25.10.1945
Neðri deild: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Hæstv. atvmrh. er ekki viðstaddur, en honum hefði fyrst og fremst borið að svara þessum orðum hv. 2. þm. N.-M., og það veit ég, að hann hefði gert, en fyrst hann er ekki við, þá tel ég rétt, að ég segi það, sem ég veit um málið. Það er í stuttu máli þannig, að nýbyggingarráð hefur samið frv. um fiskveiðasjóð og sent ríkisstj. og ýmsum öðrum aðilum, þar á meðal bæjarstj. á Seyðisfirði, fyrst hún hefur fundið ástæðu til að mæla með frv., og það hefur verið sent fleirum. Mér finnst óþarft af hv. þm. að vera að fetta fingur út í þetta. Það kann að vera formgalli að mæla með frv., áður en það kemur fram, en mér finnst það samt vera nokkuð langt sótt að vera að finna að því. Málið kemur, og þá verða þessi meðmæli tekin til athugunar.