18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

16. mál, fjárlög 1946

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Það eru fyrst smávægilegar brtt. þrjár, sem ég er aðalflm. að, og tvær, þar sem ég er meðflm. Sú fyrsta er á þskj. 362,XXIII, sem ég flyt ásamt þremur öðrum og er við 15. gr. Á.VIII, á þá leið, að aftan við fyrri málsgr. aths. bætist: og Steingrímur Matthíasson, fyrrum héraðslæknir, 5000 kr. heiðurslaun, að viðbættri verðlagsuppbót. — Það vill segja, að þessi maður fái 5000 kr. á sama hátt og Gunnar Gunnarsson 6000 kr. Steingrímur Matthíasson er nú að verða sjötugur. Hann hefur látið af embætti fyrir nokkrum árum. Fjárhagur hans leyfði honum ekki að dvelja hér á landi embættislaus. Hvarf hann til Danmerkur, þar sem hann hefur dvalið síðan. Í haust kom hann snögga ferð til Íslands, en hvarf þegar aftur utan og mun ekki sjá sér fært að koma hingað heim til að setjast hér að. Ég hef orð landlæknis fyrir því, að enginn íslenzkur maður hafi skrifað um heilbrigðismál til eins mikils gagns fyrir almenning og Steingrímur að J. Jónassen landlækni undanskildum. Munu rit hans hafa haft talsverða þýðingu. Auk þess ritaði hann allmikið um annað efni, og veit ég, að almenningur mun ekki telja hann síður launa verðan en marga aðra, sem fengið hafa ritlaun á undanförnum árum. Það er ekki ætlazt til, að upphæð þessi valdi hækkun á útgjöldunum.

Þá hef ég flutt brtt. á þskj. 352 við 15. gr. A.XII., þar sem lagt er til, að Guðjón Samúelsson húsameistari fái 50000 kr. heiðurslaun fyrir uppfinningu á múrhúðunaraðferð. Það hefur verið nokkuð um þetta rætt, og eru skiptar skoðanir á málinu. Ég tel engan efa á, að sanngjarnt er, að hann fái þessa þóknun fyrir uppgötvun sína. Hún var til þess hæf, að hann fengi einkaleyfi á henni, en hann fór ekki dult með hana og missti rétt til hennar hér, af því að hann hafði látið öðrum í té upplýsingar um aðferðina, áður en leyfið var fengið, og hann hugsaði meira um að láta uppfinningu sína koma að gagni þegar en að afla sér einkaleyfis á henni. Ég held, að allir séu sammála um, að þessi uppgötvun sé mjög mikilsverð fyrir íslenzka húsagerð, og virðist því rétt, að Guðjón Samúelsson sé heiðraður með því að veita honum þessa upphæð. Hins vegar er engin ástæða til að láta hana koma á eitt ár, heldur skipta henni á 5 ár, og komi þá 10 þús. næsta ár og jafnframt skal tekið fram, að það sé fyrsta greiðsla.

Um brtt. mína á þskj. 362, XXXIII, við 22. gr. V., þarf ekki að hafa mörg orð. Eins og kunnugt er, hefur þetta félag unnið að því að koma fornritum okkar út og selt þau ódýrara en aðrar bækur, sem út koma. Af því að Laxdæla var uppseld, réð félagið af að láta ljósprenta hana í Vesturheimi, en það hafði mikinn kostnað í för með sér. Félagið er hið mesta þjóðþrifafyrirtæki, og er því sanngjarnt, að því sé rétt hjálparhönd við starf sitt.

Ég er meðflm. að XVII. brtt. á sama þskj. Vænti ég, að ekki þurfi að fara mörgum orðum um till. þessa, svo nauðsynleg er hún, og er þess að vænta, að hv. þm. sjái sér fært að styðja að framgangi hennar.

Auk þeirra till., sem fyrir liggja frá fjvn., liggur mikið fyrir frá einstökum þm. Ég lagði allar upphæðirnar lauslega saman fyrir fáum kvöldum og reyndust þær samanlagt um 700000 kr. Hvað síðan hefur bætzt við, veit ég ekki. Þeir flm. hafa talað fyrir brtt. sínum. Flestar hinar stærri fjárhæðir eru vegna brúargerða. Flestir hafa sjálfsagt mælt ágætlega fyrir till. sínum. En ekki er hægt að byggja á einu ári allar þær brýr, sem byggja þarf á Íslandi. Vegamálastjóri hefur gert till. um þær brýr, sem taka ætti á næsta ári. Ég veit, að þessar framkvæmdatill. eru allar jafnnauðsynlegar, en reynslan hefur verið sú, að sumar af þeim till., sem fluttar eru við 3. umr., ná fram að ganga. Ég vildi því mega mælast til þess, að menn stilli till. sínum sem mest í hóf.

Ég vildi mæla með því, að brtt. XXI á þskj. 366 verði samþ. Vinnustöðinni á Reykjum er svo myndarlega stjórnað og hefur létt svo miklum gjöldum af ríkissjóði. Ég held, að allir, sem séð hafa, séu á einu máli um, að hér sé prýðilega af stað farið, og er heppilegt, að stofnunin fái eðlilega og heilbrigða þróun.

