30.10.1945
Sameinað þing: 4. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (3678)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vildi aðeins segja nokkur orð í tilefni af ummælum hv. 7. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm.

Það er þá í fyrsta lagi varðandi það, að e. t. v. sé þáltill. óþörf, þó að ekki hafi það verið fullyrt, vegna reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Þessi þáltill. ákveður ekki neina nefndarskipun. Hún leggur hins vegar fyrir ríkisstj. að sjá um, að sú rannsókn, sem þar er tiltekin, verði gerð, og ég tel rétt, að Alþ., ef það fellst á, að æskilegt sé, að þessi rannsókn fari fram, geri ríkisstj. ábyrga fyrir því, að rannsóknin verði gerð, en það mundi eftir þessari till. minni liggja í hendi ríkisstj. Menn gætu falið reikningaskrifstofu sjávarútvegsins að sjá um rannsóknina. En hitt er rétt hjá hv. þm. Borgf., að ekki er hægt að hugsa sér, að hún sjái um rannsóknina, nema hún sé sett á fót og fái til þess ríflegri fjárveitingu en ætlazt er til í gildandi l. Ég legg áherzlu á það, að þetta, sem hér er farið fram á, fellur ekki undir venjulegt verksvið reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Þetta er miklu víðtækara en gert er ráð fyrir, að skrifstofan framkvæmi árlega. Menn verða því að taka afstöðu til þess, hvort þeir vilja, að þessi víðtæka rannsókn fari fram, og ég vona, eftir þeim undirtektum, sem málið hefur fengið, að menn geti fallizt á hvorttveggja. Það er ekki hægt að gera þetta með frjálslegra móti en að gera þá stjórn, sem situr á hverjum tíma, ábyrga fyrir, að rannsóknin verði gerð.

Út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, vil ég minnast á þrjú atriði. Í fyrsta lagi fannst mér gæta nokkurs kvíða í sambandi við þessa fyrirhuguðu rannsókn, af þeirri reynslu, sem hann taldi sig hafa fengið í starfi sex manna nefndarinnar. Ég ætla að svara því, þegar ég svara hv. þm. Vestm. En hv. 7. þm. Reykv. sagði, að nú ætti máske að koma önnur n., sem sýndi, að fiskimenn hefðu alltof lágar tekjur, sem aftur gæti orðið til þess að ausa stórfé til þeirra. Ég skal ekki spá, fremur en ég gerði í framsöguræðunni, hvað þessi rannsókn muni sýna, en af einhverju er það, að svo illa gengur að fá fiskimenn á fiskiskipaflotann. En ég vil segja það, að ef fiskimenn hafa lægri tekjur en almennt gerist í landi og geta ekki með, tekjum sínum hamlað á móti verðbólgunni, á það að koma fram, og því fyrr, því betra, því að það hefnir sín að leyna því, ef því er þannig varið, eins og ég held að það sé, og það hefur þegar hefnt sín, að þessu hefur verið haldið leyndu fyrir alþjóð eins lengi og gert hefur verið. Ef við dettum á skýrslur um sjósókn og fiskveiðar, kemur í ljós, að á árunum 1942–1944, á þeim árum, þegar fiskverðið er hæst, þá fækkar þeim mönnum, sem stunda fiskveiðar á Íslandi. Það er því ekki út í bláinn, þegar stungið er upp á því, að fram fari allsherjar rannsókn á því, hvernig á þessu stendur. Og ég endurtek það, að þessa athugun hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. En auðvitað er betra að gera það nú, þó að það hafi ekki verið gert áður.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að menn mættu ekki leggja of mikið upp úr því, þó að illa gengi að fá menn til að stunda fiskveiðar á smábátum. Slíkt væri að kenna úreltum tækjum, sem heltust úr lestinni, og önnur betri kæmu í staðinn. Mér dettur ekki í hug að neita því, að bátarnir þurfi að stækka, og það er augljóst mál, að smærri bátarnir hljóta að heltast úr lestinni, þegar stærri og fullkomnari skip koma. En hitt vildi ég segja, að Íslendingar mega ekki við því að hætta í einu vetfangi á þeim bátum, sem hv. 7. þm. Reykv. kallar smáa. Af slíku mundi leiða landauðn á sumum stöðum á landinu. Málum er þannig komið nú þegar, að sjósókn hefur lagzt niður á sumum stöðum á landinu. Þótt menn þar hafi fullan hug á að koma sér upp stærri og fullkomnari fleytum, hefur það reynzt þeim ókleift vegna hins háa verðs á nýjum bátum, sem verðbólgan hefur aðallega valdið. Ástandið er því alvarlegt. Og það er ekki hægt í mörgum tilfellum að sjá, hvernig ástatt er um afkomumöguleika ýmissa fiskimanna, sem eru á smáfleytum, innan við 30 tonn og þar um. En það eru margir landsmenn, sem eiga hag sinn undir afkomu slíkra báta. Þess vegna þolir þjóðfélagið ekki, að slík útgerð falli niður nú.

