20.11.1945
Sameinað þing: 9. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (3692)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Flm. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. 6. landsk. (LJós) gaf ekki mikið tilefni til í ræðu sinni fyrir mig að svara. Hann sagði, að hæstv. atvmrh. hefði skrifað til Fiskifélagsins um það, að reikningaskrifstofan skyldi taka til starfa. Það er gott að heyra þetta, og mér liggur við að halda, að þetta sé fyrsti árangurinn af því, að þessi till. er hér flutt, því að þegar byrjað var að ræða málið, var það upplýst, að reikningaskrifstofan væri ekki tekin til starfa. Þannig hefur nokkuð áunnizt, með því að þetta upplýsir, að nú hafi verið tekin ákvörðun um það, að sú stofnun skuli taka til starfa. (LJós: Það er ár síðan hann skrifaði bréfið.) Er ár síðan? Hann hefur þá ekki mikið litið eftir því, að farið væri eftir bréfinu, því að skrifstofan var ekki tekin til starfa, og var borið við fjárskorti, og það er lítill myndarskapur í því að láta það ástand vara allan tímann síðan l. voru sett, að hún tæki ekki til starfa vegna skorts á fé. Ég hygg, að það hafi þegar sýnt sig, að ýmsum fjárgreiðslum ríkisstj. hefði verið eins vel varið til að sjá fyrir því, að þessi stofnun gæti farið af stað. Og hvað sem líður því, hvenær hæstv. atvmrh. (ÁkJ) hefur skrifað þetta bréf, þá er það lágmarksárangur þessarar till., að þessi stofnun geti tekið til starfa. Annars er það undarleg ósamkvæmni hjá hv. 6. landsk., þegar hann leggur mikið upp úr reikningaskrifstofunni, en segir svo, að það sé ekki hægt að komast að neinni niðurstöðu í þessu máli. En vitanlega er hægt að komast að þýðingarmikilli niðurstöðu, bæði til leiðbeininga, sem hún á að gera, og þó miklu fremur, ef málið er rannsakað í heild, eins og ég hef lagt til. Ég undirstrika það, að l. eru ekki fullnægjandi, þess vegna verður að fara fram fullkomin rannsókn í málinu.

Hv. þm. heldur sig við það, að grunnhugsun þessarar till. muni vera sú, að ekki muni reynast hægt að gera út hér á landi. Er hv. þm. hræddur um, að þetta verði útkoman? Hv. 6. landsk. þorir ekki að vera með því, að ríkisstj. nýsköpunarinnar verði falið að láta rannsaka afkomu sjávarútvegsins og segir, að ef till. verði samþ., muni það koma í ljós, að ekki sé hægt að gera hér út. Ég ætla ekki og vil ekki fullyrða neitt um það, eins og hv. þm. hefur gert. Hins vegar vil ég, að það komi fram, hvernig ástatt er, hvort sem það er gott eða slæmt. Sannleikurinn er sá, að það er hin vonda samvizka hv. 6. landsk., sem veldur því, að hann talar svart, þegar þetta mál ber á góma. Hv. þm. veit, að það er allt komið á fremsta hlunn með afkomu sjávarútvegsins. Og hér er frv. komið fram, sem minnir sérstaklega á kreppulánasjóð, eins og ég hef áður minnzt á, vegna útgerðarinnar og af því að síldveiðarnar brugðust á s. l. sumri. Og það er svo ástatt í þessu efni, að ef önnur útgerð fengi þó ekki væri nema eina aflaleysisvertíð, þá yrði að gera næstum hluta hennar sömu skil. Og það er ekki þannig ástatt vegna þess, að ekki sé hægt að gera út á Íslandi. Hvergi virðist betra að gera út en á Íslandi. En aðalástæðan, sem liggur til þess, að svona er komið fyrir útgerðinni, er sú, að menn eins og hv. 6. landsk. hafa fengið að ráða of miklu í landinu undanfarin ár og þeir vilja ekki, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að það komi í ljós, hvernig þeir hafa búið í haginn fyrir útgerðina. Þeim er það sannarlega vorkunnarmál, en þó er nauðsynlegt, að þetta verði gert.