30.10.1945
Sameinað þing: 4. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3679)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Sigurður Kristjánsson:

Ég skal í upphafi taka það fram, að það er alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að fjárveitingin til reikningaskrifstofunnar er bundin upphæð, sem Fiskifélagið taldi ófullnægjandi. En í l. er það lagt sem kvöð á Fiskifélagið að halda uppi þessari skrifstofu. En jafnframt liggur það í augum uppi, að ef löggjafinn áskilur Fiskifélaginu að sjá um starfsfólk og rekstrarfé, þá verður ríkissjóður að sjá Fiskifélaginu fyrir nægu fé til að standast þetta. Það er rétt, að í l. er upphæðin takmörkuð. Það stafar af því, að eftir lauslegt viðtal við formann Fiskifélagsins taldi n., sem fjallaði um málið, þetta hæfilegt. Það er misskilningur, að skrifstofan eigi að starfa á þann hátt, sem hv. þm. Borgf. hélt fram, þannig að hafa sendimenn víðs vegar úti um land. Það er tekið fram, að senda eigi út eyðublöð til útgerðarmanna og félaga, sem senda þau svo til baka. Síðan vinnur skrifstofan úr þeim undir stjórn Fiskifélagsins. En það gæti orðið mikill kostnaður við að senda menn víðs vegar um landið í þessu sambandi. En sem betur fer er engin þörf á því. Og ekki þarf að kenna mönnum að halda þessa reikninga, því að öll þessi fyrirtæki eru skyld að halda reikningsfærslu.

Um þetta er nú þegar búið að tala mikið og langt mál, og hafa umr. snúizt um verðbólgu og vísitölu, eins og sjálfsagt er leyfilegt, þar sem á Þetta er minnzt í grg. till. Og tilgangur till. er sá að bjarga að nokkru leyti við þessum verðbólgumálum, að því er mér skilst. Ég get því með góðri samvizku minnzt á það mál eins og aðrir. Hv. flm. tók það réttilega fram, að till. væri ekki um það að skipa n. í málið. En hitt er vitað, að ríkisstj. er fyrirskipað að láta rannsaka hlutina, og þá verður hún að fela einhverjum rannsóknina, hvort sem það verður nú einn maður eða fleiri, svo að það breytir engu um þær aths., sem ég hef gert. Í sambandi við það, að þetta sé líklega óþörf ósk, þar sem við höfum stofnun, sem samkv. l. er skylt að gera þetta og virðist hafa beztu aðstöðuna til þess að koma þessu í framkvæmd, vil ég aðeins upplýsa það, að þær upplýsingar, sem mþn. í sjávarútvegsmálum, sem ég og hv. flm. áttum báðir sæti í ásamt 3 mönnum öðrum, gerði tilraunir til að afla um þessi mál, voru menn ekki samkv. l. skyldugir að gefa, sumir að minnsta kosti, og treystum við okkur ekki til að byggja till. okkar á þeim. Aftur á móti hefur reikningaskrifstofan við að styðjast l., sem fyrirskipa a. m. k. allverulegum hóp útvegsmanna að gefa slíkar upplýsingar, enda engin ástæða til fyrir þá að Þrjózkast við slíku, því að það mundi kosta þá mikið fé.

Hv. flm. sagði, að smábátaútvegurinn mætti ekki leggjast niður. Hann sagði þetta í sambandi við ummæli mín um það, að vitanlega yrðu úrelt framleiðslutæki að hverfa. Þetta hefur mér ekki komið til hugar. Það eru ekki svo fáir heimilismenn, sem stunda aðra atvinnu, en hafa útræði sem hluta af atvinnurekstri sínum, þegar fiskur gengur á heimamið. Og þetta er vitanlega nauðsynlegur liður í því, að fólk á afskekktum stöðum sjávarsíðunnar geti lifað bærilegu lífi. Á mörgum stöðum hefur sjórinn verið drýgri en landið við að halda lífi í fólkinu, en það stafar einkum af því, að landbúnaðurinn er rekinn, sérstaklega á smærri búum, á svo illa ræktuðu landi, að mjög erfitt hefur verið að reka þar arðvænlegan búskap, og hefur því farið svo, að menn hafa orðið að styðjast við fleira.

