygg, að verði ekki mikil endurbót. Hitt er aðalatriðið, að auka húsnæðið. Þá fyrst getur talizt tímabært að afnema l., og það verða áreiðanlega allir þeim tíma fegnir, þegar hægt verður að afnema þau. Það er engin ánægja í sambandi við þau; en ég er engu að síður sannfærður um, að þau hafa afstýrt stórkostlegum vandræðum, mjög stórkostlegum, sérstaklega framan af stríðstímanum. Ég teldi mesta glapræði að afnema þau, án þess að gerðar væru um leið róttækar ráðstafanir til úrbóta. Þess vegna á nú að lagfæra þau og gera um leið þær ráðstafanir, sem gætu orðið til þess, að þau þurfi ekki að vera í gildi nema sem allra stytztan tíma.