20.11.1945
Sameinað þing: 9. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3690)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Ég þarf ekki að vera margorður um ræðu hv. 2. þm. S.-M. Ég býst við, að allir þm. hafi veitt því athygli, hvernig honum tókst í rauninni að skýra þm. frá gildi þeirrar till., sem hann flytur hér. Ég býst við, að menn sjái, hvað sjávarútvegurinn yrði bættari með samþykkt þessarar tillögu.

Aðkasti hans til mín persónulega út af því, sem ég sagði, að hann teldi ræðu mína ósmekklega, hirði ég ekki um að eyða orðum að.

Hv. þm. sagði hér, að það væri gott dæmi um vinnubrögð okkar sósíalista, að við hefðum flutt hér fyrir tveimur árum síðan till. um það að tryggja fiskimönnum lágmarkslaun, og síðan hefðum við ekki hreyft þessu máli, eftir að við komumst í stjórnaraðstöðu, heldur látið það falla niður. Það væri munur eða hjá honum, sem flytti þessa till. í þriðja skipti og léti Tímann birta hana með risastórum fyrirsögnum. En hver er sannleikurinn í þessu? Hann er sá, að það vorum við sósíalistar, sem á sínum tíma urðum að taka því, að þessi hv. þm. ásamt öðrum framsóknarmönnum hér á þingi beitti sér á móti þeirri till., sem við hér fluttum og höfðum ekki atkvæðamagn til þess að koma gegnum þingið. Hitt er svo annar þáttur málsins, hvernig við sósíalistar höfum haldið áfram með þetta mál síðan við komum í ríkisstj. Sannleikurinn er sá, að við höfum ekki yfirgefið þetta mál. Það ætti þessi hv. þm. að vita, vegna þess að einn ráðh. Sósfl., hæstv. atvmrh., hefur nú, einmitt þegar mest á reyndi í þessu máli, skipað nefnd manna til þess að gera tillögur um sams konar tryggingakerfi og við fluttum á Alþ., og hv. þm. veit, að þessi n. situr hér að störfum og hefur skilað fyrri hluta álits síns um það, hvernig fara megi með þessi mál, en hún vinnur ennþá að því að gera tillögur um það, hvernig megi koma fyrir tryggingakerfi á sama grundvelli og við fluttum hér áðurnefnda till., svo að hv. þm. hlýtur að fara hér vísvitandi rangt með mál.

En mér sýnist, að málflutningur hv. flm. þessarar till. sé yfirleitt á þessa leið : Hann ber hér fram þvert ofan í það, sem þingskjöl sýna, að framsóknarmenn hafi ekki verið á móti lækkun á stofnlánavöxtum til útgerðarinnar, þó að þskj. sýni augljóslega, að þeir voru á móti þessu. Þegar verið var að gera hér breyt. á fiskveiðasjóðslögunum og hér lá fyrir till. um það að hafa stofnlánavextina 3½%, þá kom hér till. frá framsóknarmönnum um að koma í veg fyrir þetta, en þm. mótmælti þessu. Hv. þm. sagði, að hann hefði ekki verið á móti þessu máli, heldur hefði hann ekki viljað flytja það. Það hefur ekki leynt sér í meðferð málsins, að hv. þm. er á móti því, og það er af þeim ástæðum, að hann vildi ekki flytja málið.

Hv. flm. till. vildi einnig gera mikið úr því, að ég mundi ekki hafa lesið þá till., sem hér liggur fyrir. Ég gerði þó till. allýtarlegri skil en hann, því að ég tók upp meginatriði hennar og sýndi, fram á hvað þessi till. færi. Raunar má vera, að ég hafi talað um það í minni ræðu, að gert væri ráð fyrir því í till., að sett yrði n. til þess að vinna þetta verk, en í þau skipti, sem hv. þm. hefur flutt þessa till. áður, var það einmitt hann sjálfur, sem vildi láta kjósa n. í þeim tilgangi, sem ég áður minntist á.

Þá voru það líka hrein undanbrögð hjá hv. þm., að reikningaskrifstofa sjávarútvegsins geti ekki unnið þetta verk, því að hún sé ekki enn tekin til starfa. Og mér er kunnugt um það, að atvmrh. hefur tilkynnt Fiskifélaginu það með bréfi, að ætlazt sé til þess, að skrifstofan taki til starfa. Þá er allt til staðar til þess að láta störf hennar hefjast, og skorti fé til framkvæmda, þá er að sækja um það, og ég býst við, að það mundi fást. Ég held þess vegna, að það hefði verið nær fyrir þennan hv. þm. að leggja til hér á Alþ., að rekstrarfé þessarar skrifstofu yrði aukið, heldur en að flytja þessa þáltill. sína. Reikningaskrifstofan átti að safna saman ýmiss konar þarflegum fróðleik um rekstur útgerðarinnar í landinu, og hún mun gera það og vinna þetta verk að því leyti, sem hægt er og nokkur ástæða til, að það sé unnið.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að ástæðan til þess, að ég og við sósíalistar vildum ekki fylgja þessari till., væri sennilega sú, að við værum hræddir við það, að úr því dæmi kæmi, að ekki sé hægt að gera út á Íslandi. Þarna sýnist mér gægjast allvel fram, hvað hann ætlast til og hvernig hann hyggur þessi mál liggja fyrir. Þetta mun líklega vera grunnhugsun þessa hv. þm., sem sagt, að fá dæmið sett upp þannig og reiknað, að það sanni fyrir mönnum, að ekki sé hægt að gera út á Íslandi, vegna þess að ég og aðrir vondir menn höfum stutt verðbólgustefnuna til vegs í landinu. Þetta er grunnhugsunin, sem vakir fyrir hv. flm. till. En það ætti ekki að fara fram hjá hv. þm., þótt það fari svo, þegar hann flytur áróður sinn í Tímanum og á Alþ., þá ætti það ekki að fara fram hjá honum, að útgerðin hefur staðið undir sér á undanförnum árum og betur þó, því að hún hefur borið þá bagga, sem á hana hafa verið lagðir til viðbótar, það ætti hann að vita manna bezt. Og það vita allir þeir, sem eitthvað hafa fengizt við útgerð, að með því að gera ráðstafanir, sem nú er verið að efna til, með því að fá mun stærri og betur útbúna báta í stað þeirra smáu og lélegu og fá 30 nýja togara í stað gömlu ryðkláfanna og auka okkar síldarverksmiðjur og treysta önnur framleiðslufyrirtæki í sambandi við sjávarútveginn, þá er það alveg víst, að hann skilar ekki aðeins sama hagnaði og undanfarin ár, heldur enn meiri, og sé dæmið sett rétt upp, mun það koma út, að það sé bezti atvinnuvegur á Íslandi að stunda sjávarútveg, og það er mergur þessa máls, en ekki, að það borgi sig ekki að gera út á Íslandi.