Hv. flm. sagði, að hann væri ekki á móti nýsköpun. En ég er ekki alveg viss um, hvað það er, sem hv. flm. kallar nýsköpun atvinnuveganna. Það hefur verið talað um á s. l. árum að taka í notkun afkastameiri atvinnutæki. Það hefur verið talað um, að það þyrfti að breyta jörðunum þannig, að hægt væri að koma við fullkomnari tækni en nú er mögulegt, svo að jarðirnar gætu þannig borið miklu stærri bú. Það er talað um að stækka skipin, auka vinnutækni í kaupstöðum, við vegagerð, hafnargerð o. fl. Nú dettur mér ekki í hug að halda fram, að hv. flm. þessarar till. á þskj. 55 sé á móti neinu af þessu. En það er kunnugra en um þurfi að deila, að hann og landsmálaflokkur hans hefur risið gegn þessum fyrirætlunum og ekki aðeins talið þær stefna til mikils voða og bera nokkurn glæfrasvip, heldur hefur og þessi flokkur beinlínis reynt að gera gys að þessum fyrirætlunum og þær uppnefndar og reynt að skapa andúð fólks gegn þeim. Svo segja þessir menn: Ég vil nýsköpun, en bara öðruvísi o. s. frv. — En ég er alveg á því, að hv. flm. sé með nýsköpun og trúi á hana og muni vilja vera með, ef hann væri kvaddur til stjórnarstarfa af ríkinu. Ég hygg, að andstaða hans og flokksmanna hans sé af því, að það eru aðrir menn, sem hafa beitt sér fyrir nýsköpuninni og ætla að hrinda henni í framkvæmd. — Þetta er nöldur óbyrjunnar, sem ekki þolir svona mikla frjósemi nágrönnunnar. (EystJ: Þolir ekki frjósemi stjórnarinnar.) Það má vera, að mönnum finnist, að langt sé farið frá efni till., þegar farið er að tala um verðbólguna, en það er ekki hægt að komast hjá því, fyrst það er komið inn í umræðurnar. Verðbólgan hér á landi er að vissu leyti algerlega óviðráðanleg. Það getur enginn ráðið við það lögmál, að þegar hægt er að græða á einhverjum hlut, þá hækkar hann í verði. Ef hægt er að reka gróðavænlegan búskap á einhverri jörð, þá hækkar jörðin í verði. Ef mjög arðvænlegt er að gera út skip, þá verða alltaf til menn, sem bjóða í þessi skip. Þennan hluta verðbólgunnar er ekki hægt að ráða við. En afurða- og vörusölu innanlands getum við a. m. k. að nokkru leyti ráðið við. Nú hefur þetta mistekizt mjög mikið með innfluttar vörur og iðnaðarvörur. Þær hafa síðastliðin ár verið seldar hærra verði en heppilegt er eða sanngjarnt.