Það er mikið talað um, að stærri bátarnir þoli hærri framleiðslukostnað. Ég veit það er rétt, að þeir, sem eru á stærri bátunum, fá yfirleitt meiri tekjur en hinir. En ég hef hvergi glöggar heimildir fyrir því, hvernig þessu er háttað. Ég hef ekki séð, hvernig afkoma útgerðar- og fiskimanna er, sem hafa báta um 50–100 smálestir o. s. frv. Ég sé hvergi, hvernig þessu er háttað, og tel ástæðu til, að það sé athugað. Þá mundi það koma í ljós, hve mikinn framleiðslukostnað stærri bátarnir gætu þolað. Og það er ekki svo lítið atriði út af fyrir sig.

Hv. 7. þm. Reykv. vék út af götu sinni til þess að taka það fram, að ég væri í þeim leiða hóp, sem legðist á móti allri nýsköpun. Ég vil benda hv. þm. á, að þetta er með öllu rangt, eins og bezt sést á því, að ég og þeir, sem hann vill telja í þessum leiða hóp, höfum stutt allar skynsamlegar till., sem komið hafa fram og telja ber til nýsköpunar. Hitt er svo annað mál, að við höfum barizt gegn þeirri verðbólgustefnu, sem hv. 7. þm. Reykv. og hans sálufélagar hafa veitt fulltingi. Við teljum, að sú stefna leggi stein í götu þeirrar nýsköpunar, sem hér þarf að eiga sér stað. Þess vegna álít ég og aðrir fleiri, að hv. 7. þm. Reykv. sé einmitt í þeim leiða hóp, sem leggur stein í götu allrar nýsköpunar í atvinnulífi landsins.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Vestm. sagði, vil ég láta falla örfá orð. Ég ætla aðeins með örfáum orðum að koma að því, sem hv. þm. sagði rangt um álit 6 manna n., og þá útleggingu, sem hann gerði á grg. þeirri, sem ég læt fylgja till. Hv. þm. sagði, að grg. talaði um, að mikið tjón hefði hlotizt af því, að þessi rannsókn hefði ekki farið fram, og hann lét skína í það, að þess vegna gæfi 6 manna n. álitið ranga hugmynd um það, hvernig verðleggja eigi landbúnaðarafurðir. Þessar útleggingar hv. þm. minna á útleggingar vissrar persónu á vissri bók, sem allir þekkja, — svo fráleit er hún. Hv. þm. Vestm. veit eins og ég, að þegar 6 manna n. álitið var gert, var svo fyrir mælt, að bændum skyldi mælt verðlagið í hlutfalli við kaup verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna. Og ég veit ekki betur en að nm. hafi dregið saman upplýsingar um tekjur manna víðs vegar af landinu, eftir því sem þeir bezt gátu, samkvæmt skattaskýrslu og öðrum gögnum. Í l. um 6 manna n. er ekkert talað um, að taka eigi tillit til afkomu útgerðarmanna. Þess vegna hefur það ekkert háð störfum 6 manna n., þótt ekki lægju fyrir glöggar skýrslur um þetta efni. Þetta kemur 6 manna n. álitinu ekkert við, hvorki á einn né annan máta. Hins vegar býst ég við, að þessu máli sé hreyft til að reyna að koma af stað metingi milli útvegsmanna og bænda, milli landbúnaðar og sjávarútvegs. Það er verið að gefa í skyn, að erfiðleikar sjávarútvegsins séu vegna þess, að landbúnaðarvörurnar séu svo háar og bændur hafi komið á þeirri verðbólgu, sem hvílir eins og mara á sjávarútveginum. Hv. þm. Borgf. hefur svarað þessu verulega, en ég vil til viðbótar því benda á það, að bændur landsins hafa ævinlega verið reiðubúnir að stöðva verðbólguna með því að binda verðlag og kaupgjald og aðra þá liði, sem skapa verðbólguna. Enn fremur vil ég benda á, þótt hv. þm. Borgf. gerði það, að bændur hafa látið niður falla kröfur, sem þeir áttu rétt á að fá framkvæmdar, til þess að breytt gæti orðið um stefnu í dýrtíðarmálunum. En það fór nú sem fór um það. Auk þess er ekki hægt að komast hjá því að undirstrika það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að hv. þm. Vestm. hefði lagt samþykki sitt við áliti 6 manna n. með því að byggja á því fjárveitingar úr ríkissjóði til að greiða útflutningsuppbæturnar. Mér dettur ekki í hug, að hv. þm. hafi gert það gegn betri vitund eða viljað verðlauna ranglátar kröfur með fjárframlögum úr ríkissjóði.

