05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3668)

67. mál, húsaleiga

Páll Zóphóníasson,:

Herra forseti. Þegar allshn. hafði málið til meðferðar, þá lá ekkert fyrir um, að hæstv. stj. þyrfti að taka sér frí vegna bæjarstjórnarkosninganna. Þá lá því ekki annað fyrir en að þessu þingi yrði slitið fyrir jól eða rétt upp úr áramótum og kæmi aftur saman 15. febr. Þetta vil ég taka skýrt fram, svo að ekki sé álitið, að n. hafi viljað setja málið í eitthvert eilífðarform.

Hæstv. dómsmrh. er hér því miður ekki við. Hann sést hér nú aldrei, en mér hefði þótt gaman að fá upplýsingar hjá honum í sambandi við eitt atriði þessa máls. Snemma á þessu þingi barst mér í hendur nál. n., sem hefur með höndum lóðaspursmálið. Í þessari n. voru Jens Hólmgeirsson, Áki Jakobsson, núverandi atvmrh., Sigurður Á. Björnsson og Kjartan Ólafsson. Hún skilaði miklu frv., sem átti að koma í veg fyrir brask með lóðir í bæjum. Ég hef áhuga fyrir þessu máli, og mér datt í hug að flytja frv. Ég talaði um það við hæstv. ráðh., og hann sagði, að frv. gæti ekki staðizt, af því að þar væri ákvæði um, að lóðir mætti ekki selja fyrir hærra verð en tvöfalt fasteignamatsverð, hann væri búinn að leita um það álits hæstaréttar, og þeir væru sammála um, að þetta ákvæði gæti ekki staðizt. En nú upplýsir hæstv. ráðh., að eitt ráðið, sem hann vill grípa til til að ráða fram úr húsnæðisvandræðunum, sé að banna að selja hús nema fyrir ákveðið verð. Nú langar mig til að fá að vita hjá hæstv. ráðh., hvernig það getur verið brot á stjórnarskránni að dómi hans og hæstaréttar að ákveða, að ekki megi selja lóðir nema fyrir ákveðið verð, þegar hann getur hugsað sér að leysa húsnæðismálið í landinu með því að ákveða, að ekki megi selja hús nema fyrir ákveðið verð, og telur það ekki brot á stjórnarskránni. Ég skil þetta ekki vel og langar til að fá um það upplýsingar hjá hæstv. ráðh., hvernig þessu er háttað. Mér skilst, að ef ekki er leyfilegt að setja l. um að selja lóðir ákveðnu verði, þá hljóti það sama að gilda um húseignir.

Ég geri ráð fyrir, að þessi hæstv. ráðh., sem aldrei er hér í d., hafi hér einhvern til að segja sér, hvað hér gerist, og ég vona, að þeim boðum verði þá komið til hans, að ég óska eftir skýringum hans á því, hvernig þessu er háttað.