02.04.1946
Neðri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (3724)

63. mál, vegalagabreyting

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Samgmn. d. fékk á sínum tíma til meðferðar frv. það til l. um breyt. á vegalögum, er hér liggur fyrir. Einnig hefur n. haft til umr. allar hinar mörgu brtt. héðan úr d. út af téðu frv. Hv. d. er kunnugt um, að það viðgengst eðlilega, að þm., þegar till. kemur fram á Alþ. um breyt. á vegal. og brúal., koma með brtt. hver um annan þveran. Ég sagði eðlilega, því að svo er málum háttað, að öllum fulltrúum einstakra héraða er nauðsynlegt að reyna að koma á hentugum breyt. með till. sínum og eftir því, hversu hagar til á hverjum stað og hagkvæmast þykir. En svo víðtækar og margar hafa brtt. orðið við þetta frv., að n. hafði hvorki tök á því né nægan tíma til þess að kanna þær til hlítar. Þó hefur miklu meiri tími farið í þetta mál hjá n. en ætlað var í öndverðu, en hins vegar hefði mátt vinna meir að því. Málið hefur bæði reynzt veigamikið og flókið. Það var eigi búizt við, að þ. yrði svona langt, og taldi því n, ekki tök hafa á því verið að fá viðunanlega heildartill. Samgmn. d. sendi þess vegna allar till. til vegamálastjóra, og er umsögn hans um frv. á þskj. 515. Hann áleit, að málið væri ekki upphaflega svo vel undirbúið af einstökum þm., að hann gæti gert um það rökstuddar till. sjálfur. N. hefur orðið honum sammála, og telur hún eins og vegamálastjóri bezt, að allt málið verði tekið fyrir til rækilegrar athugunar fyrir næsta Alþ. Sú athugun ætti að leiða af sér rökstuddar till.

Vafalaust er, að till. hafa flestar eða jafnvel allar eitthvað til síns máls. Þess er þó að geta, að einmitt á þessu stigi hefur hér á þessu Alþ. orðið nokkur breyt., en hún varðar sýsluvegi, þ. e. ríkisfjárframlög þau, sem veita á til nýbygginga á akfærum sýsluvegum, þar sem reglur eru fyrir hendi um sýsluvegasjóði. Tillög í þá, þ. e. vegina, eru meiri en áður, hafa verið hækkuð. Hins vegar hefur þessa lítt gætt í till. þeim, er hér liggja fyrir, en þær hníga allar í þá átt að koma vegum yfir á ríkið, m. ö. o. gera viðkomandi vegi að þjóðvegum.

N. lítur svo á, að héruð þau, er hafa samþykktir um sýsluvegasjóði, séu betur stæð en hin. Þar kemur enginn samanburður til greina. Þessi hin héruð standa ólíkt verr að vígi. Ætti að athuga, hvað þar er hægt að gera. Væri eðlilegt, að fyrst væri látið í þá vegi, sem ekki hafa sýsluvegasjóði. Því ber þó eigi að neita, að hins vegar geta sums staðar verið ríkar ástæður fyrir hendi e. t. v. hjá þeim héruðum, er hafa sýsluvegasjóði, til þess að koma ýmsum héraðsvegum í þjóðvegatölu.

En svo hagar til um þetta allt, að taka þarf til gagngerðrar athugunar, hvað eigi að gera, og kanna verður málið enn meir, áður en þingið fer að samþ. einstakar till. frá fulltrúunum. Þótt svo sé, að n. hafi fallizt á eftir atvikum að leggja til, að málið í heild verði afgr. með rökst. dagskrá, sem í nál. á þskj. 515 greinir, þá hefði n. helzt kosið, að hægt hefði verið að samþykkja hér eitthvað, en því er því miður eigi að heilsa, eins og á stendur.

Ég vænti þess, að hv. þdm. geti eftir atvikum fallizt á, að viturlegast og æskilegast sé að koma málinu svo á rekspöl, að það geti legið vel undirbúið fyrir næsta Alþ. Vettlingatök eru orðin alveg vita gagnslaus í þessu máli, og leggur n. því til að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, „í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um, að vegamálastjóri undirbúi fyrir næsta Alþ. þá endurskoðun á gildandi vegal., sem sanngjarnt og nauðsynlegt telst, að teknu tilliti til brtt., er fram eru komnar eða fram kunna að koma á yfirstandandi þingi“, — enda sjálfsagt, að l. þessi séu tekin til endurskoðunar með ákveðnu árabili. Segja má, að 12 ár séu liðin frá því er síðast var nokkuð tekið á þessum málum í ákveðnum tilgangi. En vegal. eru frá 1933.

Fleira er í l. sem þyrfti að breyta og laga eftir, því, hvernig nú er ástatt. Vil ég hér aðeins geta um eina breyt., sem vegamálastjóri kom inn á, sbr. þskj. 218, en hún snertir ákvæði um hreppavegi, þ. e. ákvæði um, hvert vera skuli hreppavegagjald. En ég segi, að þetta gjald er orðið úrelt, þótt vegamálastjóri leggi til, að það verði látið ganga fram, reyndar með breyt., og hafi jafnvel talið það eðlilegt. En hann fór hins vegar ekki inn á hið róttækara atriðið, nefnilega að hreppavegagjaldið er orðið steingervingur og á að hverfa. Það er persónugjald, og svo er nú hitt, að eigi er hægt að reikna það lengur til nytja. Aðalgjöld verður vitanlega að miða við önnur gjöld, sýslugjöld og niðurjöfnunargjöld. Gjaldið byggist eðlilega á því, að jafnað sé réttilega niður eftir efnum og ástæðum.

En fái hin rökst. dagskrá framgang til samþykktar, þá liggur allt þetta fyrir til frekari athugunar og aðgerða.

Ég ætla svo að vona, að hv. flm. hinna mörgu till. sætti sig við þessa afgreiðslu málsins og sjái, að hún er bezta leiðin til viðunanlegrar meðferðar.