Fyrst hv. þm. Vestm. hefur gefið tilefni til þess. verð ég að skýra með örfáum orðum, hvað fyrir mér vakir. Ég ætla að skýra það betur fyrir hv. þm., við hvað ég á, þegar ég held því fram í grg., að það sé stórtjón fyrir útgerðina, að ekki hefur verið fyrr rannsakað það, sem ég legg til, að nú verði gert. Ég álít t. d., að ef legið hefði fyrir árið 1942 glögg grg. um það, hvaða áhrif hækkun dýrtíðarinnar mundi hafa á hag útgerðarinnar, þá mundu sumir þm., sem þá áttu hlut í því að stuðla að þeim framkvæmdum, sem gerðar voru og ollu því, að dýrtíðin tvöfaldaðist á nokkrum mánuðum, hafa hikað við að ljá þeim atkv. sitt. (JJós: Vildi hv. þm. geta þess sérstaklega, hverjar þessar framkvæmdir voru?) Ég á við það, þegar Sjálfstfl. hætti við að framkvæma gerðardómsl. og myndaði stjórn með hlutleysi Alþfl. og kommúnista og skuldbatt sig til þess að aðhafast ekkert til þess að framkvæma gerðardómsl. og halda niðri verðbólgunni. Ég á meðal annars við það að þeir, sem áttu hlut að þessum málum, hafi þá ekki vitað eða gert sér grein fyrir, hvaða áhrif þessar aðgerðir höfðu á afkomu útgerðarinnar og hag sjávarútvegsmanna. Ég á við, að það hefði lagt þunga pressu á alla að stuðla gegn verðbólgunni, ef fyrir hefði legið glögg grg. um þetta málefni. Það var ekki ætlun mín að fara í þessum umr. út í almennar umr. um þessi mál, en vil geta þess, að það er misskilningur hjá hv. þm. Vestm., að 6 manna n. álitið hafi verið sérstök árás á sjávarútveginn. Ég er líka alveg sannfærður um það, að ef þessi rannsókn hefði fengizt gerð 1943, þá hefðu menn hikað við að byrja að stíga verðbólgudansinn á ný. Og ég hef meir en grun um það, að ástæðan til þess, að menn taka svo dauft undir þessa till. um að kryfja þetta til mergjar, sé sú, að menn hafi óhreina samvizku út af því, sem gerzt hefur, og vilji ekki, að það komi glöggt í ljós, hvernig ástandið er. Og ég álít, að ástæða sé til þess. Ég hefði ekki farið að ræða það, sem liðið er í þessu efni, ef hv. þm. Vestm. hefði ekki gefið tilefni til þess. Aðalatriðið er meðferð þessarar till., hvort hún nái fram að ganga nú. Ég geri mér vonir um, að svo verði, eftir þær undirtektir sem málið hefur fengið.

Ég vil lýsa yfir ánægju minni viðkomandi því, sem hv. þm. Vestm. sagði, er hann komst svo að orði, að brýn nauðsyn væri á því, að samkomulag fengist um að færa dýrtíðina niður. Það er mikil framför frá því fyrir nokkrum mánuðum, þegar þeir menn voru ekki hátt skrifaðir, sem þá héldu því fram, að brýn nauðsyn væri að færa verðbólguna niður, töldu það svo brýna nauðsyn, að ekki væri hægt að standa að stjórnarmyndun nema það yrði gert. Ég tel mikinn skaða, að ekki skyldu geta myndazt samtök um það þá. En ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hv. þm. Vestm. skuli hafa lýst yfir, að hann telji nauðsyn á því, að breytt sé um stefnu.