Þá get ég ekki annað en minnzt á VIII. brtt. á þskj. 362, um 3700000 kr. greiðslu til Suðurlandsvegar, og skal það vera fyrsta greiðsla af sex. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er búið að verja milljónum króna til vegagerðar um Krýsuvík: Ég hef aldrei haft mikla trú á, að vegaspursmálið yrði leyst með því móti að koma þeim vegi á: Ég var upphaflega á móti þeirri vegagerð og bar fram till. um veg um Þrengslin, en hún fékk ekki byr. Nú er, eftir því sem ég bezt veit, eftir að ljúka 30–40 km. kafla af Krýsuvíkurvegi og kostar mikið að ljúka því verki. En ég býst við, að úr því sem komið er, detti engum annað í hug en að ljúka þeim vegi. Það væri hringlandaskapur að hætta við hann í miðjum klíðum. Ef þær vonir, sem menn gerðu sér um þann veg, að hann yrði fær mestan hluta vetrarins, reynast réttar, þá er mikið með honum unnið og mæla öll skipulagsleg rök með því, að honum sé lokið áður en vegurinn um Þrengslin er lagður. Það er ljóst, að sú vegagerð kemur ekki að notum, fyrr en komið er niður í Ölfus. Hins vegar er það ljóst, að ef farið er að leggja fé í þennan veg, dregur það úr framlagi til Krýsuvíkurvegar. Ég efast ekki um, að það er stefna í rétta átt að fá veg um Þrengslin, en það er heldur engum til góðs að fara að basla við báða vegina samtímis. Ég held, að það eigi að leggja Krýsuvíkurveginn fyrst. Ef hann reynist eins vel og þeir bjartsýnustu álitu, þá er kannske ekki ástæða til að fara eins geyst af stað með Hellisheiðarveginn. Ég treysti mér ekki til annars en að greiða atkvæði á móti þessari till., þar sem fjárl, eru komin fram úr því, sem skynsamlegt má heita. Mér er engan veginn ljúft að taka þá afstöðu, en úr því að sagt hefur verið a, verður líka að segja b. Úr því að framkvæmdavaldið byrjaði á þessum vegi, verður að ljúka honum. Það býst ég við, að öllum sé ljóst. Hins vegar verður að taka tillit til greiðslugetu ríkissjóðs.

Ef till. fjvn. verða allar samþ., verður greiðsluhallinn 3½ millj. kr. Ég geri ráð fyrir, að eitthvað af till. þm. verði samþ., og má þá búast við, að rekstrarhalli verði nálægt 20 millj. kr. Ég býst við, að ekki séu skiptar skoðanir um það, að þetta verði óvarfærin afgreiðsla fjárl., og ekki sízt, þar sem nú síðustu dagana hafa borizt alvarlegar fréttir, en þar á ég við sölutregðu á fiski. En auðvitað er ekki unnt að miða fjárl. við það. Ef við gerum það, erum við þegar búnir að byggja stórhýsi á sandi. Við verðum að gera okkur vonir um, að salan verði með eðlilegum hætti á næsta ári. Sé ég enga ástæðu til að örvænta. Hins vegar liggur það fyrir, að þegar samþykktar fjárveitingar, sem ekki eru lögboðnar, nema 30 millj. kr., auk þess lögboðnar framkvæmdir. Það er einnig kunnugt, að ríkið og einstaklingar hafa stórkostlegar framkvæmdir í huga á næsta ári. Þegar þess er gætt, hvað boginn er spenntur hátt, sé ég ekki, að það sé með nokkru móti verjandi að hlaupa í kapp við framleiðsluna til að vinna að framkvæmdum, ef það kemur í ljós, að nægilegt vinnuafl fæst ekki til að vinna að hinum fyrirhuguðu verklegu framkvæmdum. Þess vegna tel ég nauðsynlegt, að stjórnin fái heimild til að draga úr verklegum framkvæmdum, ef henni sýnist svo. Hins vegar væru fjárlög með þessum greiðsluhalla óverjandi, ef ekki stæðu vonir til, að þetta færði tekju- og greiðsluafgang. Það er það eina, sem getur varið það, að stj. tekur á móti svona fjárl. Ef ég væri ekki bjartsýnn, mundi ég ekki sjá mér fært að halda áfram sem fjmrh. En nú er hvort tveggja, að ekki er séð fyrir endann á útgjöldum yfirstandandi árs og enn þá er eftir að greiða allmikið. Ekki er heldur séð, hvað tekjurnar verða miklar á næsta ári. Sumir tekjustofnar geta rýrnað og ekki þarf mikið til að þetta breytist. Þess vegna er nauðsynlegt, að ríkisstj. fái heimild til að taka lán, ef tekjurnar hrökkva ekki til. Ef til vill er hæpið, hvort stjórnarskráin heimili, að ríkisstj. geti tekið lán. En þessi leið hefur verið farin áður, og ætla ég, að það sé skynsamlegasta ráðstöfunin. Þess vegna leyfi ég mér að flytja brtt., sem komi sem síðasti liður við 22. gr. og er svohljóðandi: „Við 22. gr. XIX. Nýr liður: Að draga úr framlögum til verklegra framkvæmda, sem ekki eru bundin í öðrum l. en fjárl., um allt að 30%, eftir jöfnum hlutföllum, að því er við verður komið, svo framarlega sem ríkisstj. telur, að vinnuafl dragist um of frá framleiðslustörfum. Telji stj. hins vegar, að ekki sé ástæða til að draga úr framkvæmdum, skal henni heimilt að taka lán innanlands, allt að 15 millj. kr., ef tekjur ríkissjóðs hrökkva ekki fyrir gjöldum.“ Mér er það ljóst, að það hefur oft valdið ágreiningi, hvort sú leið sé rétt að heimila ríkisstj. að draga úr verklegum framkvæmdum, en ég held, að stj. sé sammála um það, og ég vona, að hv. alþm, skilji, að réttmætt er að veita stj. heimild þessa.