Aftur á móti er miklu erfiðara að eiga við sölu landbúnaðarvara innanlands, og er ekki undarlegt, þótt mistekizt hafi með sölu þeirra, fyrst mistakast skyldi með sölu innfluttu varanna. Ástandið er þannig núna, að ekki er hægt að framleiða landbúnaðarvörur fyrir lægra verð. Ef það ætti að vera hægt, þyrftu búin að stækka frá því, sem nú er. Það er sama, hvaða verðlag er sett, þegar ekki er kleift að hafa nema 30–40 rollur á meðalbúi. Það er verið að tala um, að bændur hafi gefið eftir. Hvað hafa þeir gefið eftir? Heppilegast hefði verið, að bændur hefðu ráðið sínu verðlagi og ég er sannfærður um, að þeir hefðu alls ekki farið upp úr því, sem verið hefur, því að þeir hefðu aldrei getað selt afurðir sínar, ef þeir hefðu sett á þær hærra verð en verið hefur. Ég hygg, að menn hefðu aldrei látið sér detta slíkt í hug. Verðlagsvísitalan er að mestu leyti sköpuð af landbúnaðarafurðunum, en afkoma landbúnaðarins er erfiðari en áður, vegna þess að bændur geta ekki framleitt ódýrar vörur. Þess vegna þýðir ekkert að vera að tala um þetta eins og einhvern hlut, sem þurfi að losa þjóðfélagið við. Ég vil benda á í þessu sambandi, þegar verið er að tala um kauphækkanir, að landbúnaðarvörurnar hafa alltaf farið hækkandi. Hitt er víst, að kauplækkanir kæmu af sjálfu sér, ef vísitalan lækkaði, þ. e. a. s. ef landbúnaðarvörurnar lækkuðu. Þeim, sem halda því fram, að kaupgjald sé of hátt og hægt væri að lækka framleiðsluvörur bænda, ef kaupgjald væri lækkað, vil ég benda á það, að mikill meiri hluti íslenzkra bænda eru einyrkjar, sem kaupa litla eða enga vinnu. Hvernig halda þessir menn, að slíkir einyrkjabændur fái lægri framleiðslukostnað, þó að kaupgjald lækki? Þetta er bara að ætla að gefa mönnum steina fyrir brauð, — það verður að finna aðrar leiðir í þessum málum. Það er verið að tala um þann mikla gróða, sem fengizt hafi á stríðsárunum. En hvar er þessi gróði? Við getum rakið þetta nokkuð. Við vitum, að útgerðarmenn hafa á íslenzkan mælikvarða grætt allmikla peninga og bætt hag sinn frá því, sem var fyrir stríð, einkanlega togaraeigendur. Við vitum, að kaupsýslumenn og innflytjendur vara hafa stórgrætt og sumir orðið auðmenn. Við vitum, að iðnrekendur hafa rakað saman fé miðað við það, sem áður var, og eru þess vegna margir ríkir menn. Við vitum, að hagur bænda hefur stórkostlega breytzt úr bláustu fátækt í það að verða bjargálna menn. Sumir eiga það, sem þeir hafa undir höndum, og sumir eru orðnir stórefnaðir menn. Svo kemur ein stétt í þjóðfélaginu, sem ég held, að óhætt sé að fullyrða, að sárfáum undanteknum, að ekki eigi neitt, en það eru verkamenn og launþegar, sem hafa tekið fast kaup. Það getur því ekki verið, að öll vandræðin stafi af því, að þessar stéttir hafi tekið of hátt kaup. Ég held, að enginn hafi tekið mikið nema milliliðirnir. — Ég ætla svo ekki að ræða þetta meir að sinni.

Hv. 2. þm. N.-M. var eitthvað að tala um 6 manna nefndar álitið. Það er ekki ástæða til að lengja ræðu mína með því að svara því mikið. En ég get sagt hv. þm. það, að þegar það var útgefið, að tekjur verkamanna og sjómanna mundu vera 15 þús. kr., þá vissi ég af kunnugleika mínum, að þetta var rangt, nema á litlu svæði. Á stærri skipum og fullkomnari var kaupið meira en þetta. Og þegar ég fór að kynna mér þetta úti um landið, þá fékk ég það staðfest hjá hreppsnefndarmönnum og skattan., að tekjur verkamanna og manna á bátum voru ekki nema 8–10 þús. kr. á ári. Það þýðir ekki fyrir hv. 2. þm. N.-M. að segja, að þetta sé ósæmilegt að segja á Alþ., því að ég hef þetta eftir áreiðanlegum mönnum, og ég veit, að þetta er sannleikur.